13.03.1987
Efri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4129 í B-deild Alþingistíðinda. (3756)

392. mál, almannatryggingar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa þessa umræðu langa hvorki nú eða við 3. umr. þessa máls. Við höfum verið núna í nokkrum tímaskorti að fjalla um mikið réttindamál, réttindamál sem við erum öll sammála um hér inni að eigi að þoka til betri áttar og þurfum þess vegna að finna til þess bestu leiðirnar og réttlátustu um leið. Þar koma vitanlega upp ýmis álitamál og ekki nema von að nokkurn tíma þurfi til að átta sig á því hvort verið sé að fara bestu leiðina í hvívetna, sérstaklega þegar um er að ræða kerfisbreytingu. Hvort sem það er nú rétt að það sé til einföldunar að sumu leyti, þá er það alla vega svo mikil breyting að það er margt sem þarf að átta sig á, mörg atriði sem koma til greina. Ég minni bara á að stafliðirnir í 2. gr. frv. ná allt niður í p til skýringa varðandi undantekningarákvæði ýmiss konar. Við vorum einmitt að ræða það í nefndinni í morgun, okkur var bent á það einnig þar að sumt af því væri reyndar óbreytt miðað við það kerfi sem er í dag, annað hins vegar ekki.

Ég tók það fram við 1. umr. að ég vildi gera allt til þess að þessi frv. næðu fram að ganga þó að ég sæi það vitanlega að gildistaka þeirra eigi ekki að vera fyrr en 1. jan. 1988, þannig að þess vegna út af fyrir sig er ekki knýjandi að afgreiða þetta með hraða. Ég sagði líka þá og endurtek það nú að þrátt fyrir góðan vilja hæstv. ráðh. í þessu efni, þá ber þetta nokkur einkenni þess að kosningar eru í nánd og menn vilja hnykkja á þessu máli, en saga hæstv. ráðh. í þessu efni er með þeim hætti að ég er ekki að draga úr því að hæstv. ráðh. hafi viljað, þó fyrr hefði verið, koma þessu máli í einhvern áfangastað frekar en gerst hefur á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar. Og þó ýmislegt sé í þessum frv., sérstaklega þó frv. um almannatryggingar, hitt frv. hef ég nú ekki einu sinni kynnt mér út frá ýmsum réttindalegum sjónarmiðum, það hefur ekki gefist tími til þess, þó ýmislegt sé þar kannske öðruvísi en ég hefði endilega viljað, þá er hér um slíkt réttlætismál að ræða að okkur ber að fara í það vel og rækilega og eyða í það nokkrum tíma í öllum þessum hraða og erli síðustu þingdaga og koma því í höfn á þann veg sem okkur þykir best.

Hitt er svo alveg ljóst að þrátt fyrir ágæta vinnu þeirrar nefndar sem um þetta fjallaði, og ég dreg ekkert úr að um hafi verið að ræða vönduð og góð vinnubrögð, m.a. með tilliti til þeirra útreikninga sem fylgja með þessu og sýna bæði umfang þessa, breytingarnar og margt fleira, þá hefur umfjöllun okkar í nefndinni um þetta mál orðið til þess að við höfum rekið okkur á hnökra. Þrátt fyrir stuttan tíma höfum við rekið okkur á hnökra á þessu, sem ég fullyrði engan veginn að öllum sé búið að ná af þessu frv.

Ég veit það t.d. og hef fyrir mér orð formanns þeirrar nefndar sem að þessu vann ásamt orðum virðulegs forseta deildarinnar að það hafi aldrei verið ætlunin, síður en svo, að mánaðargreiðslur til nokkurs foreldris gætu lækkað. Við nánari athugun í nefndinni kom engu að síður í ljós að slíkt gat gerst vegna vinnustundaviðmiðunar sem var í frv. Þar af leiðandi er þessi brtt. komin fram frá heilbr.- og trn. um fulla fæðingardagpeninga til þeirra sem unnið hafa 1032-2064 vinnustundir, þ.e. þarna er það fólk sem vinnur hálfan daginn, þær konur sem vinna hálfan daginn - ég tala nú um konur í þessu tilfelli, þær taka þetta orlof auðvitað að yfirgnæfandi meiri hluta- það er a.m. k. engin hætta á því að þær missi neins miðað við það sem þær hafa nú varðandi mánaðargreiðslur.

Hins vegar fer maður strax að hugsa um það, og þyrfti nú kannske að athuga það milli 2. og 3. umr., að þegar við segjum svo aftur: „hálfra fæðingardagpeninga njóta þeir sem unnið hafa 516-1031 dagvinnustund á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs," þá rekur maður sig aftur á það að miðað við það hvernig frv. var sett upp með viðmiðuninni 1700 og með þeirri viðmiðun að hlutfallslegir fæðingardagpeningar yrðu greiddir eftir vinnuframlagi upp að því, og ef maður deilir 1700 vinnustundum í 1031 til að finna það hlutfall út, einni stund minna en þarna er reiknað með, að samkvæmt frv. hefði sú kona getað verið með 60% en nú erum við að setja þetta niður í hálfa fæðingardagpeninga. Þetta er ósköp einfaldur líkindareikningur miðað við það sem frv. gerir ráð fyrir. Formaður heilbr.- og trn. getur staðfest að það getur gerst í einstaka tilfellum að þessi breyting um hálfa fæðingardagpeninga nú, það getur breytt aftur því miðað við það sem frv. gerir ráð fyrir, um þá viðmiðun sem þar var, 1700 vinnustundir, og svo aftur ákveðið hlutfall af því sem færði ákveðin réttindi.

Um þetta þarf sem sagt að fjalla betur. Ég set spurningarmerki a.m.k. við þetta vegna þess að minn prósentureikningur í þessu efni sýnir mér að þarna erum við gagnvart einstaka aðila kannske að fara aftur á bak. Það má auðvitað ekki gerast og það ætlum við okkur ekki að gera.

Ég skal hins vegar taka það fram varðandi þá miklu kerfisbreytingu sem um er að ræða að það er rétt að það eru ákveðin rök fyrir lögfestingu þessa frv. nú. Uppstokkun þessa kerfis þýðir það að sú stofnun sem þarf að fjalla um þetta þarf að taka allt til endurskoðunar að nýju, setja ákveðnar reglur um það o.s.frv. Auðvitað setur maður spurningarmerki við nauðsyn þessarar tvískiptingar í heild sinni, hvort hún er til einföldunar í raun og veru eða hvort við hefðum átt að halda okkur við gamla kerfið og bæta það á einhvern hátt í þá veru sem við erum reyndar að gera að hluta til með þeirri brtt. sem hér er fram komin.

Um það var talað í heilbr.- og trn., og ég átta mig nú ekki alveg á því hvernig það hefur svo aftur dottið upp fyrir hjá okkur, en það var talað um að það þætti kannske heldur óbragð af því, a.m.k. man ég eftir því að hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir talaði um það hér, að það væri heldur óbragð af því að tala um fæðingarstyrk og heppilegra að finna annað orð. Ég hélt að við í nefndinni hefðum kannske verið sammála um að það ætti að vera ákveðin fæðingargreiðsla eða eitthvað því um líkt í þess stað. En það mun nú bara vera hraðinn á afgreiðslu þessa máls sem veldur því að við höfum ekki breytt þessu svo að það út af fyrir sig þarf ekki að vera frekari ásteytingarsteinn í umræðu um þetta.

Hins vegar sýnir nál. einnig að það eru fjöldamörg atriði hér sem enn þá þarf að huga að. T.d. þetta varðandi reglugerðarákvæði, sem er kannske hæpið að vera að tala um vegna þess að reglugerð getur auðvitað aldrei tekið fram lögum, en hefur nú samt gert það í þessu tilfelli, við höfum verið upplýst um það, og til góðs í því tilfelli þannig að við vorum ekki að gera athugasemd við það, varðandi bændakonur, námsmenn og dagmæður, eins og þarna er talað um. Við reiknum með því að greiðslur til þessara aðila haldist óbreyttar „þó að það snerti ekki sjálft lagafrv.“, eins og segir í nál. en auðvitað snertir það lagafrv. því að það hefði þurft að tryggja í lögum, því það er ekkert vit í því að ætla að treysta á að slíkt verði lagfært með reglugerð á eftir ef það á sér ekki stoð í lögum, í sambandi við bændakonur, námsmenn og dagmæður, að þetta fólk haldi hlutfallslega sömu réttindum og það hefur haft. Þetta þarf því líka að athuga en því er vísað yfir á framtíðina. Við reiknum með því að á þessum frv. verði gerðar þær lagfæringar sem leiðrétti þetta.

Eins er það, segir hér, að þó það snerti ekki sjálft lagafrv. - það er nú líka spurningarmerki um það - að tryggja að lífeyrisréttindi foreldra skerðist ekki í fæðingarorlofi. Það má segja að það geti komið inn í önnur lög, á það var okkur bent í dag, eins og t.d. lögin um Húsnæðisstofnun. Vissulega er það rétt. Það getur komið þar inn. En við þurfum þá að hafa einhverja tryggingu fyrir því að það verði. Ég ætla ekki að fjalla nánar um það því ég veit að hv. 6. landsk. þm., sem er mjög kunnugur þessum málum, mun á eftir einmitt fjalla um þá umfjöllun í nefndinni sem var varðandi þetta atriði og hefur reyndar áður verið fjallað um við lagasetningu af þessu tagi.

Ég vona sem sagt að við getum náð besta árangri í þessu og við skoðum þetta mál þá kannske eitthvað nánar milli 2. og 3. umræðu varðandi það atriði sem ég minnti sérstaklega á hér áðan.

Hér hefur verið lögð á borð þm. brtt. við frv. frá hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur varðandi það ef móðir fæðir andvana barn, hvernig fæðingardagpeningar skulu þar greiddir í þrjá mánuði í stað þeirra tveggja mánaða sem gert er ráð fyrir í frv. Ég mundi gjarnan vilja að sú tillaga yrði skoðuð milli umræðna og tekin þannig aftur. Flm. er ekki hér inni nú, en það væri ábyggilega ástæða til þess frekar en að láta hana ganga til atkvæða nú þegar. Það væri rétt að skoða það þá. Við höfum að vísu rætt þetta í nefndinni, þennan möguleika að breyta þessu, spurninguna um það.

Það sem ég vildi svo í lokin segja um þetta mál í heild sinni er það sem umræðan hefur kannske snúist allra mest um hér á landi, þ.e. um rétt hinna heimavinnandi kvenna. Þar erum við auðvitað ekki bara að tala um réttindi þeirra í þessu efni heldur erum við að tala um almenn réttindi þeirra sem hafa mjög verið til umræðu, m.a. á Alþingi nú í vetur varðandi starfsreynslu, mat á starfsreynslu þeirra á heimili til starfa annars staðar. Þar hafa verið tekin nokkur skref, a.m.k. í sumu, en annars staðar er þessa ekki gætt sem skyldi og við þekkjum það.

Ég legg ekki dóm á það á hvern hátt með mál þeirra eigi að fara t.d. varðandi fæðingarorlof, þó að ég meti starf þeirra vissulega mikils, vegna þess að meginmálið hefur alltaf snert það að foreldri fengi bætur fyrir tekjumissi, sem það verður fyrir úti á vinnumarkaðinum. Það hefur alltaf verið sú viðmiðun sem menn hafa verið með. En hitt er svo annað mál varðandi konur sem af einhverjum ástæðum eru heimavinnandi, ja við skulum segja vegna ómegðar, vegna veikinda barna eða einhvers slíks, að okkur er skylt að taka fullt tillit til þeirra, ekki bara varðandi starfsreynsluna, ekki bara varðandi fæðingarorlofið heldur kannske fyrst og síðast varðandi lífeyrismálin, eins og Alþingi hefur reyndar gert samþykkt um en lítið orðið úr enn þá, enda kannske ekkert auðvelt um að véla hvernig eigi að koma því fyrir.

Við fengum í nefndinni greinargóða og ágæta skýrslu, sem ég þakka fyrir, um það hvernig málefnum heimavinnandi kvenna á Norðurlöndunum væri fyrir komið í þessu efni. Það var alveg ljóst að á Norðurlöndunum er réttur þeirra í sambandi við þessi mál mjög lítill. Það kom mér reyndar alveg á óvart hvað sá réttur var lítill því að oft hefur verið vitnað til þess að við værum eftirbátar annarra einmitt hvað þetta snertir.

Ég ætla ekki að fara að lengja þetta mál, en vitanlega mætti gera það að miklu umræðuefni hér, alveg sérstaklega við hv. frsm. nefndarinnar, hv. 5. þm. Vesturl., af því að ég veit að honum er málið hjartfólgið, af því að félmrh. hæstv. gerði þetta að kosningamáli í síðustu kosningum, að heimavinnandi húsmæður skyldu fá fullan rétt. Ég man eftir því að frambjóðendur þess flokks máttu vart vatni halda á öllum kosningafundum eystra af vandlætingu yfir því og samúð út af því að þetta skyldi ekki vera komið í framkvæmd og samúð með heimavinnandi konum. Þannig að ég átti reyndar von á því að Framsfl. mundi kannske manna sig upp í það að endurflytja þetta hjartans mál hæstv. félmrh. En kannske gerir hann það í Nd. Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum með hv. 5. þm. Vesturl., að hann skyldi ekki taka þetta hjartans mál hæstv. félmrh. upp með meiri krafti en hann gerði í nefndinni, þó hann impraði nú á því öðru hvoru, til þess að hann njóti alls sannmælis í þessu efni. En þar erum við hins vegar komin að öðrum atriðum sem þarf að skoða í heild sinni. Það er nú kannske ekki til mikils að vera að skora á hæstv. heilbr.- og trmrh. nú þegar þessi ríkisstjórn fer bráðum að geispa golunni. (Gripið fram í). Já, ég tala nú ekki um ósköpin. En það er þá líka síðasta tækifærið til áskorana úr ræðustól hér, ég skal þó taka það fram. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir ríkisstjórn að reyna að taka málefni og réttindamál heimavinnandi kvenna í heild sinni til athugunar og þar fléttaðist þetta inn í. Ég held að á þann eina hátt gætum við leyst það mál svo viðunandi væri, annars vegar gagnvart rétti þeirra og svo hins vegar gagnvart rétti þeirra, sem missa atvinnutekjur og er verið að bæta upp með þessum hætti sem gert er hér í þessu frv.

Ég hef alltaf sagt það, og skal láta það vera mín lokaorð, að þetta mál hljóti að vera áfangamál. Hér er gert ráð fyrir þremur áföngum. Það hefur ekkert gerst núna á þessu tímabili, síðasta kjörtímabili, en núna á næsta kjörtímabili eiga sem sagt að koma þarna þrír ákveðnir áfangar sem ég fagna og við stöndum svo 1990 með sex mánaða fæðingarorlof. Það eru engin lok á þessu máli og ég held að engum detti það í hug. Menn verða að halda áfram þessa braut til heilla fyrir samfélagið í heild sinni, til heilla fyrir börn og fyrir foreldri, þannig að það ber í lokin að fagna því að hæstv. ríkisstjórn hefur þó mannað sig upp í það að taka um það ákvörðun að taka þó þessa áfanga þegar hún hefur lokið sínu lífi.