09.03.1987
Efri deild: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3777 í B-deild Alþingistíðinda. (3411)

368. mál, málefni aldraðra

Frsm. heilbr.- og trn. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um frv. til l. um breytingar á lögum, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess. Það skal tekið fram vegna þskj. 731 að fjarverandi afgreiðslu þessa máls voru þau Karl Steinar Guðnason, Árni Johnsen og Kolbrún Jónsdóttir. En frv. er einfalt í sniðum og er í raun og veru aðeins um það að framlengja lögin um málefni aldraðra til 31. des. 1988.

Nefndin leggur áherslu á þýðingu þessara laga fyrir málefni aldraðra í heild, ekki síst hvað varðar beinar framkvæmdir í þeirra þágu. Nefndin ræddi nokkuð um framtíð Framkvæmdasjóðs aldraðra í ljósi þess að skattkerfisbreytingin nú lokar á þann nefskatt sem rennur beint og óskertur í Framkvæmdasjóð aldraðra og hefur hækkað umfram verðlagsforsendur að undanförnu sakir þess einhugar sem ríkt hefur um nauðsyn meira fjármagns til sjóðsins, enda kallar framkvæmdaþörf alls staðar á.

Nefndin hefur nokkrar áhyggjur af framtíð framlaga til sjóðsins eftir að farið verður að veita beint af fjárlögum til hans. Reynslan af því er um margt misjöfn, en í trausti þess að framlög verði ekki minni en nú í ár t.d. á næstu árum fram að gildistökunni leggur nefndin til samþykki við þetta litla frv. um framlengingu laganna um tæp tvö ár eða til ársloka 1988, enda verði endurskoðun lokið það tímanlega að ný lög geti þá tekið gildi sem sér í lagi tryggi nægileg framlög í Framkvæmdasjóð aldraðra.