03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3614 í B-deild Alþingistíðinda. (3219)

370. mál, einangrun húsa

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svar hans. Það gekk að vísu að mestu leyti út á það orkusparnaðarátak sem gert var og ekki er neitt nema gott um að segja og var reyndar ekki nýtt þó að þar væri aukið við og bætt í sambandi við þau mál, enda veitti ekki af því. Það er hins vegar í mínum huga eftir þessa skýrslu nokkur spurning um hversu þetta átak hefur komið inn á það atriði beint sem við fjölluðum um í tillögunni. Hæstv. ráðh. gat um í sínu svari ýmsar nýjungar sem hafi komið fram og þær hafi verið kynntar mönnum varðandi einangrun, en þó kannske ekki beinlínis varðandi það tiltekna atriði sem við vorum að fjalla um í till., sérstakar nýjungar varðandi gerð útveggja og einangrun þeim tilheyrandi. Það hygg ég að hafi ekki verið gert.

Hins vegar skil ég vel að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi svarað því til að hún vildi víðtækari könnun á þessu máli þegar hún var búin að fá þetta í hendurnar. Á sínum tíma var það hins vegar vilji Alþingis að breyta þessu úr býsna víðtækri könnun í sinni ályktun yfir í mjög þrönga ályktun, eins og ég las upp áðan, um einangrun húsa. Ég held að það skipti ákaflega miklu máli að hér sé vel til vandað og sú nýjung sem er bitastæð í þessum efnum varðandi nýbyggingarnar alveg sérstaklega sé skoðuð rækilega og reynt að koma henni á framfæri og reynt að greiða fyrir því á allan máta að með því verði ending húsa meiri og viðhald ódýrara, orkusparnaður af því einnig, en það sem hæstv. ráðh. kom inn á og ég hef ekkert nema gott um að segja snertir vitanlega fyrst og síðast eldra húsnæði og það hvernig mætti beita sér fyrir ákveðnum átökum í því efni að spara orku þar sem ég geri ekki lítið úr.

Ég held að sú nýjung sem við vorum að fjalla um hér á sínum tíma hafi að vísu fengið vissan stuðning, en þó ekki nægilegan, því að ég veit að þessi aðili á enn þá í erfiðleikum varðandi þetta, en tilraun hans hafi verið þeirrar athygli verð að mönnum hafi verið skylt að reyna að útfæra hana til fullnustu og til þess hefðu bæði Húsnæðisstofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins átt að gera enn betur þó að ég viti að þessar stofnanir hafi báðar hjálpað nokkuð til.