05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

22. mál, framhaldsskólar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Hér er um stórmál að ræða sem þegar hefur verið gerð svo góð grein fyrir af hálfu 1. flm. að ég þarf fáu þar við að bæta. Hitt er kannske rétt að undirstrika út af því sem hann kom inn á þegar í upphafi varðandi áhuga eða áhugaleysi alþm. á framhaldsskólamálum almennt að rekja söguna alveg aftur til þess þegar menn voru að reyna að fikra sig áfram á sviði fjölbrautaskólanna og voru þá um leið að flytja þau mál inn á vettvang Alþingis án þess að þau fengju afgreiðslu - á ýmsan máta, bæði hvað varðar kostnaðarhlutdeild og hvernig með skyldi fara þannig að skipulag væri nokkuð tryggt á þessum málum. Þessu man ég eftir frá þingum 1974 og 1975, man eftir að sjálfur stóð ég hér í Ed. að flutningi frv. um þetta efni. Ég man ekki betur en að yrðu líflegar umræður um það efni hér og menn sýndu því áhuga þó ekki næði það fram að ganga, enda var komið þar kannske að kviku þess sem þetta framhaldsskólamál hefur stöðugt strandað á, þ.e. kostnaðarskiptingunni milli ríkis og sveitarfélaga.

Þegar hæstv. fyrrv. menntmrh. Ingvar Gíslason var með þetta frv. á sínu borði á sínum tíma, sem hann tók við af hálfu fyrirrennara síns hv. þm. Ragnars Arnalds fyrrv. hæstv. menntmrh., vildi svo til að ég sat í nefnd á vegum ráðuneytisins til að reyna að finna leiðir til þess að þetta mál mætti leysa. Það voru reyndar ýmsir aðrir þættir sem þar var komið inn á. Sannleikurinn var sá að við náðum samkomulagi í þessari nefnd. Þar voru líka staddir og tilkvaddir fulltrúar sveitarfélaganna og m.a. Reykjavíkurborgar þar sem fyrirstaðan var nú allra mest við því að hægt væri að ná samkomulagi. Þá náðu menn engu að síður samkomulagi um alla þætti nema hvað snerti kostnaðarskiptinguna. Þar strandaði algjörlega og þar strandaði fyrst og fremst á þeim fulltrúa sem Reykjavíkurborg var með í þessari nefnd og varð til þess að nefndin treysti sér ekki til að skila einróma áliti um þetta og lét það í vald ráðherra hvernig með skyldi fara. Þetta var svo áfram sá ásteytingarsteinn sem þessi löggjöf hefur fyrst og fremst strandað á.

Hitt er svo annað mál að það er miklu lakara þegar farið er að tala um þetta í fjölmiðlum af m.a. aðstoðarmanni hæstv. fyrrverandi menntmrh. þar sem aðstoðarmaður ráðherrans er einmitt að taka undir þetta áhugaleysi þm. Þá held ég að væri rétt að rifja upp að hæstv. fyrrv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir var spurð að því hér á Alþingi skömmu eftir að hún tók við því embætti hvort hún hygðist beita sér fyrir því að leggja fram frv. um samræmdan framhaldsskóla. Ég man eftir að hæstv. ráðh. svaraði því til að hún hefði það ekki í hyggju, hún vildi sjá til hvernig þróunin yrði, þetta væri allt að gerjast og þróast og það væri rétt að sjá til hvernig það gerðist, í raun og veru að því er ég taldi að láta tilviljanir ráða þessu. Mér finnst það því koma úr hörðustu átt þegar fólk úr menntmrn. er að tala um áhugaleysi þm., aðstoðarráðherrar hjá jafnvel þeim fyrrv. menntmrh. sem hafa hreinlega sagt að þeir vildu ekki samræmda löggjöf af þessu tagi og ætluðu sér ekki að beita sér fyrir neinni löggjöf af þessu tagi. En við vitum mætavel að skortur á þessari löggjöf er í raun og veru orðinn hemill á mjög mörgum sviðum á allt skólastarf á þessu stigi.

Núv. hæstv. menntmrh. mun hafa skipað nefnd í þetta mál, ég man ekki hvort hv. 1. flm. kom inn á það hér áðan, og hvar hún er á vegi stödd veit ég ekki, a.m.k. er ekki gert ráð fyrir því á málaskrá Alþingis í vetur að neitt verði hreyft við þessu máli, ekki hef ég séð það, enda munu hafa orðið einhverjar sviptingar í nefndinni, formaður sagt af sér, nýr formaður verið munstraður til stjórnar. Reyndar hef ég ekki hugmynd um hvort þessi nefnd er yfirleitt nokkuð farin að starfa eða hvort hæstv. menntmrh., sem hefði verið gott að hafa inni við þessa umræðu, er með þetta mál í einhverjum gangi yfirleitt, svo knýjandi sem það er.

Aðeins vildi ég svo segja það varðandi kosningar í fræðsluráðin að vissulega má segja að það megi með ýmsum hætti fara að því að kjósa í fræðsluráð, en hér er þó a.m.k. enginn vafi á því að aðferð lýðræðisins er viðhöfð og það er ansi langt frá, eins og hv. 1. flm. kom inn á, þeirri aðferð sem fræðsluráðin fyrir grunnskólana eru kosin eftir nú af þeim þrönga hópi og ólýðræðislega kjörnum sem heita landshlutasamtök sveitarfélaga. Ég er ekki að segja að það hafi tekist illa til. Ég er ekki að segja að menn hafi ekki reynt að velja hæfa og góða menn í fræðsluráðin. M.a. veit ég að við eystra erum þekktir fyrir að vera lýðræðissinnaðir í þeim efnum og halda vel á málum. Þar hefur verið mannval í fræðsluráðin, en það er ekki vegna þess með hvaða hætti það er kosið, því miður. (Gripið fram í.) Það er erfitt að skipa fræðsluráð þarna eystra án þess að þar séu góðir menn.

En að öllu gamni slepptu eða alvöru í þessu efni held ég að við ættum að taka rögg á okkur hér og taka lotu á þessu máli, virkilega góða umræðu í nefnd þar sem t.d. kæmu boð frá hæstv. menntmrh., sem ekki er viðstaddur þessa umræðu, um hvort það sé virkilega svo að í ráðherratíð þeirra sjálfstæðismanna sé ekki meiningin að hreyfa neitt við þessu máli. Áður var þetta mál þó, bæði á vegum Alþb. og Framsfl., í fullum gangi í ráðuneytinu og lögð mikil vinna í það bæði af hálfu ráðuneyta og þm. þeirra flokka sem stóðu að þeim ríkisstjórnum.

Ég sé að hv. 9. þm. Reykv. hefur kvatt sér hljóðs. Hann getur þá kannske upplýst okkur um það hér á eftir hvort það sé vinna í gangi hjá núverandi stjórnarflokkum undir farsælli forustu hæstv. núv. menntmrh. um að koma þessu máli í höfn svo sem brýn nauðsyn er á.