17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

333. mál, löggæslumál á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 583 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. dómsmrh. ásamt hv. 11. landsk. þm. Agli Jónssyni og hv. 4. þm. Austurl. Jóni Kristjánssyni:

„Hvað hyggst dómsmrn. gera til úrbóta í löggæslumálum á Reyðarfirði?"

Þessi fsp. er borin fram í beinu framhaldi af ályktun hreppsnefndar Reyðarfjarðarhrepps frá 26. jan. s.l. þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps fer fram á það við dómsmrn. og sýslumann Suður-Múlasýslu að endurskoða það skipulag löggæslu sem verið hefur um nokkurn tíma á Reyðarfirði. Hreppsnefnd telur að fenginni reynslu að löggæslu hafi hrakað verulega frá því sem áður var. Hreppsnefnd óskar eftir viðræðum við yfirvöld löggæslu um þessi mál sem fyrst.“

Það er ekki að ástæðulausu að spurt sé nú eftir þessu því fyrir rúmum tveimur árum bar ég fram fsp. um þá breytingu sem þá hafði nýlega orðið á löggæslumálum austur þar. Eftir meira en tveggja áratuga veru lögregluþjóns á Reyðarfirði var allt í einu álitið óþarft að hafa löggæslu á staðnum. Þó fólk sé gott og löghlýðið austur þar þótti mér og þykir enn sem hér sé um ofurmannlegt traust dómsyfirvalda að ræða. Fyrir tveim árum var því borið við að hér væri um hagræðingu og sparnað að ræða, jafnvel í virkari og betri löggæslu. Um það sagði ég þá, með leyfi hæstv. forseta:

„En síðast en ekki síst er ég sannfærður um að það verður augljós kostnaðarauki ef sinna á starfinu á annað borð og lögregluþjónn að gegna svipuðum störfum og hann hefur gegnt á Reyðarfirði.“

Áður hafði ég bent á augljóslega minna öryggi fyrir íbúana sem meginatriði út frá þeirra sjónarmiði. Öll aðvörunarorð mín þá hafa komið fram, því miður, og nýlegt atvik aðeins eitt margra sem hafa sannað nauðsyn löggæslu á staðnum eins og eðli málsins samkvæmt hlýtur að vera á stað þar sem t.d. gegnumakstur er jafnmikill og raun ber vitni, skipakomur sér í lagi tíðar og margt fleira og sveitarfélagið vitanlega það fjölmennt að sjálfsagt er að þar sé lögregluþjónn.

Ráðuneytið mun nú vera með málið í athugun að því er maður hefur séð í blaðafregnum og er því tímabært að spyrja hverjar breytingar til úrbóta séu væntanlegar.