19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

1. mál, fjárlög 1987

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það er með hálfum huga að ég blanda mér í innanhúsátök í þingflokki Sjálfstfl., en þó finnst mér að þessi umræða gefi jafnvel tilefni til umhugsunar um hvort það ætti hugsanlega að setja einhver ákvæði í lög um hámarksstærð þingflokka því það er alveg greinilegt að jafnstór þingflokkur og þingflokkur Sjálfstfl. er er ekki fær um að fylgjast með því sem fram gengur hér á þingi - eða hvar hafa menn verið sem eru að ræða um þetta mál og segja: Við höfum ekki fengið tækifæri til að segja álit okkar á því hvort byggja eigi hús eður ei, og segja: Við eigum að komast að samkomulagi um stærð og gerð hússins? Vita þessir menn ekki að fyrir einu og hálfu ári lá fyrir öllum þingflokkum á þingi húsrýmisáætlun gerð af húsameistara ríkisins á vegum samkeppnisnefndarinnar sem valin var? Þessi húsrýmisáætlun tilgreindi hvert einasta rými og hvern einasta fermetra í þessu húsi og þingflokkarnir fengu allir tækifæri til að fjalla um hana og þingflokkarnir fengu allir tækifæri til þess að gagnrýna hana og setja fram hugmyndir um það sem á vantaði eða betur mætti fara. Sumir þingflokkar gerðu það, aðrir ekki. Enginn maður hafði þá nokkurn áhuga á að standa upp hér á þingi og gagnrýna að þessi húsrýmisáætlun lægi fyrir þingflokkum vegna þess að til stóð að halda samkeppni og menn vissu að framhaldið yrði að niðurstaða samkeppninnar yrði grundvöllur að hönnun og sú hönnun yrði grundvöllur að ákvörðun um byggingu.

Það er annaðhvort af því að menn hafa ekki fylgst með eða af því að menn vita ekki betur að menn geta komið hér og haldið því fram að alþm. hafi ekki fengið tækifæri til að segja álit sitt og hafi ekki fengið tækifæri til að hugleiða hvort þeir væru sammála eða ekki um stærð og gerð hússins að þeir koma hér og segja slíkt. Þeir fengu það á árinu 1984 og fram á árið 1985 og höfðu allar aðstæður til að gagnrýna þá þau störf og þá vinnu sem þá var í gangi.

Þegar forsetar Alþingis og samkeppnisnefndin gengu út frá því í áframhaldandi störfum sínum að það væri samkomulag um það sem væri verið hér að gera er það ekki bara eðlilegt. Það er sjálfsagt vegna þess að enginn sem hafði aðstæður til að fjalla um þetta mál, 60 þingmenn, fann þá nokkurt tilefni til að gagnrýna að þessi vinna væri í gangi á grundvelli þessara stærða og þessara rýma sem búið var að gera tillögu um og sýna mönnum og gefa mönnum tækifæri til að fjalla um og setja fram sína gagnrýni.

Þess vegna, herra forseti, get ég ekki annað en komið hér í ræðustól, einfaldlega til að rifja upp fyrir mönnum að þeir eru með þegjandi samþykki sínu, aðgerðarleysi eða áhugaleysi búnir að samþykkja það sem þegar hefur verið gert.