12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3020 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

306. mál, veiting sterkra drykkja á vegum ríkisins

Helgi Seljan:

Herra forseti. Eins og stundum áður, þegar ekki er þó lengra liðið á dag en þetta, eru fáir hér í sal og fjarri því að hægt sé að halda í raun og veru uppi eðlilegum umræðum. Um það skal ég ekki fjölyrða hér, ég hef svo oft gert það, sakir þess að ég er einn af þeim sem þykir eins og það sé skylda mín að sitja hér nokkurn veginn þann tíma sem þingfundir eiga að öllu jöfnu að vera. En við því er ekkert að segja þó menn séu auðvitað ýmsu öðru að sinna sem er tengt þessu starfi á einn eða annan hátt, en verður hins vegar til þess að margar till. fara nokkurn veginn umræðulaust í gegn og fara svo inn í nefndir og sofna þar síðan.

Í þessu tilfelli ætti að vera hægt fyrir Alþingi að taka afstöðu. Eins og hv. 1. flm. kom inn á er hvorki lengra gengið en raun ber vitni og hún minntist sérstaklega á og eins er hér um svo einfalt mál að ræða að það ætti ekki að velkjast fyrir neinum að taka afstöðu til eða frá. Við vorum áðan að ræða um stjórnstöð björgunar- og slysavarnamála, ég held að við séum hér í raun og veru í framhaldsumræðu um björgunar- og slysavarnamál á vissan hátt þó þetta sé kannske lítill angi þess sem við erum hér að tala um.

Ég er einn flm., eins og hv. 1. flm., 7. landsk. þm. tók fram, og þarf því ekki miklu við að bæta. Ég.hef verið spurður nokkuð að því hvers vegna ég skrifi upp á till. þar sem ekki sé lengra gengið í þessa átt en raun ber vitni, þ.e. að ekki séu veittir sterkir drykkir í veislum á vegum þess opinbera. Ég hef sagt það og segi það í þessum ræðustól að hvert það skref sem í áttina er tekið til heilbrigðara lífs og heilbrigðari lífshátta hlýt ég að styðja þó svo að ég í einhverjum tilfellum vildi ganga lengra eða gera á einhvern hátt öðruvísi.

Ég minnist þess líka að þegar við fluttum till. hér þrír, þar af tveir þeirra sem hér eru, Karvel Pálmason var þar einnig, en 1. flm. var fyrrv. hæstv. menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson, minnist till. frá okkur fyrir nær hálfum öðrum áratug þar sem var gert ráð fyrir afnámi allra vínveitinga á vegum ríkisins, að um þá till. upphófst hin furðulegasta umræða. Ég var þá ekki fyrir löngu kominn inn á Alþingi og mér blöskraði kannske fyrst og síðast hvað menn umgengust þetta umræðuefni af miklu virðingarleysi og gáleysi rétt eins og áfengismálin í heild sinni, vá þeirra og voði, væri eitthvað sérstakt efni til þess að menn gætu skvett úr klaufunum í ræðustól og farið á kostum með alls konar skringilegheit í orðfæri og annað því um líkt, m.a. í lýsingum á flm. og öðru slíku. Út af fyrir sig lýsti þetta bara þeim sjálfum sem þar voru á ferðinni og ekkert við því að segja þó menn nýttu þetta tækifæri til gamanmála, en lítt þótti mér þá sæmandi að taka þessi alvörumál, eins og þau eru reyndar, í það í sölum Alþingis.

Það er vitnað í þessari till. í heilbrigðisátakið fyrir árið 2000. Vissulega er þar um glæsilegt takmark að ræða og auðvitað spyr maður: Er það framkvæmanlegt? Er það mögulegt? Auðvitað er það mögulegt og framkvæmanlegt ef menn leggjast á eitt og ef menn nenna að leggja sig fram um að finna leiðir að því marki að ná þessu. Ekki bara þeir sem eiga að sjá um þessi mál á æðstu stöðum heldur allur almenningur ekki síður.

Ég skal ekki hafa um þetta langt mál, en nýlega hafa verið lagðar fram tillögur svokallaðrar áfengismálanefndar eða nefndar sem fjallaði á mjög víðum grunni um tillögur til framtíðar í hinum ýmsu þáttum áfengismála og í áttu sæti fulltrúar bæði félagasamtaka, stjórnmálaflokka og ýmissa annarra aðila sem láta sig þessi mál nokkru varða. Þær tillögur liggja nú fyrir og nú reynir á það hvort menn þora að reyna að framkvæma eitthvað af þeim. M.a. þær tillögur sem hafa gefist vel í öðrum þjóðlöndum og þar hafa verið framkvæmdar og gefið eins og ég sagði góða raun. Sömuleiðis hefur verið á vegum forsrn. og fagráðuneyta ákveðinna, þriggja minnir mig, ákveðin nefnd sem hefur fjallað um fyrst og fremst ólögleg fíkniefni. Ég get ekki sagt að það hafi glatt mig, en það vakti athygli mína að sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu og hefur látið um það sitt álit í ljós, til t.d. forsrh. og annarra þeirra ráðherra sem skipuðu í þessa nefnd á sínum tíma, að tengslin við áfengið væru svo órjúfandi í þessu sambandi að nefndin kæmist ekki hjá því að fara inn á það svið meira og minna þó hún væri með það verkefni og erindisbréf frá ráðuneytunum að fjalla eingöngu um hin ólöglegu fíkniefni. Svo órjúfandi væri sambandið þar á milli og samhengið allt saman að hún kæmist ekki hjá því að koma með ábendingar um þetta sem ég hef séð og eru hinar merkustu frá þessari nefnd um ýmislegt varðandi framkvæmd okkar áfengismála.

Ég ætla svo að ljúka þessu með því að segja að fordæmið í þessum efnum, eins og hv. 1. flm. kom inn á, er vissulega mikilvægt, hvað menn vilja á sig leggja í þessu efni. Ég minni þá á það um leið að 1. flm. þeirrar till. sem ég nefndi áðan og var flutt fyrir nærri hálfum öðrum áratug var Vilhjálmur Hjálmarsson. Hann komst seinna í þá aðstöðu að velja um hvort hann vildi fylgja till. sinni áfram, sannfæringu sinni áfram. Hann gerði það. Hann gerði það með sóma og gerði það á þann hátt að eftir var tekið. Og hann gerði það á þann máta að margir hefðu áreiðanlega viljað fylgja í fótspor hans þótt þeir hafi ekki lagt út í það. Það hefur aðeins einn maður gert til þessa, þ.e. hæstv. landbrh., sem ekki veitir vín í sínum veislum.

Ég skal láta það verða mín lokaorð að ég held að fordæmi hafi mjög mikið að segja, jafnvel uppi á hinum hæstu stöðum. Þó oft næði þar kalt um og sé sagt að menn beri ekki mikla virðingu fyrir þeim sem á æðstu trónunum sitja vill það verða svo að að minnsta kosti er býsna gott að hafa hald í því að herma eftir þeim þó ekki sé nú annað. Sú tilhneiging, sem mér hefur virst núna að undanförnu, að skipta fíkniefnunum í vond fíkniefni og góð fíkniefni, þar sem áfengið í heild sinni skipar þann flokk sem heitir góð fíkniefni en hin ólöglegu aftur hin vondu fíkniefni, hefur mér þótt bera vott um gífurlegan tvískinnung í þessu efni, svo mikið samræmi og samhengi sem þarna er á milli, og ekki síður vegna þess að mér þykir sem þetta fólk sem um þetta er að tala á þennan máta sé í raun og veru að bjarga eigin skinni. Áfengið nýtir það og neytir sjálft. Ólöglegu fíkniefnunum sinnir það ekki og neytir ekki og því er gott að ráðast af heift og harðfylgi á hin ólöglegu fíkniefni og dæma þá hart sem standa að því að selja og dreifa þeim, dæma þá hart sem fyrir þeirri ógæfu verða einnig að verða áhangendur þessara eiturefna, en sitja svo veglegar veislur sjálfir þar sem þeir neyta annarra fíkniefna sjálfir, sem þeir kalla góð, í vellystingum praktuglega og þykjast hafa góða samvisku.