15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég tek undir með hv. 4. þm. Norðurl. v., formanni nefndarinnar og frsm. meirihlutaálits, að ekki er hægt annað en leiða hugann að því, a.m.k. þegar maður stendur í þeim sporum sem við stöndum í núna, hvort vinnubrögðin við bæði fjárlög og lánsfjárlög gætu ekki verið betri, hvort þeim er ekki hreint og beint ábótavant. Ég held reyndar að það sé ekki við neinn einn að sakast í því efni. Ég held að þingið þurfi fyrst og fremst að endurskoða skipulag starfsemi sinnar með tilliti til þess að þessi löggjöf, sem er árviss og ekki hægt að hnika til að hún sé samþykkt á réttum tíma, ekki nema þá vegna gífurlega mikilla afbrigða í aðstæðum, fari einhvern veginn þannig fram að menn viti hvað þeir eru að gera. Þó að hv. 4. þm. Norðurl. færi um það mjög hófsamlegum orðum mátti glögglega á máli hans heyra, og kemur kannske engum á óvart, að raunverulega vitum við afskaplega lítið hvað við erum um að tala því að það vantar bæði upphaf og endi á þetta frv. Það vantar annars vegar í raunverulegar og ábyggilegar upplýsingar um tekjuöflun og það vantar þar með líka endanlegar niðurstöður í áætlaða lánsfjárþörf. Það er staða frv. í dag. Að ræða frv. hérna og skila nál. er í sjálfu sér ekkert annað en yfirlýsing um ákveðinn velvilja gagnvart stjórnvöldum, að vilja greiða götu þeirra eins mikið og maður getur, til þess að þetta mál lendi ekki einhvers staðar úti á svelli. Væri heiftúð og töggur í okkur ættum við hreint og beint að neita að fjalla um frv. fyrr en það hefði fengið endanlega mynd. Þá er ég ekki að tala um spurningar um brtt. við einstakar greinar frv. sem koma frá aðilum innan þings. Ég er að tala um heildarstöðu frv., þ.e. áætlaðar tekjur og áætlaða lánsfjárþörf. Að gagnrýna frv. er þannig í raun og veru gagnrýni sem svífur að því leyti í lausu lofti að það vantar bæði aftan á og framan á þá umræðu.

Þegar eru komnar fram brtt. við einstakar gr. frv. Það er áberandi þegar maður les í gegnum II. kafla, eins og svo oft áður, að skerðingarákvæði virðast einkum og sér í lagi beinast að starfsemi sem við kemur annars vegar menningu og hins vegar því sem maður gæti kallað líknarmálum, þ.e. málefnum þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Það er dálítið áberandi dæmi sérstaklega fyrir íslenska lagahefð að varla eru menn búnir að breyta og samþykkja lögin um kvikmyndamál og Kvikmyndasjóð fyrr en byrjað er að beita skerðingarákvæðum á þau. Nú kann það að vera réttlætanlegt á vissum tímum og ég skal láta ógert að ræða það mál efnislega því ég ber bara hreint og beint ekki skynbragð á það. Það alla vega stingur í augu hve stutt er síðan þessi lög voru samþykkt með ákveðnum tekjuöflunaráformum og áætlunum um tekjur sem af því næðust og síðan er það fyrsta sem maður upplifir eftir það að byrjað er að beita skerðingarákvæðum í lánsfjárlögum.

Það hefur þegar verið minnst á í umræðu á þingi, þá sérstaklega í umræðunni um fjárlög, skerðinguna á framlagi ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs. Því hefur verið mótmælt. Það er ekki með öllu hægt að skilja hvernig menn ætla að sinna annars vegar því verkefni sem mikil áhersla hefur verið lögð á, að auka ferðamannaþjónustu og það sem menn kalla ferðamannaiðnað og samtímis nánast að leggja niður starfsemi Ferðamálaráðs, nema þá að menn ætli að eitthvað allt annað komi þar í staðinn, samtök þeirra sem að ferðamálum standa, óháð fjárveitingum ríkisvaldsins. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að það samræmdist kannske einna helst hlutverki ríkissjóðs að veita þeim aðilum, sem standa að uppbyggingu ferðamála hér á Íslandi, tæknilega og faglega ráðgjöf við þessa uppbyggingu og það fer ekkert á milli mála að hún hlýtur að kosta peninga.

Sem dæmi um það hver náttúra skerðingarákvæðanna er má benda á 23. gr., um skerðingu framlags til Félagsheimilasjóðs, 25. gr., um skerðingu framlags til Menningarsjóðs, og 26. gr., um skerðingu framlags til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hv. 5. landsk. þm. mun gera grein fyrir brtt. sinni við 27. gr. sem reyndar snýr líka að menningu.

Það er eitt atriði sem mig langar til að fjalla aðeins um hérna sem kannske verður reyndar meira fjallað um við 3. umr. Það hefur komið fram í þeim plöggum sem nefndarmenn hafa undir höndum að nokkrar breytingar eru áformaðar á lántökuvinnubrögðum ríkissjóðs og þá á ég ekki við hvernig þeir taka lán heldur hvaðan. Það hefur komið í ljós að eftir samningana síðustu stendur ríkissjóði til boða að gera samning við lífeyrissjóði um aukna lántöku hjá lífeyrissjóðunum umfram kaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar. Þessi umframlántaka, sem í boði var, var nefnd að mig minnir 1,13 milljarðar króna. Í framhaldi af því er það fram komið líka að ríkissjóður áætlar að semja við lífeyrissjóðina um enn meiri lántöku en þetta og vonast þeir til að ná samningum við lífeyrissjóðina um 2 milljarða lántöku hjá þeim umfram hið lögbundna framlag þeirra til skuldabréfakaupa Húsnæðisstofnunar. Einnig hafa þær upplýsingar komið fram að þegar lífeyrissjóðirnir allir hafa sinnt sínum kaupskyldum á skuldabréfum frá Húsnæðisstofnun muni vera um 2,8-3 milljarðar eftir í sjóðum lífeyrissjóðanna. Þessa upphæð að 2/3 hlutum til ætlar ríkissjóður að reyna að semja um að fá að láni og þá verður ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á næsta ári fyrirsjáanlega ekki mikið meira en 800-1000 millj. Tveir þriðju þeirrar upphæðar, sem fyrirhugað er að taka að láni, munu renna beint í ríkissjóð en lítill hluti þeirra fer til afmarkaðra verkefna.

Ég tel að erfitt sé að gera ráð fyrir lántöku af þessu tagi í löggjöf nema þeir samningar, sem til þarf til þess að af þessari lántöku verði, séu þegar um garð gengnir og séu alveg á hreinu því að ég tel að samningsstaða ríkissjóðs við lífeyrissjóðina verði mjög slæm ef löggjöfin er þegar afgreidd áður en til samninga er gengið. Hins vegar verður manni auðvitað spurn, þegar maður stendur frammi fyrir svona áætlunum, hvert menn ætla að leita næst þegar þeir verða þarna nánast búnir að tæma lífeyrissjóðina því að það hlýtur að verða erfitt að leita uppi nýjar lánsfjáruppsprettur hér innanlands þegar búið er að tæma þá alstærstu þeirra.

Eins og fram kom í máli hv. frsm. meiri hl. mun minni hl. ekki skila nál. við þessa umræðu heldur milli umræðna. Það skýrist einkum og sér í lagi bara af því í hvaða stöðu frv. er, en þingflokkur Alþfl. mun ekki skila brtt. við lánsfjárlagafrv. fyrr en við 3. umr. Þar munum við leggja fram brtt. sem miða að samdrætti í erlendum lántökum og heildarlántökum

og við höfum ástæðu til þess að ætla að hægt sé að draga úr erlendum lántökum sem nemur um það bil 1 milljarði og munum leggja fram brtt. þar að lútandi við síðustu umræðu.

Frú forseti. Það er í raun og veru erfitt, eins og ég sagði í upphafi, að ræða þetta frv. á þessum nótum, að gagnrýna það mikið efnislega, einfaldlega vegna þess að við erum raunverulega bara með uppsetningu frv. fyrir framan okkur en ekki efnislegt innihald og þar af leiðandi verður sú umræða að bíða 3. umr.