03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3609 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

350. mál, öryrkjabifreiðir

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans og tel að þau séu fullnægjandi. Svör hans voru um það að komið yrði til móts við þá sem keyptu bifreiðar á árinu 1986 með svipuðum hætti og nú er ráð fyrir gert. Að vísu veit ég ekki nákvæmlega hvernig það er fyrirhugað heldur vegna þess að tillögurnar vantar þar um. En eins og maður hefur skilið það þá er hér verulega komið til móts við öryrkja og á þann veg að ég held sem nægir nokkurn veginn til þess að bæta þeim upp það forskot sem þeir misstu í fyrra.

Ég vil hins vegar segja að ég veit um tortryggni ýmissa þeirra gagnvart vísan þessa á Tryggingastofnun ríkisins, ekki vegna þeirrar stofnunar heldur vegna þess að þar er verið að tala um fasta upphæð og menn óttast það eðlilega að með þessar upphæðir verði farið svipað og með ýmsar aðrar, að þær verði skertar á næstu árum og því verði kannske lítið úr þessu nema á þessu ári. Ég skil þennan ótta manna í ljósi ýmislegs af því sem gerst hefur varðandi lagasetningu hér á Alþingi, lögboðin framlög og svo skerðingar á þeim framlögum aftur. En ég vona að svo verði ekki í þessu tilfelli.

Ég held að almennt sé býsna mikil ánægja meðal öryrkja með núgildandi kerfi úthlutunar, þó að ekkert sé nú algott, og það hefði átt að halda því að nokkru leyti, þeirri úthlutunarnefnd sem þar er að störfum, m.a. með ágætum fulltrúa fjmrn. þar inn í til þess að sjá um það að þetta kæmi sem jafnast og best niður.

Ég geri ekki lítið úr vilja hæstv. ráðh. til þess að leiðrétta þetta, en ég tel einnig að bæði fsp. og tillöguflutningur hér inni á þingi ásamt miklum þrýstingi samtaka fatlaðra hafi hér gert sitt ótvíræða gagn.