16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

272. mál, endurskoðun á reglugerð um ökukennslu

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil í framhaldi af svörum hæstv. dómsmrh. undirstrika mikilvægi þess, að til þeirra reglna sem gilda um bæði menntun ökukennara og um starf þeirra og kennslu og þá þjónustu sem þeir inna af hendi séu að öllu leyti gerðar nútímalegar kröfur því að það þarf ekki að undirstrika hversu mikilvæg sú starfsemi sem þar fer fram er af ýmsum ástæðum sem blasa við og ég hirði ekki um að vera að nefna frekar.

En einu hjó ég eftir í svari hæstv. dómsmrh., sem ég a.m.k. vona að sé heldur óvenjulegt, og það er það, að hann sagði að í upphafi árs 1980 hefðu störf nefnds starfshóps lagst niður. Mér er það alveg óskiljanlegt. Þessi starfshópur er skipaður í nóv. 1979 af augljósum ástæðum, af augljósri þörf og fyrir beiðni þeirra manna sem gerst þekkja til. En ráðh. segir, sem tók við embætti í febr. 1980, að störf hópsins hafi lagst niður. Ég vil undirstrika það, að forustu fyrir hópnum hafði starfsmaður í nefndu rn., en segir nú — að þremur árum liðnum — að það sé aftur að lifna yfir hópnum. Ég vona að hv. alþm. skilji að þessi er m.a. ástæðan fyrir því að spurningin er borin fram, því að minnsta kosti sumir þeirra sem í hópnum voru, voru nokkuð uggandi um hvernig starfi hans fram yndi. Og ég vildi satt að segja, bæði af almennum ástæðum og þeirri sérstöku ástæðu sem hér er spurt um, spyrja dómsmrh. aftur og biðja um skýr svör: Af hverju lágu störf niðri um tveggja til þriggja ára skeið frá því snemma á árinu 1980? Af hverju sofnaði þessi hópur — þó svo ég þakki fyrir að á síðustu mánuðum hafi verið að lifna yfir honum á nýjan leik?

Ég vek athygli á um hversu mikilvægt málefni hér er verið að spyrja og að hæstv. ráðh. segir í sínu svari að hópurinn hafi sofnað um tveggja til þriggja ára skeið. Mér er ljóst að það er kannske ekki allt líflegt sem er að gerast á þessum slóðum, en mér er alveg sama. Hér er um sýnist mér, mjög óvenjulegt mál að ræða. Að hluta til er mér málið skylt, því að ég átti hlut að því að þessi hópur fór af stað, og ég spyr: Af hverju sofnaði þessi nefnd um tveggja til þriggja ára skeið? Ég óska eftir svari hér og nú, herra forseti.