26.11.1986
Efri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

186. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Það frv. sem hér um ræðir er að mínu mati hið versta mál og ætla ég kannske ekki að viðhafa mörg eða mikið sterkari orð um það. Hið jákvæðasta við þetta mál eru þó lokaorð grg. þar sem flm. lýsa því yfir að þeir séu að sjálfsögðu tilbúnir að athuga með opnum huga aðrar tillögur til lausnar á þessum vanda sem við er að eiga og verður að fá lausn á.

Ég veit ekki hvort það er að bera í bakkafullan lækinn að viðhafa yfir mönnum orðræður um gildi og eðli þess sem flm. kallar hér frjálsan markað, þ.e. spurning um eftirspurn og framboð, og að viðhafa langar orðræður um hvers vegna málum er komið úti á landi eins og nú er háttað, svo allt öðruvísi og miklu verr en þau voru fyrir um það bil tíu árum. Við upplifðum það fyrir rúmlega tíu árum að það var nokkurn veginn jafnvægi í byggð landsins, þó nokkur flutningur af fólki frá þéttbýlisstöðum út á land. Við vitum öll hvað það var sem orsakaði þennan flutning. Það var mjög mikið átak í endurnýjun og nýsköpun atvinnulífs úti á landi. Við vitum líka að þetta mikla átak kostaði okkur Íslendinga gífurlega mikið. Við vitum að fasteignaverð rauk t.d. á þessum tíma upp úr öllu valdi einfaldlega vegna þess að á þeim tíma kostuðu peningar ekki neitt. Þess vegna skipti engu máli hvaða verð var sett á fasteignirnar.

Í dag kosta peningar það sem þeir eiga að kosta, þ.e. verðbólgan er komin það langt niður að menn borga markaðsverð fyrir peningana og við það falla þær eignir, sem byggðar voru að mestu leyti fyrir brennandi fé, í verði. Að koma svo með frv. af þessu tagi til að lagfæra þetta er að mínu viti ekki til þess fallið að lagfæra eitt eða neitt heldur að rugla enn þá meira.

Sérstaklega finnst mér slæmt að menn búa sér til ákveðinn réttlætiskvarða sem mælir fólk mjög misjafnt. Hér er skýrsla frá Stefáni Ingólfssyni, verkfræðingi Fasteignamats ríkisins, sem segir okkur ýmislegt um söluverð, staðgreiðsluverð, byggingarkostnað og annað fleira. Þar gefa menn sér m.a. að verð á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu sé sama sem 100 og síðan mæla menn allt annað út frá því.

Í 4. töflu, sem fylgir með í þessu þskj., kemur í ljós að þessu er allt öðruvísi farið, að mismunurinn á staðgreiðsluverði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, og þá er ég að tala sérstaklega um Reykjavík, og byggingarkostnaði er gífurlega mikill. Menn fá ekki í Reykjavík sem staðgreiðsluverð af íbúðarhúsnæði nema 73% af byggingarkostnaði. Ég leyfi mér að efast um að flm. séu að leggja til að í þeim 3500 íbúðakaupum sem fram fara í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu gildi það lögmál að þeim sem eiga í þeim viðskiptum verði þau verðbætt að 27% til þess að þau nái sanngirnisverði sem hlýtur að vera byggingarkostnaður a.m.k. Ég legg þann skilning í orð flm. að hann sé ekki að tala um annað en það að menn nái þó a.m.k. inn byggingarkostnaði þegar þeir selja eignir sínar.

Ég verð að viðurkenna að mig brestur skilning til að átta mig á þeirri sálfræði að það þurfi ekki að kaupa nema örfáar eignir til þess að örva áhuga fólks til að kaupa fasteignir á viðkomandi stað. Mér kemur þetta fyrir sjónir eins og spilamennska í póker þegar menn eru að bjóða í pottinn takandi séns á því að aðrir spilamenn séu með verri spil en þeir sjálfir. Ég sé ekki hvaða röksemdir er hægt að færa fyrir því að með því að sá sjóður sem flm. er að mæla fyrir í frv. kaupi eina, tvær eða þrjár eða tíu fasteignir á Akranesi hækki sjálfkrafa fasteignaverð á Akranesi. Ég fæ heldur ekki séð hvaða réttlæti er í því fólgið að einhverjir, að því ég fæ best séð, pólitískt kjörnir fulltrúar í samvinnu við sveitarfélög velji úr einhverja gullkálfa á hverjum stað sem mega njóta þessara viðskipta en aðrir verði að borga brúsann að fullu. Hann virtist greinilega gera ráð fyrir því í sínum orðum að ekki yrði þarna um fulla þátttöku sjóðsins að ræða í öllum fasteignaviðskiptum.

Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því hvernig menn ætla að koma sér undan því að þar sem land er með lögum byggt gangi sömu lög yfir alla og þar af leiðandi felist einfaldlega í þessu frv. loforð um að þessi sjóður komi inn í t.d. fasteignaviðskipti á höfuðborgarsvæðinu með því að bæta meðalstaðgreiðsluverð húsnæðis hér að 27%. Miðað við þann fjölda eigna sem seldur er á þessu svæði, um 3000 eignir segjum við, og miðað við að menn þurfi að bæta þarna á milli, að því er ég fæ best séð, um 7 þús. kr. pr. einingu geta menn margfaldað hvaða kostnaður þarna er á ferðinni og áttað sig á því hversu óraunhæft frv. af þessu tagi er.

Þá spyr maður: Hvers vegna er svona frv. fram komið? Þetta frv. er líklega ekkert annað en eitt af þessum dæmigerðu frv. á kosningaári þar sem menn auglýsa sjálfa þig með því að þeir vilji verða góðir við börn og gamalmenni. Þetta frv. er af mjög svipuðum toga, tel ég, og frv. Kvennalistans um lágmarkslaun, óframkvæmanlegt en óskaplega fallegt og kristilegt þegar það er fram sett, en vita vonlaust að nokkurn tíma verði hægt einu sinni að taka undir sjónarmið af þessu tagi.