13.03.1987
Efri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4111 í B-deild Alþingistíðinda. (3703)

352. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Hér er um allverulegan lagabálk að ræða, eins og hv. frsm. kom hér inn á áðan, þar sem eru mörg nýmæli sem við höfum hreinlega ekki komist yfir að skoða nægilega vel. Lagabálkurinn sem slíkur er þarfur og við erum sjálfsagt öll sammála um að það sé nauðsynlegt að endurbæta hann á ýmsan hátt.

Ég held að það sé rétt að taka það fram að okkur hefur einfaldlega ekki gefist kostur á því að kanna þetta mál nógu rækilega til þess að við getum fjallað um það, eins og fleiri mál nú á þessum dögum, af nægri þekkingu. Ég viðurkenni að sum atriði, eins og hv. frsm. kom inn á alveg sérstaklega, t.d. varðandi skipan heilbrigðisfulltrúa, geta verið mjög brýn til staðfestingar og það hreinlega kalli á það að gera eitthvað í þeim efnum. En hitt er ég jafnsannfærður um að önnur mættu gjarnan bíða betri skoðunar og jafnvel sum orka í mínum huga nokkurs tvímælis.

Ég vil þó taka það fram að frv. er greinilega vel unnið af þeirri nefnd sem undirbýr það til okkar. Það hafa margir verið kallaðir til viðtals um málið og umsagnir margra fengnar. Hitt er svo staðreynd einnig, sem ég get ekki annað en látið koma hér fram, að um sumt er frv. borið fram vegna ákveðinna stjórnunarörðugleika og árekstra innan þessarar stofnunar og það er ævinlega spurning um það hversu löggjafinn skuli grípa þar inn í. Þar þurfa aðrir aðilar að að koma og leysa þau mál sem þar eru á ferðinni.

Ég segi það hins vegar að þrátt fyrir ýmislegt sem ég vildi hafa fengið að skoða betur, þá sé ég heldur ekkert hættulegt við afgreiðslu frv. og greiði því þess vegna atkvæði, en vitanlega gerir maður það með hálfum huga þegar maður hefur ekki kynnt sér öll atriði þess betur en raun ber vitni.