12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

1. mál, fjárlög 1987

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Þegar maður verður vitni að asnaspörkum þessarar ríkisstjórnar kemur manni oft í hug maðurinn sem sagði að það væri þó vænlegt til þess að hugsa að heimurinn þróaðist þrátt fyrir tilverknað stjórnmálamanna.

Ég tala hér, herra forseti, til þess að kynna brtt. sem ég hef í huga að flytja við fjárlög en ekki fyrr en við 3. umr. og ekki nema tilefni sé til. Þessi brtt. er við 4. gr. frv., við liðinn 08-271, þ.e. þann hluta þess útgjaldaliðar sem snýst um sjúkratryggingar. Gengur brtt. út á það að hækka þann lið úr 9 milljörðum 849 millj. 172 þús. kr. í 12 milljarða 270 millj. 921 þús. kr.

Síðan mun ég leggja til að liðirnir 08-384 og 08-388 falli niður. Þetta eru liðirnir Borgarspítalinn í Reykjavík og ýmis sjúkrahús. Hér er um það að ræða að ég hef í huga að flytja brtt. við fjárlögin um það að hætt verði við þau áform sem enn eru uppi um að koma 13 sjúkrahúsum á bein fjárlög eins og kallað er. Ástæðan fyrir því er sú að ég tel að enn þá liggi ekki fyrir þær röksemdir í þessu máli sem réttlæta þessa breytingu og þó að þetta hafi verið fyrirhugað í fyrra og þó að menn hafi þá látið undan gagnrýni og ákveðið að fresta þessari breytingu um eitt ár hafa menn að mínu mati ekki notað þann tíma mjög vel því að það hafa ekki komið þau gögn fram í þessu máli sem sannfæra mann um að á ferðinni sé aðgerð sem endilega skilar árangri.

Ég vitna, með leyfi hæstv. forseta, í grein sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 12. des. og er skrifuð af fyrrv. framkvæmdastjóra Borgarspítalans. Hann lýsir þessu máli kannske miklu betur en ég get nokkurn tíma gert. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Landssamband sjúkrahúsa hélt fund með heilbrmrh. í des. á s.l. ári til að mótmæla þá fyrirhuguðum flutningi 15 sjúkrahúsa á fjárlög þessa árs sem nú er að líða án nokkurs undirbúnings. Leiddi það til þess að flutningi var frestað og nefnd sett í málið. Nefnd þessi mun hafa skilað áliti sem hefur lítið verið kynnt fyrir aðilum málsins. Þó er talið að í því plaggi sé ekkert um meginatriði málsins. Ástæður fyrir mótspyrnu við að fara á fjárlög voru í fyrra og eru enn hinar sömu. Þær eru kröfur um raunhæfa áætlanagerð sem byggist á skýrri ákvörðun um verksvið hvers spítala og mönnun einstakra deilda samkvæmt því. Það þarf að fylgja traustur framreikningur á verðlagsbreytingum. Þá verður að gera kröfur til þess að til staðar sé í heilbrrn. fagleg stjórnsýsla til trúverðugrar ákvarðanatöku og ráðgjafar. Að uppfylltum þessum skilyrðum eru sjúkrahúseigendur reiðubúnir til að bera ábyrgð á kostnaði sem stofnað er til utan þess ramma. Ekkert af framanrituðu er til staðar og meðan svo stendur er fjarstæða að taka þá fjárhagsábyrgð sem óhjákvæmilega fylgir flutningi á fjárlög. Kröfur þessar eru nú ekki aðrar en flestir gera til sjálfs sín.“

Enn fremur segir þessi fyrrv. framkvæmdastjóri og ætti hann nokkuð að þekkja þessi mál:

„Í lok 6. áratugarins var svo komið að sjúkrahús landsins voru komin í þrot vegna óraunhæfra fjárveitinga. Þá lék ríkið þann ljóta leik að halda af ásettu ráði niðri greiðslum til sjúkrahúsa í „sparnaðarskyni“, eins og raunar núna, en þá greiddu sveitarfélög 40% rekstrarkostnaðar. Var svo komið að sveitarfélög, sem ráku sjúkrahús, sátu uppi með 30-40% halla, jafnvel þótt hann væri tilkominn vegna sjúklinga frá öðrum sveitarfélögum. Vegna þessara aðstæðna var Landssamband sjúkrahúsa stofnað til að fá leiðréttingu á þessu ófremdarástandi. Fékkst þá fram endurskoðun á lögum um almannatryggingar þar sem sett var á stofn daggjaldanefnd sem hefur það hlutverk að ákveða daggjöld og gjaldskrár sjúkrahúsa á þann hátt að heildartekjur stofnana miðist við að standa straum af eðlilegum rekstrarkostnaði, enda séu gjöldin í samræmi við hagkvæman rekstur og þá þjónustu sem stofnunin veitir.

Nefnd þessi hefur ákveðið daggjöld frá 1. jan. 1969. Fyrsta áratuginn voru afgreiðslur nefndarinnar mjög í samræmi við rekstrarkostnað. Sjaldgæft var að rekstrarhalli væri yfir 4-5%. Síðar, þegar ráðherra fór að krukka í ákvarðanir nefndarinnar með því að seinka gildistöku hækkana, svo og með vaxandi verðbólgu, fóru hlutirnir úr skorðum.

Ég minni á að á þessum árum fram til 1983-84 var öllum opinberum þjónustustofnunum landsins úthlutað gjaldskrám af hálfu stjórnvalda án nokkurs tillits til rekstrarkostnaðar. Þannig voru flest þjónustufyrirtæki sveitarfélaga komin á vonarvöl þegar þessum gjörningum linnti. Má þar til nefna hitaveitur, rafmagnsveitur o.fl. Nú hafa þessi fyrirtæki reist við með eðlilegum viðskiptaháttum. Sala á Hitaveitu Reykjavíkur á þeim tíma þætti varla í dag teljast til heillaráða. Er þetta algjörlega sambærilegt við daggjöld sjúkrahúsa á þessum árum nema að þrengingum sjúkrahúsanna linnti ekki og enn búa þau við þessar aðstæður. Mest hef ég undrast þá stjórnvisku að svo til ekkert starfslið hefur unnið að þessum málum, hvorki fjárhagshlið þeirra né faglegri. Lengst af var einn maður í íhlaupavinnu við alla útreikningsvinnu og upplýsingasöfnun og ekki hefur þótt ástæða til að stofna til neinnar faglegrar stjórnsýslu um sjúkrahúsmál þrátt fyrir stöðugar tilraunir landssambandsins um úrbætur. Að sjálfsögðu hefur þetta sleifarlag leitt til handahófsákvarðana sem lýsa sér aðallega í því að vanáætla daggjöld og bæta síðan vanáætluninni á næsta ár á eftir. Með því að bæta rekstrarhalla á næsta ár er nefndin að sjálfsögðu að viðurkenna getuleysi sitt til réttrar ákvarðanatöku vegna skorts á upplýsingum. Varla er hún að greiða rekstrarkostnað sem stofnað er til utan við eðlilegan rekstur. Með þessum vinnubrögðum hefur starfsmannasparnaður snúist upp í 50-100 millj. kr. vaxtagreiðslur á ári. En þannig hafa sjúkrahúsin á endanum fengið allan sinn kostnað greiddan.

Engin ástæða er til að ætla að vinnubrögð verði með öðrum hætti við gerð fjárlaga. Þannig er nú í fjárlögum gert ráð fyrir um 5% þenslu á næsta ári og ekki gert ráð fyrir að bæta meiru við verði það raunin. Á sama tíma gerir Reykjavíkurborg ráð fyrir 10-15% þenslu í sinni fjárhagsáætlun. Það verður ekki með neinu móti gert upp á milli þessara greiðsluaðferða ef sami aðili framkvæmir þær á sama hátt. Hins vegar eru tvö atriði sem skipta meginmáli. Það er að á fjárlögum má slá því föstu að fenginni reynslu að sjúkrahúsin verði látin sitja uppi með rekstrarhalla sem getur orðið til vegna duttlunga embættismanna eða þess að menn vilja ekki afla traustra upplýsinga. Annað er að við flutning á fjárlögum fellur niður öll kostnaðarþátttaka sveitarfélagsins og þá þarf ekkert að tala við sveitarstjórnir meira um áhrif á þróun mála.“

„Ríkisvaldið hefur alla tíð“, segir þessi fyrrv. framkvæmdastjóri Borgarspítalans, „verið dragbítur á allan sjúkrahúsarekstur í landinu og hér væri skrýtið ástand ef frumkvæði sveitarstjórna og líknarfélaga hefði ekki komið til. Sagan er svo skýr að sveitarstjórnarmenn hafa enga afsökun ef þeir flýja frá þessu verkefni og láta sjúkrahúsin grotna niður í höndum þeirra sem virðast hvorki hafa vilja né getu til að sinna þeim á viðunandi hátt. Á það má minna að ef ríkið yfirtekur allan sjúkrahúsarekstur er Ísland eina landið vestan járntjalds sem telur sér henta það stjórnkerfi. Öll Norðurlöndin hafa undanfarna tvo áratugi unnið markvisst að því að flytja allan rekstur heilsugæslu og sjúkrahúsa út til sveitarfélaganna, þ.e. þeirra sem gerst eiga að vita hvar skórinn kreppir.

Reykjavíkurborg byggði fæðingardeild í samvinnu við ríkið á fimmta áratugnum og skyldi þátttaka borgarinnar tryggja fæðandi konum fullkomna þjónustu. Eftir tíu ár var stór hluti kvenna farinn að fæða börn sín á göngum og baðherbergjum deildarinnar. Engum fortölum varð við komið. Borgin setti á stofn á eigin kostnað Fæðingarheimilið við Eiríksgötu til að bjarga málum. Var það bráðabirgðaaðgerð sem átti að leysa vandann þar til ríkið sæi að sér. Það starfar enn.“

Ástæðan fyrir því að dregið hefur úr eftirspurn eftir plássum á Fæðingarheimilinu við Eiríksgötu er eingöngu sú að dregið hefur úr fæðingum á Íslandi.

„Borgin sinnti illa sjúkrahúsþörf borgarbúa fyrr á árum en þegar hún loks tók til hendinni og hóf byggingu Borgarspítala um 1950 voru veitingar svo knappar af hálfu ríkissjóðs að húsið var aðeins rúmlega fokhelt árið 1962. Þá brast þolinmæði borgaryfirvalda og var ákveðið að hraða framkvæmdum vegna lélegs ástands í sjúkrahúsmálum í borginni. Framkvæmdum var hraðað án alls tillits til fjárveitinga ríkisins og var spítalinn tekinn í notkun árin 1965-1970. Þar lagði borgin til óhemju fjármagn fyrir ríkið sem tók 10-12 ár að fá endurgreitt óverðtryggt, þ.e. skuldin var aldrei borguð. Þetta gerðu menn áreiðanlega ekki að gamni sínu heldur af því að nauðsyn brýtur oft lög. á sama hátt hafa borgaryfirvöld byggt og rekið Grensásdeild, Arnarholt, Hafnarbúðir, Hvítabandið o.fl. Ríkið tók engan þátt í þessum byggingum.“

Allt sem hér er upp talið, og ég sleppi, herra forseti, þó nokkru af því sem höfundur getur hér í grein sinni, var ekki á þeim tíma þegar það var framkvæmt stranglega löglegt samkvæmt bókstafnum en ástæðan fyrir þessum sjálfshjálparaðgerðum Reykvíkinga var sú að Reykvíkingar hafa aldrei sætt sig við sinnuleysi ríkisvaldsins í heilbrigðismálum.

Höfundur þessarar greinar leggur til í niðurlagi greinarinnar það sem flestallir skynsamir menn eru farnir að leggja til í þessu máli. Hann segir:

„Nærtækasta leiðin og sú sem sjálfsagt flestir gætu sætt sig við meðan þessi hringlandaháttur gengur yfir er að fresta öllum breytingum meðan menn eru að ná áttum og endurskoðun fer fram á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á heilbrigðismálum í heild. Þetta mál snertir ekki bara Borgarspítalann heldur öll sjúkrahús landsins.“

Nú er það þannig að í þessari umræðu hefur borið hæst málefni Borgarspítalans vegna þess að hann er náttúrlega bæði stór og stærstur hluti þeirra spítala, hvað hlutdeild í fjárlögum snertir, sem færa á af daggjaldafyrirkomulaginu yfir á föst fjárlög. Einnig hefur þótt ástæða til að koma þessari breytingu þannig fyrir í fjárlögum að um Borgarspítalann er fjallað í sérstökum fjárlagalið. Ástæður þess er að finna á bls. 277 í grg. fjárlaganna. Þar segir:

„Vegna stærðar og sérstöðu í samanburði við önnur sjúkrahús er áætlun Borgarspítalans sett fram á sérstökum fjárlagahlið en áætlun allra annarra sjúkrahúsa er á fjárlagalið 08-388 ásamt Sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum og Sólvangi í Hafnarfirði en þau tvö voru flutt af daggjaldakerfinu í ársbyrjun 1986.“

Ég held að fleira búi að baki en bara það að Borgarspítalinn sé stærri og flóknari en önnur sjúkrahús sem þarna um ræðir. Ég held að ástæðuna sé að finna í því að það er ekki aðalmarkmiðið með þessari aðgerð, og þá er ég sérstaklega að fjalla um Borgarspítalann, að breyta hagkvæmninnar vegna. Það hefur t.d. enginn maður komið hér í stól og sannað fyrir okkur að verið sé að framkvæma þessi áform vegna þess að þau sýni fram á miklu meiri hagkvæmni en rekstur spítalans gerir núna. Það hefur t.d. enginn maður þorað að fullyrða það hér í þessum ræðustól að miklu meiri hagkvæmni gæti við rekstur Landspítalans en við rekstur Borgarspítalans. Það eitt ætti náttúrlega að geta sannað mönnum að þetta væri að einhverju leyti gagnlegt.

Nei, ég held að ástæðan fyrir því að þessi aðgerð á að fara svona fram, eins og ráðamenn hafa ætlað sér, er sú að hér er verið að taka undir í fyrsta lagi fýlu og ólund borgarstjórans í Reykjavík og í öðru lagi er verið að fullnægja hér ákveðnum sjónarmiðum, sem nokkuð eru ríkjandi í Sjálfstfl., þ.e. að í raun og veru sé það takmark í sjálfu sér að Sjálfstfl. hafi meirihlutaítök í þeim stofnunum og fyrirtækjum sem ríki og borg stjórna. Það er nefnilega þannig að rekstur borgarsjúkrahússins er í raun og veru ekki nema að nafninu til í höndum borgaryfirvalda. Honum er stjórnað af fimm manna stjórn. Þar sitja tveir fulltrúar starfsmanna, einn fulltrúi minni hlutans í borgarstjórn og tveir fulltrúar meiri hlutans. Það er ekki óalgengt og líklega frekar venja en hitt að starfsmenn og fulltrúi stjórnarandstöðunnar í Reykjavík bindast samtökum eða mynda meiri hluta í stjórn spítalans. Það eru því ekki í raun og veru fulltrúar meiri hluta kjósenda í borginni, eins og menn orða það, sem stjórna spítalanum heldur er það starfsfólk og minni hluti kjósenda. Einhverjir gætu nú sagt sem svo að þetta væri kannske ekkert óeðlilegt þar sem um svona sérstæða stofnun væri að ræða sem spítali er vegna þess að rekstur spítala er náttúrlega allt, allt annað en rekstur nokkurs annars fyrirtækis. Spítalar hafa þá sérstöðu umfram önnur fyrirtæki að þar eiga viðskiptavinirnir líf sitt undir krónum og aurum að því leyti að fjárframlög til spítalans eru að miklu leyti ráðandi um getu hans í þjónustu.

Með því að færa Borgarspítalann á föst fjárlög og með því að samkvæmt því skapast réttur til að setja yfir hann þingbundna stjórn er hægt að ná því marki að starfsmenn hafi minni aðild að stjórnun spítalans og stjórnmálamenn þá meiri og þá sérstaklega sjálfstæðismenn mesta. Er mönnum þá mjög í fersku minni afrek sjálfstæðismanna í stjórnum annarra fyrirtækja eins og t.d. Útvegsbankans.

Ég kallaði þetta í umræðunni hér í gær spillta aðgerð vegna þess að ég tel ekki að fram hafi komið nein þau rök í þessu máli sem réttlæta hana. Aftur á móti blasir það við augum eins skýrt og hver maður vill sjá að borgarstjórinn í Reykjavík, án þess að tala við kóng eða prest, án þess að ráðfæra sig við nokkurn mann, ætlaði einfaldlega fyrir rúmlega viku síðan að ganga til þess verks að selja ríkinu spítalann. Hann gerir kröfu um það að ríkið kaupi spítalann ef spítalinn fer á föst fjárlög. Þetta væru kannske að einhverju leyti skiljanleg viðbrögð hans sem fulltrúa Reykvíkinga í reiði sinni yfir því að það eigi að breyta um rekstrargrundvöll fyrir spítalann, ef þau viðbrögð væru eingöngu fram komin til þess að reyna að knýja fram einhvers konar öðruvísi stjórnarfyrirkomulag, þá væru þau skiljanleg. En þegar hann setur fram þessa kröfu, þá gerist það bara eins og að drekka vatn að fulltrúar ríkisvaldsins kinka kolli og segja: Já, alveg sjálfsagt. Og eftir því sem við fréttum í kvöld mun þegar vera búið að gera bráðabirgðasamning um sölu Reykjavíkurborgar á þessum spítala til ríkisins.

Til þess að réttlæta þetta segja menn: Ríkið greiðir hvort eð er 90% af kostnaði við spítalann og er þá ekki bara eðlilegt að það yfirtaki hann? Menn horfa gjörsamlega fram hjá þeirri staðreynd að Borgarspítalinn í Reykjavík er að selja þjónustu, eins og hvert annað þjónustufyrirtæki. Hann er að selja mjög dýra þjónustu því, eins og ég sagði, þarna er um það að ræða að fólk á líf undir krónum og aurum. Það eru borgarbúar sem greiða þessa þjónustu í gegnum framlög sín til samneyslunnar og að svo miklu leyti sem þeir taka hana út aftur í formi þess að njóta þjónustunnar. Um 75% af þeim sem koma til spítalans eru Reykvíkingar. Það er ekki ríkið sem greiðir þessa þjónustu í þeim skilningi.

Ef fara ætti að nota þetta nýja lögmál Sjálfstfl. í viðskiptum gætum við líka sagt sem svo: Grandi, já, það er fiskvinnslufyrirtæki hér í Reykjavík. Það selur allan sinn afla til Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna sem flytur þennan afla út. Sölumiðstöðin setur þeim líka ákveðin skilyrði um það hvernig ganga skuli frá þessum afla, í hvaða umbúðum hann eigi að vera og þar fram eftir götunum. Það er eðlilegast að selja Granda Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna því að þeir greiða hvort eð er allan kostnað þessa fyrirtækis.

Það er líka hægt að segja: Hér úti í bæ er fyrirtæki sem heitir Securitas. Það er öryggisgæslufyrirtæki. Stærstur hluti viðskipta þess er við borgina. Borgin greiðir meiri hluta alls kostnaðar þessa fyrirtækis vegna þess að það selur borginni sína þjónustu. Samkvæmt þessu nýja lögmáli hlýtur að vera eðlilegt að borgin kaupi Securitas.

Svona gætum við haldið áfram að skipta upp öllum viðskiptum í okkar atvinnulífi. Sá aðili sem hefur meiri hluta af viðskiptum við eitthvert ákveðið fyrirtæki, hann kaupir það. Menn geta náttúrlega alveg séð fyrir sér hvers lags endaleysa það yrði.

Nei, hérna eru enn eina ferðina forustumenn Sjálfstfl., og það reyndar þeir forustumenn hans sem búið var að telja mönnum trú um að væru hugsanlega fulltrúar frjálshyggjunnar, þeir eru að sanna hér á sig - og þá á ég aðallega við hæstv. fjmrh. og borgarstjóra vorn - þeir eru að sanna á sig að vera það sem ritstjóri Morgunblaðsins, Matthías Johannessen, kallar „frammara“. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa hér smátilvitnun úr bréfi Matthíasar Johannessens, ritstjóra Morgunblaðsins, til Herdísar. Ég veit ekki hvaða Herdís þetta er en þetta bréf birtist í tímariti nú nýlega. Þar segir þessi gamalreyndi ritstjóri:

„Ég hef áður sagt hér“ - og þá er hann að tala til þessarar Herdísar - „að ég hafi barist fyrir því að slíta tengsl milli Morgunblaðsins og Sjálfstfl. Morgunblaðið átti að vísu mikinn þátt í stofnun Sjálfstfl. en þetta eru tvær ólíkar umbúðir um sömu hugsjón. Ég hef aldrei séð neina ástæðu til að Morgunblaðið væri einhver jólapappír utan um stefnuskrá Sjálfstfl., svo margir frammarar sem þar ríða húsum og met ég þó marga framsóknarmenn mikils. Hef til að mynda stungið upp á því við Denna Hermanns að hann gangi í Sjálfstfl. í skiptum fyrir 7-8 framsóknarmenn í þingflokki Sjálfstfl. Ég held að hann sé að hugleiða þetta. Hann er a.m.k. kominn í Reykjaneskjördæmi sem Sjálfstfl. á nú hálfpartinn.“

Svo mörg voru þau orð. Ekki ætla ég að rengja ritstjóra Morgunblaðsins um það að þeir eru örugglega 7-8 framsóknarmennirnir í þingflokki Sjálfstfl. Ég yrði ekki hissa þó að þeir fyndust þar fleiri því að mér sýnist að þar hafi alla vega bæst í hópinn sá maður sem maður átti nú síst von á að gengi í þann flokk, þó maður hafi strax farið að líta hann kannske grunsemdaraugum þegar hann gerðist þm. á Suðurlandi.

Í s.l. viku hefur verið gífurlega mikill hiti um þetta borgarspítalamál, eins og það er kallað. Þar hefur ekki nema einn aðili, að því er mér telst til, samsinnt fyrirhugaðri sölu Borgarspítalans og tekið undir kaup ríkisins á honum. Það er borgarfulltrúi Framsfl. Með leyfi forseta les ég hér bókun sem gerð var á borgarráðsfundi fyrr í þessari viku en ekki færð til bókar fyrr en nokkru síðar. Þar segir:

„Í septembermánuði 1982 fluttu borgarfulltrúar Framsfl. tillögu í borgarstjórn þess efnis að borgaryfirvöld tækju upp viðræður við heilbr.- og trmrn. um yfirtöku ríkisins á rekstri Borgarspítalans. Að frumkvæði sjálfstæðismanna var þessi tillaga felld með rökstuddri frávísunartillögu þar sem því var haldið fram að Reykvíkingar hefðu af því beina og augljósa hagsmuni að spítalinn yrði áfram rekinn af Reykjavíkurborg. Núna, fjórum árum síðar, hefur borgarstjórinn sjálfur haft frumkvæði að sams konar tillögu og framsóknarmenn og ber að fagna sinnaskiptum hans. Skýrslan „Athugun á rekstri Borgarspítalans“ sannar það, sem borgarfulltrúar Framsfl. hafa haldið fram um árabil, að endurskoða þyrfti allan rekstur Borgarspítalans.“

Hér kemur það fram sem fleiri hefur grunað að Sjálfstfl. hefur greinilega ekki haft of gott af því að sitja jafnlengi í stjórn með Framsfl. og hann hefur gert því að maður fær ekki betur séð en að menn innan þess flokks séu gjörsamlega hættir að átta sig á því hvað er framsókn og hvað er sjálfstæði.

Ég sagði áðan, herra forseti, að ég hefði ekki fundið eina einustu tilvitnun í blöðum sem fjallar á jákvæðan hátt um þessa fyrirhuguðu yfirtöku ríkisins á Borgarspítalanum, en í Dagblaðinu þann 10. des. s.l. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir nokkrum árum, þegar Davíð Oddsson sóttist eftir því að verða borgarstjóri í fyrsta skipti, var efnt til kosninga í Reykjavík. Auk Davíðs buðu fram nokkrir flokkar, þar á meðal flokkur sem nefndist Framsfl. Meðal stefnumála þessa flokks var sala Borgarspítalans. Þetta þótti svo fyndið að Reykvíkingar héldu lengi vel um magann vegna hláturkasta og Davíð, sem er spaugsamur maður, var ekki lengi að notfæra sér þennan brandara til að reyta fylgið af framsókn. Var það þó ekki mikið fyrir, enda fóru kosningarnar svo að framsókn rétt slefaði inn einum borgarfulltrúa og hefur svo verið síðan. Nú hafa þau undur og stórmerki gerst að salan á Borgarspítalanum er ekki lengur misheppnað alvörumál hjá framsókn né heldur brandari í augum Davíðs. Borgarspítalinn er til sölu og sjálfur borgarstjórinn er þar helsti sölumaðurinn. Hann vill selja spítalann, mýs og menn, og hefur þessi fyrirhugaða fasteignasala vakið upp mikinn kurr meðal starfsmanna spítalans. Borgarbúar hafa einnig komið af fjöllum, enda ekki spurðir ráða, hvað þá sjúklingarnir sem hafa þó mestra hagsmuna að gæta.“

Ef maður ætti að vera að því leyti bara einfeldningslegur í þessu máli og horfa til þess umboðs sem menn tóku á kjördegi, þá er það náttúrlega alveg greinilegt að Davíð Oddsson hefur ekki nokkurt umboð til að selja þennan spítala, ekki nokkurt, því að í þessum kosningum kusu menn hér í Reykjavík einmitt um þá hugmynd að selja Borgarspítalann. Og menn höfnuðu henni. Menn höfnuðu henni gjörsamlega. Þannig að ef nokkur sómi væri í borgarstjóranum í Reykjavík þá gæti hann að vísu selt Borgarspítalann, en hann yrði þá líka að segja af sér sjálfur. Því þar með er hann búinn að fyrirgera því umboði sem hann fékk í kosningunum síðast. Nú nýt ég þess náttúrlega að hæstv. borgarstjóri getur ekki svarað fyrir sig hér og það er þess vegna kannske ekki sanngjarnt að hamast á honum hér. En það er þó staðreynd í þessu máli sem ekki verður neitað að Reykvíkingar höfnuðu hugmyndinni um sölu Borgarspítalans í kosningunum 1982 og Davíð Oddsson varð borgarstjóri á því að draga þá menn sundur og saman í háði sem ætluðu sér að selja Borgarspítalann. Og í seinustu kosningum datt ekki nokkrum manni í hug að nefna þessa hugmynd.

Í Morgunblaðinu, föstudaginn 5. des., birtist grein eftir yfirlækni Landakotsspítala og formann heilbr.- og trn. Sjálfstfl. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta, í þessari grein sinni: „Á þessum vettvangi ætla ég ekki að ræða kosti og galla þessara tveggja greiðslukerfa“ - Og þá er hann að tala um daggjöld eða bein fjárlög. - „Þegar öllu er á botninn hvolft er munurinn í sjálfu sér sáralítill. Það sem skiptir öllu máli er hvernig staðið er að töku ákvarðana um fjármagn.“

Davíð Gunnarsson, forstjóri ríkisspítala, hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði í Morgunblaðinu 18. mars 1980: „Stjórnunarleg nauðsyn er að staðreyndir fjárlaga og raunveruleikinn fari saman.“ - Það er kjarni málsins. - „Hvort kerfið heitir föst fjárlög eða daggjöld er ekki aðalatriðið, heldur hitt hvernig staðið er að ákvarðanatökunni sjálfri. Ákvarðanir hins opinbera um þessar fjárveitingar hafa undanfarið verið byggðar á allt of veikum grunni.“

Það hefur t.d. enginn, að því er ég man, minnst á það að eiginlega eina jákvæða röksemdin fyrir því að færa spítala af daggjaldakerfi yfir á bein fjárlög er sú að með því að greiða spítölunum þjónustu sína út úr fjmrn. í krafti beinna fjárveitinga, þá er hægt að fylgja nokkurn veginn eftir verðlagsbreytingum, þ.e. breytingum á kaupgjaldi og þeim kostnaðarliðum sem um ræðir. Það er að ýmsu leyti erfiðara að gera það í daggjaldakerfinu nema þá löngu eftir á. En allt stendur þetta og fellur samt sem áður með því, eins og Davíð Gunnarsson, forstjóri ríkisspítalanna, segir að staðreyndir fjárlaganna og raunveruleikinn fari saman, þ.e. að menn byggi áætlanir sínar á einhverjum veruleika.

Síðan segir yfirlæknir Landakotsspítala, Ólafur Örn Arnarson:

„Heilbrigðisnefnd Sjálfstfl. hefur oft rætt um þessi mál og gert um þau samþykktir sem hafa komið fram í landsfundarályktunum. Nú síðast fyrir nokkrum mánuðum sendi nefndin ráðherra eftirfarandi samþykkt:

Sett verði á stofn í heilbrrn. hagdeild sem hafi það hlutverk að safna upplýsingum um heilbrigðisþjónustuna. Deild þessi starfi jafnframt sem ráðgefandi aðili í sambandi við skráningu upplýsinga, hvort sem er faglegs eða fjárhagslegs eðlis. Hún sjái síðan um að vinna úr þessum upplýsingum þau gögn sem nauðsynleg eru þeim sem taka þurfa ákvarðanir um rekstur einstakra stofnana, svo sem spítala, hjúkrunarheimila og heilsugæslustöðva.

Í grg. segir m.a.: Það hefur einkennt mjög umræðu um heilbrigðisþjónustuna að deilt hefur verið um hverjar staðreyndir eru þegar þær ættu að geta legið ljósar fyrir. Það er því mjög nauðsynlegt að heilbrrn. taki hér forustu og láti fara fram könnun á því á hvern hátt þessum málum verði best fyrir komið.

Hvers vegna á Reykjavíkurborg að halda uppi umfangsmiklum spítalarekstri? Sagan segir okkur að ríkið hefur lengst af, sérstaklega framan af, dregið lappirnar í heilbrigðismálum. Reykjavík hefur hingað til ekki getað treyst á algjöra forsjá ríkisins í þessum efnum, ekki síst með tilliti til kjördæmaskipunar landsins og áhrifaleysis höfuðborgarinnar á löggjafann. Því má segja að frá fjárhagslegu skammtímasjónarmiði gæti verið réttlætanlegt að draga saman seglin á þessu sviði en að öllu öðru leyti er mikil áhætta fólgin í þessari ákvörðun fyrir borgarbúa.“

Síðan segir höfundur í lok greinar sinnar:

„Ég leyfi mér að leggja til eftirfarandi málamiðlun: Ákvörðun um föst fjárlög fyrir Borgarspítalann verði frestað um eitt ár en ákvörðun um aðra spítala verði látin standa. Hagdeild heilbrrn., sem nú mun vera búið að ákveða að taki til starfa, verði gefið tækifæri til að skoða rekstur Borgarspítalans vandlega og gera tillögur um fyrirkomulag hans fyrir næsta haust.“ - Nú skortir mig upplýsingar um það hvort rétt er sú fullyrðing að hagdeild heilbrrn. muni bráðlega taka til starfa. Ég minnist þess ekki að hafa séð hennar getið sem kostnaðar í fjárlögum. „Standi Reykjavíkurborg fast við ákvörðun sína um sölu verði kannað hvort aðrar leiðir í rekstri en sameining við ríkisspítala gætu verið heppilegar, t.d. sjálfseignarstofnun, en slíkt fyrirkomulag hefur reynst mjög vel á Landakotsspítala.“

Þetta er skrifað í Reykjavík 2. des. 1986.

Hér tekur yfirlæknir Landakotsspítala undir hugmyndir og ráðleggingar fyrrverandi forstjóra Borgarspítalans og má það nú skrýtið vera ef ráðamenn vilja ekki hlusta á menn sem tala af jafnmikilli reynslu og þessir tveir menn hljóta að gera, og þess þá heldur að þessir menn ættu að hafa nokkurn aðgang að eyrum ráðamanna einfaldlega vegna þess að þeim mætti þó vera treystandi þar sem aðild þeirra að Sjálfstfl. er óvefengjanleg, að því er ég fæ næst komist.

Ég vil einnig geta þess, herra forseti, að stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar hefur ítrekað mótmælt því að Borgarspítalinn verði settur á föst fjárlög og hef ég í því tilefni í höndum bókanir stjórnar sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar, frá 24. okt. 1986, frá 12. sept. 1986 og nú síðast 8. des. 1986, sem ganga allar út á eitt og hið sama, þ.e. að mótmæla þessu fyrirkomulagi og ég fæ ekki betur séð en að ráðamenn, bæði borgarstjóri og ráðherrar, hafi lítið tekið tillit til þessara andmæla, enda kom það aðilum þessarar nefndar jafnmikið á óvart og öðrum borgarbúum þegar borgarstjórinn allt í einu kvað upp úr með það að hann ætlaði að selja ríkinu spítalann og það kom mönnum jafnvel enn þá meira á óvart þegar ríkið allt í einu samþykkti það.

Herra forseti. Um þetta mál hefur þegar verið þó nokkuð mikið skrifað, bæði í blöðum og í skýrslum. Ég ætla mér ekki að vitna í þessar skýrslur í máli mínu, a.m.k. núna, því eins og ég gat um í upphafi máls míns er ég fyrst og fremst að tala um brtt. við fjárlög sem ég ætla mér að flytja við 3. umr. ef með þarf. Ég læt hana náttúrlega liggja ef þarflaust verður.

Ég ætla að vona að það þurfi ekki til að koma. Ég ætla að vona að menn geti hvílst það vel núna um helgina að þeir nái áttum og sjái að það er engin skynsemi í því að ætla að keyra þessar hugmyndir, hvort sem er um að ræða þessa breyttu fjárlagameðferð, að ég tali nú ekki um það stórhneyksli að ríkið yfirtaki Borgarspítalann. Það er engin ástæða til þess að reka þetta mál eins hart og gert hefur verið. Það er engin ástæða til þess að vaða með skítugum skónum upp í andlitið á fólki eins og gert hefur verið í þessu máli. Það er þvert á móti yfirleitt alltaf miklu vænlegra að hlusta á fólk, taka hollum ráðum og taka síðan ákvarðanir sem taka mið af þeim tillögum og þeim hugmyndum sem vænlegast er að sem mest samstaða verði um.