07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eins og hv. alþm. er kunnugt um telst ég vist ekki lengur til Alþfl., heldur til stjórnmálasamtaka sem eru í burðarliðnum. En það, herra forseti, breytir ekki því, að ég tel mér skylt að kannast við fulla ábyrgð á því sem ég hef staðið að hér á mínum ferli, einnig þegar ég taldist til þess sem ég hef sagt skilið við. Ég ber, eins og hv. 11. þm. Reykv., fulla ábyrgð á lögum sem manna á meðal eru kölluð Ólafslög og mér finnst að við ættum báðir að vera menn til að kannast við þá ábyrgð sem við berum á þessum lögum. Að vísu vildu a.m.k. nokkrir í Alþfl. heldur hafa lögin eins og þau litu út þremur vikum áður en þau endanlega voru hér samþykki, eins og þeir hv. þm. sem þá sátu á Alþingi efalítið muna. Á þeim tíma var flutt till. um að leggja þau lög, eins og þau þá voru, undir þjóðaratkvæði, sem menn efalítið muna einnig. En kjarni málsins er sá, að ég er eiginlega gáttaður á því að hv. 11. þm. Reykv. skuli tala eins og hann gerir og vera að rekja ábyrgð á framkvæmd laga til baka með þeim hætti sem hann gerir.

Þannig er, að eins og þetta kerfi okkar er byggt upp þarf meiri hluta á þessu háa Alþingi sem stendur að ríkisstjórn. Þessi meiri hluti getur breytt lögum hvenær sem er, þar með talinni 14. gr. nefndra laga. En það gerir hann ekki, heldur moðar stöðugt og ruglar á milli og kennir öðrum um ábyrgð á lögum sem hann sjálfur framkvæmir. Þeir stjórnarliðar rugla stöðugt um framkvæmdina á 33. gr. nefndra laga. Ég vil rifja upp, vegna þess að hér nota menn allt of mikið orð eins og heilindi, að þegar átti að fara að framkvæma 33. gr. nefndra Ólafslaga, nefnilega í verðtryggingarmálum, hóf Þjóðviljinn mikla herferð á hendur okkar, sem vissulega áttum frumkvæðið að því að sú grein varð til, um hversu vondir við værum við húsbyggjendur. Einnig gerðist það 1. sept., þegar næsta hækkun átti að koma til, og þá var stjórnarsamstarfið búið. Og þó að það þyrfti að draga einn hv. ráðh. með töngum út úr ríkisstjórninni, eins og menn vita, stóð meiri hluti í mínum gamla flokki allt öðruvísi að þeim málum. En sleppum þeirri hörmungarsögu í bili.

Kjarni málsins er þessi, að í fyrsta lagi eiga menn að kannast við þau lög sem þeir hér samþykkja. Ég geri það, tek fulla ábyrgð á nefndum lögum, og er meira að segja Stoltur af, þó ég hefði heldur viljað hafa þau eins og þau voru þremur vikum fyrr. En það er önnur saga.

En í annan stað finnst mér afleitt, og ég nefni til hv. 11. þm. Reykv., sem ég met meira en marga aðra hér, að greiða atkvæði lögum, en kannast svo ekki við þau í framkvæmd, eins og vaxtaklásúlurnar og eins og viðskiptakjaravísitöluna. Þessu hefði meiri hluti getað breytt, sé hann þeirrar skoðunar að viðskiptakjaravísitalan sé röng. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Hann hefði getað breytt því en gerir það ekki. Þeir samþykktu vaxtaklásúlurnar, en réðust stöðugt á framkvæmdina á þeim. Hvernig átti slíkt að ganga? Það gekk ekki. Þeir samþykktu viðskiptakjaraviðmiðunina, en eru nú að ráðast á framkvæmdina á henni og segja: Það er einhver gamall meiri hluti, sem var hér fyrir síðustu kosningar, sem ber ábyrgð á svokallaðri kjaraskerðingu — sem er auðvitað rangnefni eins og hv. 3. þm. Austurl. sagði réttilega áðan.

Það er þetta rugl með hvað er meiri hluti á Alþingi, hverjir setja lögin og hverjir framkvæma þau sem enn brýst fram og nú hjá þeim sem síst skyldi finnst mér satt að segja. Núverandi 4. þm. Reykv. og núverandi hv. 11. þm. Reykv. stóðu báðir að nefndum lögum og eiga báðir að kannast við að hafa gert það. Við getum gert það með mismunandi stolti. Sjálfur er ég stoltur af því, en hv. 11. þm. Reykv. kannske ekki. En þeir orðaleikir, sem hér eru settir upp. Ég rifja upp eina skelfilega afleiðingu þess. Á tveimur næstu vaxtatímabilum samkv. vaxtastefnu Ólafslaga fóru viss stjórnmálasamtök herferð á hendur þeim sem áttu að framkvæma lögin. Hvernig gat þetta gengið? Ég skal greina hv. Alþingi frá því að ég hélt að þetta gengi yfir einu sinni, en þegar það kom fyrir í annað skiptið, þ.e. í september, vissi ég að stjórnarsamstarfinu var lokið, enda dó stjórnin mánuði seinna. Allt er þetta vegna óheiðarleika. Það er ekki heiðarlegt að greiða lögum atkvæði, en neita hins vegar að kannast við efni þeirra, meira að segja að framkvæma þau og skilja ekki að hlutverk framkvæmdavalds er það eitt að framfylgja lögum sem Alþingi hefur sett.

Enn má rekja veikleika í þessu kerfi til þessa fádæma ruglings. Stöðu sinnar vegna finnst mér að hv. 11. þm. Reykv. sé sá síðasti, eða einn af þeim síðustu, sem megi gera sig enn sekan um þennan rugling. Nefnd grein laganna, sú 33., er staðreynd. Hún var studd meirihlutavilja Alþingis á sínum tíma og hana átti að framkvæma. Það gerðu ekki allir — réðust meira að segja að og kenndu einum aðilanum um þó að þeir væru 40 sem að þessum lögum stæðu — og hafa með því gengið frá þeirri ríkisstjórn sem þá sat. Víst urðu vandræði í mínum gamla flokki, eins og hv. 5. þm. Suðurl. mundi sennilega þekkja hér manna gleggst, en það var aukaatriði sem til varð síðar.

Það er kjarni málsins, herra forseti, að þingmeirihluti getur vitaskuld hvenær sem er breytt lögum. Okkar kerfi er þannig uppbyggt, að til þess að standa að ríkisstjórn, fá heimild til að mynda hana og reka hana hér á þinginu, þarf m.a.s. aukinn meiri hluta, 32 þingmenn. Sömu 32 þingmenn geta hvenær sem er breytt lögum. Ef þessir herramenn eru svo mikið á móti viðskiptakjaravísitölunni er þeim hægur vandi að afleggja hana. Það gera þeir ekki. Ef þeim er svo mikið í mun að vextir skuli vera dúndrandi neikvæðir geta þeir breytt 33. gr. nefndra laga. En það gera þeir ekki. Og af hverju gera þeir það ekki? Til að geta þeytt upp þessu viðurstyggilega moldviðri og kennt um þingmeirihluta sem búið er að kjósa burtu. Það eru meira að segja búnar að vera kosningar í millitíðinni. Allt er þetta til þess að geta leikið þessa Heimdallaleiki, þessa stresstöskuleiki, þessa pólitísku leiki staksteinahöfunda á öllum dagblöðunum. Það er þetta. En aukin upplýsing í þessu samfélagi er farin að sjá í gegnum þessa leiki. (ÓRG: Sú upplýsing hefur ekki enn náð til þm.) Það er ég hræddur um að hún hafi gert, hv. þm. Það er ég hræddur um að sé nákvæmlega það sem hefur gerst.

Herra forseti. Ég vil aðeins draga saman þessi efnisatriði: Meiri hl. hv. Alþingis getur hvenær sem er breytt lögum. Það gengur ekki að kenna framkvæmd laga þeim meiri hl. sem var til staðar fyrir þremur árum. Ef núverandi meiri hl. vill breyta lögum á hann að vera til staðar, sé það vilji ríkisstj. Og ríkisstj. og þeir sem að henni standa á umfram allt að kannast við framkvæmd þeirra laga sem verið er að framkvæma eða breyta þeim ella. Í því er hin ranga hugsun hv. þm. fólgin.