11.03.1987
Efri deild: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3974 í B-deild Alþingistíðinda. (3619)

416. mál, tollskrá

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég tel nú lítil vandkvæði á því að greiða götu þessa tiltölulega litla máls en bæði í tilefni af orðum hæstv. ráðh. þar sem hann vék að nýjum lögum, heildarlögum, um tollskrá og líka minnugur þess hvernig menn töluðu í upphafi þessa kjörtímabils af hálfu Sjálfstfl. Minnist ég þá m.a. orða hv. 4. þm. Norðurl. v. um það að nauðsynlegt væri að gera heildarendurskoðun á tollheimtu hér á landi með tilliti til þess að draga úr henni, um það að fella niður vörugjald að hluta o.fl. Þá vildi ég mega spyrja um það frv. sem ráðherrann sagði að menn hefðu ekki treyst sér að flytja hér á þessu þingi, eins og hann orðaði það, vegna þess óhagræðis sem það skapaði fyrir ríkissjóð. Ég kýs að skilja orðið „óhagræði“ þannig að hann hafi verið að tala um að það dragi mikið úr tekjum ríkissjóðs, þ.e. það þýddi á máli fjmrh. tekjutap sem hins vegar aftur á móti gæti líka skoðast sem ákveðinn ávinningur fyrir landsmenn, kjarabót, og á þeim nótum voru hugmyndir manna um tollalækkanir ræddar í upphafi kjörtímabilsins að þær væru mál sem stuðlað gæti að verulegri kjarabót. Þess vegna vildi ég aðeins spyrja fjmrh. hvort menn megi vænta þess í þeim lögum, sem hann segir vera í undirbúningi en að menn hafi ekki treyst sér til að flytja frv. um núna, að þar séu á ferðinni hugmyndir um stórfellda eða verulega lækkun tolla.