16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár og vil byrja á að þakka forseta Sþ. fyrir þá heimild sem hann hefur til slíks veitt.

Ástæður fyrir því að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár eru þær, að á laugardaginn kemur, eftir því sem ég kemst næst, fara hv. alþm. í jólaleyfi og eftir því sem ég ennfremur kemst næst er talað um að þm. komi saman á nýjan leik hinn 17. jan. Það hefur verið hald manna um alllangt skeið að tillögur um breytingar á stjórnarskrá, sem unnar hefðu verið væntanlega í svokallaðri stjórnarskrárnefnd, yrðu lagðar fyrir Alþingi fyrir áramót, en af þeim dagsetningum sem ég hef nefnt er augljóst að varla verður af því á þessu ári. Eins og blasir auðvitað við og hv. alþm. er um kunnugt hlýtur þessi staðreynd að vekja nokkrar spurningar, m.a. vegna þess að af öðrum ástæðum liggur í loftinu og hefur verið um það rætt að þing verði hugsanlega rofið um miðjan febrúar og efnt til kosninga síðast í apríl. Um þetta hafa vitaskuld engar staðfestar yfirlýsingar verið útgefnar, en ég hygg að menn geti verið sammála um það orðalag að slíkt hafi legið í loftinu.

Þegar þessar tímasetningar eru allar skoðaðar í samhengi hlýtur að vera eðlilegt að hér á hinu háa Alþingi sé um það spurt og um það fáist upplýsingar áður en hv. alþm. fara í jólaleyfi, hvernig hæstv. forsrh., sem jafnframt er formaður stjórnarskrárnefndar, a.m.k. hugsar sér tímasetningar í þessum efnum. Fyrir vikið hef ég leyft mér, og fengið til þess leyfi forseta og raunar leyfi hæstv. forsrh. einnig, að bera upp við hæstv. forsrh. nokkrar spurningar, sem honum voru kynntar í morgun, sem er eðlilegt eðli málsins samkv. En að þessum spurningum vil ég þó hafa örstuttan formála.

Stjórnarskrárnefnd hefur starfað á fimmta ár. Hún er vinnuhópur á vegum Alþingis. Í henni sitja tveir fulltrúar frá hverjum hinna gömlu stjórnmálaflokka, alls 8. Það er alveg ljóst, að á störfum þessarar nefndar hefur verið mikill hægagangur.

Íhugum alls almennings og í hugum hv. alþm. einnig er störfum nefndarinnar tvískipt. Annars vegar eru þau sem fjalla um almenn ákvæði stjórnarskrárinnar og hins vegar þau sem fjalla um svokallað kjördæmamál og þá er átt við leiðréttingar á misvægi atkv. í landinu, með hverjum hætti sem það yrði framkvæmt.

Mér sýndist meðan ég starfaði í þingflokki Alþfl. og gat fylgst með þar að vinna nefndarinnar væri skammt á veg komin í hinum almennu ákvæðum, það sé ekki rétt, sem frá er greint, að henni sé lokið, þ.e. umfjöllun um ýmis nútímaleg ákvæði sem menn t.d. erlendis fjalla um við svipaðar aðstæður. Um það er ekki fjallað á þessu vinnustigi. En hitt er kannske lakara, þ.e. hinn armur þessa verks. Þar virðist vera sprunga í gegnum gamla flokkakerfið þvert og endilangt.

Um það ganga upplýsingar að á leiðinni hafi verið samkomulag um svokallað nýsköpunarform — það orð er notað í sögulegu tilliti — undir forustu Alþb., Alþfl. og Sjálfstfl. eða fyrir forgöngu forustumanna þessara flokka hafi verið gerð tilraun um að gera pólitískt bandalag framhjá fjórða stjórnmálaflokknum í hefðbundnum skilningi þess orðs. Þetta er raunar ekki óopinberri orðrómur en svo, að hæstv. utanrrh. hefur lýst þessu í blaðaviðtali, og ég segi það skilyrt, og væri svo komið — ég held að það hafi verið svo orðað — nálgaðist það að vera stjórnarrof. Eru sjónarmið hæstv. utanrrh. auðvitað ákaflega eðlileg í þeim efnum, a.m.k. ef miðað er við hefð.

Þetta eru auðvitað allnokkur tíðindi. Það eru gerðar tilraunir, án þess að nokkur maður um það viti, t.d. aðrir hér í þingsölum, hvað þá þjóðin og allur almenningur, til að ná samkomulagi sem mér skilst að hafi falið í sér fjölgun um þrjá þm. og breyttar reiknireglur í kjördæmunum. Það er auðvitað ekki nokkur lausn, en tilraun þó. Mér er svo sagt að það hafi gerst á föstudaginn var, sem eru auðvitað allnokkur tíðindi líka, að Sjálfstfl. hafi sprungið í umr. um þetta þannig að þessi lausn sé úr sögunni í bili.

Allt eru þetta auðvitað allnokkur tíðindi. En þetta er ekki einkamál t.d. formanna þriggja af gömlu stjórnmálaflokkunum. Þetta er mál sem öllum almenningi kemur við. Ég geri ráð fyrir að verið sé að finna lausn sem verndi óbreytt hagsmunakerfi í landinu. En það sem við mörg höfum ástæðu til að óttast er það, að hugmyndin hefur verið sú — ég veit ekki hversu langt eða skammt lausn af þessu tagi kann að hafa verið komin — að leggja fram slíka till. í þinginu framhjá Framsfl. og framhjá þeim sem teljast utan flokka og reyna að böðla því í gegn á skömmum tíma. Sé þetta hugmyndin er það náttúrlega ótækt með öllu. Þess utan eru eftir sjálfsagðir pólitískir mannasiðir í því formi sem við höfum, sem eru fundir af einu eða öðru tagi, að leitast við að spyrja þjóðina sjálfa hvaða skoðanir hún kunni að hafa á slíkum málum.

En ég endurtek það, að hafi verið samkomulag í uppsiglingu, sem þó sprakk á föstudag, eins og menn mæla hér sín á milli, og séu menn ennfremur enn að tala um þingrof í febr., þá sýnist mér staðreyndir í þessum efnum varðandi tíma vera þannig, að þær bitni einkum á fólkinu í landinu, sem er nú flest utan þessarar stofnunar. Það eru atriði í þessu, fari ég ekki einhvers staðar villur vega um dagsetningar, sem ganga einfaldlega ekki upp. Nú er ljóst að engar slíkar tillögur liggja fyrir fyrir áramót og þá er nú tíminn orðinn býsna naumur.

Það er ljóst að hæstv. ríkisstj. sem nú situr hefur ekki löggjafarvald í eiginlegum skilningi. Til þess skortir hana styrk í annarri deildinni. Hún á auðvitað seturétt svo lengi sem hún kýs, en löggjafarvald hefur hún ekki. Ég held að ég kynni hér ótta margra þegar ég segi að menn óttast að veikleiki núv. hæstv. ríkisstj. verði til þess að gripið verði til pólitískra örþrifaráða. Pólitísk örþrifaráð eru t.d. að grípa í skyndingu, í pólitísku fáti, til þingrofs. En menn skyldu athuga að það væri mjög alvarleg athöfn, ef það t.d. fæli í sér að öllum þessum málum væri slegið á frest um fjögur ár ennþá, vegna þess að skekkjurnar í kjördæmamálinu eru augljósar og færa má að því gild rök að þær skekkjur valdi jafnvægisleysi í efnahagslífinu, því sem við þekkjum mætavel.

Þau sjónarmið mín geta ekki komið neinum á óvart, að ég er þeirrar skoðunar að það sé alvarlegur trúnaðarbrestur milli gamla flokkakerfisins eins og það leggur sig og almennings í þessu landi. Ég hlýt að draga þá ályktun, að svo kunni að vera að verið sé að gera tilraun til þess og beitt sé til þess hraða að bola hér breytingum í gegn án þess að raunverulega sé spurt, eftir — ekki formlegum lýðræðislegum leiðum, heldur þeim óformlegu lýðræðislegu leiðum sem t.d. fundir af einu eða öðru tagi eru.

Við hljótum að líta það, svo að ég noti klassíska íslenska setningu, alvarlegum augum þegar það kvisast hér um þingsali og er rætt um það í blöðum að forustumenn þriggja af gömlu flokkunum séu á góðri leið með að ná samkomulagi, þó svo það sé sprungið, og það eigi að þvinga það í gegn með hraði. Slíkt hefur auðvitað verið gert. (Forseti: Ég vil biðja ræðumann að stytta mál sitt.) Ég mun gera það, herra forseti. Forseti mun væntanlega sammála um að við erum að tala um alvörumál í þessum efnum, en ég mun auðvitað verða við þessum tilmælum.

Ég held að ég tali fyrir fleiri en sjálfan mig, herra forseti, þegar ég segi að óttinn við að í uppsiglingu kunni að vera að beitt verði pólitískum bolabrögðum í þessum efnum er til staðar víðar en hjá þeim sem nú stendur í þessum ræðustól. Einnig segi ég þetta vegna þess að sjálfur stend ég að till. til þál. um lausn á þessu máli með allt öðrum hætti en hér hefur verið talað um. Þetta þekkja hv. þm. Komi fram frv. verða þessar hugmyndir auðvitað kynntar þar í formi brtt. Sennilega verða þær fleiri en ein. En allt um það held ég að fyrir þessum ótta, sem ég hér hef nefnt, sé full ástæða. Þess vegna, herra forseti, hef ég leyft mér að bera eftirfarandi spurningar undir hæstv. forsrh., sem hann hefur tjáð mér að hann muni vera svo vinsamlegur og svara. (Gripið fram í.) Ég sagði vinsamlegur. Ég meina það.

1. Er samkomulag í sjónmáli í stjórnarskrárnefnd um tillögur í svokölluðu kjördæmamáli?

Ég vil aðeins flytja þá skýringu við þessa spurningu, að það hefur verið send reiknibók frá þessari nefnd, sem tiltekur einar 20 reiknikúnstir, en snertir hvergi á pólitískum raunveruleika í þessu máli. Þessi bók veldur áhyggjum vegna þess að hún er auðvitað lýsandi dæmi um að þarna er ekkert samkomulag. En engu að síður er svona spurt.

Í annan stað er svona spurt: Er forsrh. kunnugt um tillögur og jafnvel samkomulag forustumanna stjórnmálaflokkanna utan stjórnarskrárnefndar um breytingar í kjördæmamálinu?

Hér er auðvitað spurt af fyllstu ástæðu. Um þetta hefur verið fjallað í blöðum, þó svo þeir sem aðild eigi að málinu hafi ekki skýrt frá því með beinum hætti. Ég nefni sérstaklega að hæstv. utanrrh. hefur tjáð sig um það opinberlega hvað slíkt bandalag, sem yrði þá öðruvísi en það bandalag sem stendur að núv. hæstv. ríkisstj., hefði í för með sér. Ég tek undir almenna sjónarmiðið í því sem hann sagði í dagblaðinu Tímanum þar um.

Í þriðja lagi er spurt: Hvenær er þess að vænta að hæstv. forsrh. leggi drög að nýrri stjórnarskrá fyrir Alþingi, þar sem verða tillögur um svokölluð kjördæmamál? Eru líkur á því að slíkar tillögur njóti fyrir fram meirihlutafylgis hv. alþm.?

Hér er auðvitað ekki spurt að ástæðulausu og þar sem menn spyrja um meirihlutafylgi er auðvitað einkum átt við svokallað kjördæmamál.

Í fjórða lagi er spurt: Hvað teldi hæstv. forsrh. að Alþingi þyrfti langan tíma til að fjalla um nýja stjórnarskrá, þar með talin kjördæmamál?

Hér er spurt vegna grunsemda um að beita eigi pólitískum bolabrögðum.

Í fimmta lagi er spurt: Með hverjum hætti er ætlað að kynna þjóðinni drög að nýrri stjórnarskrá, áður en Alþingi tekur um hana endanlega ákvörðun?

Ég vil skjóta að þeirri persónulegu skoðun minni, að það er náttúrlega fáheyrt að ætla sér að afgreiða svona mál á 10 dögum, hafi einhverjum dottið það í hug. Við höfum ástæðu til að ætla að mönnum hafi í alvöru dottið slíkt í hug. Annars væru þeir ekki að tala um samkomulag á föstudaginn eða þingrof í febr. Annars væru menn ekki að tala um samkomulag síðla í des. og kosningar eða þingrof í febr. Því er spurt.

Og í sjötta lagi, sem er kannske einnig meiri háttar áhyggjuefni: Kemur til greina, að mati hæstv. forsrh., að beita þingrofsrétti áður en drög að nýrri stjórnarskrá hafi verið lögð fram og umr. farið fram um hana? Og ennfremur: Kemur til greina að beita þingrofsrétti áður en breytingar hafa verið gerðar í svokölluðum kjördæmamálum?

Lögformlega dreg ég auðvitað ekki frekar en nokkur maður í efa að þingrofsrétturinn er hjá hæstv. forsrh., en ég vil segja það, sem ég hef sagt áður, að ég teldi pólitískt óhæfuverk að beita þingrofsréttinum við þessar aðstæður. Það vald felur í sér valdið til að framlengja óbreytt ástand um tiltekinn árafjölda, allt upp í fjögur ár, og ef niðurstaðan af augljósum veikleikamerkjum í núverandi stjórnarsamstarfi, sem ég vil þó ekki gera meira úr en efni standa til, verður til þess að menn grípa til þess í pólitísku fáti að beita þingrofi, t.d. af því að menn kynnu að vera hræddir við nýtt stjórnmálaafl, væri að minni hyggju afar ranglega að farið. Því óska ég eftir, herra forseti, að fyrir liggi í opinberum heimildum svör og skoðanir hæstv. forsrh. í þessum efnum áður en hv. alþm. ganga til jólaleyfis.