12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

119. mál, umferðarlög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Á borð okkar er enn kominn þessi miklu frumvarpsbálkur um umferðarlög. Við sem höfum alveg sérstaklega fjallað um hann nú á sumarmánuðum eigum kannske ekki að vera að blanda okkur mikið í þessa umræðu heldur heyra hljóðið í öðrum varðandi það hvernig þar hefur til tekist.

Það er auðvitað mála sannast að við okkur í allshn. hafa blasað ótrúlega margar athugasemdir við þetta frv. frá hinum ýmsu aðilum sem koma næst þessu máli á margan veg og alveg ótrúlega misvísandi einnig.

Í morgun vorum við virðulegur forseti þessarar deildar, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, og hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir á þeirri ráðstefnu sem hæstv. dómsmrh. gat um, um umferðarmál í heild sinni. Ég nefni það bara sem dæmi sem þar kom fram að þar talaði hæstaréttarlögmaður sem ég reikna með að komi nokkuð nálægt þessum málum hvað snertir dóma og ýmislegt sem varðar tryggingafélögin. Mér skildist það sem sagt án þess að ég viti það nákvæmlega. Í máli hans kom það fram að hér væri um gífurlega mikla og róttæka breytingu að ræða og í raun og veru allt of mikla og róttæka og að betra hefði verið að taka þetta í smærri áföngum. En síðan kom aftur fulltrúi ökukennara upp, hélt mjög harða ádrepu á ráðuneyti og Alþingi fyrir það að hlusta ekki á ökukennara sem skyldi varðandi meðferð ökukennslu og sagði það að frv. gengi allt of skammt og næði þar af leiðandi alls ekki tilgangi sínum.

Þetta voru bara svona smásýnishorn af því sem við höfum fengið að sjá í þessum umsögnum. Þess vegna held ég að það sé alveg rétt sem fram kom hjá hv. 5. landsk. þm. Við höfum í raun og veru einokað þetta mál nokkuð hér í hv. Ed., skoðað það mjög vel. Allshn. Nd. hefur ekkert komið nálægt þessu og því hljóta þessar nefndir, ef menn ætla að koma þessu í gegn núna, að verða að starfa saman. Til þess er ég vitanlega reiðubúinn og ég þykist vita að ekki standi á hv. formanni allshn. þessarar deildar, Jóni Kristjánssyni, að kalla saman til sameiginlegra funda um þetta mál.

Ég ætla ekki að fara út í það efnislega hvernig við fjölluðum um þetta núna á sumarmánuðum þar sem við vorum að reyna að koma okkur niður á það hvað okkur væri óhætt að setja inn sem nokkurn veginn þau atriði sem gæti orðið samkomulag um og svo aftur þau atriði sem við skildum eftir. Menn munu kannske segja: Þið skilduð eftir allt það viðkvæmasta eða meginhlutann af því allra viðkvæmasta, svo sem ökuhraðann og annað eftir því. Það er alveg rétt. En það þýðir auðvitað ekki annað en að þingmeirihluti komi þar að eins og svo mörgu öðru í þessu og skeri úr um þetta. Ég er á því að það verði að höggva á þennan hnút nú eftir að þetta frv. hefur verið svona lengi í meðförum okkar og það er auðvitað mjög slæmt að þurfa að afgreiða með meirihlutasamþykktum hér í þinginu hin viðkvæmustu álitamál sem þarna eru á ferð. En það er óhjákvæmilegt.

Ég held að við höfum verið að reyna að leita að millileið, einhverju sem gæti verið fullt samkomulag um hér og okkur hafi tekist það í sumu en í öðru ekki og þá verður hreinlega meiri hlutinn að ráða. Umfram allt held ég að það sé beðið það mikið eftir þessum nýju lögum úti í þjóðfélaginu og Alþingi liggi undir það miklu ámæli gagnvart því að afgreiða þetta ekki að það sé óhjákvæmilegt.

Ég ætla aðeins að nefna eitt dæmi um þetta — án þess að fara efnislega út í nokkur atriði hér — dæmi um það sem við stóðum andspænis í þessari endurskoðunarnefnd. Það var álit frá Sambandi ísl. tryggingafélaga, einmitt því sambandi sem var að halda þessa ráðstefnu og er að halda þessa ráðstefnu raunar núna og hefði kannske verið miklu hollara fyrir deildina að taka sér bara frí frá störfum í dag og fara á þessa ráðstefnu og hlusta á það sem þar fer fram. Ég hygg að það hefði verið miklu hollara fyrir okkur. Þar eru þeir að benda á það æ ofan í æ að með breyttu orðalagi í þessu frv. og væntanlegum lögum skapist ýmiss konar réttaróvissa. M.a. vegna breytts orðalags kunni túlkun að verða þveröfug við það sem áður hefur verið á ýmsum veigamiklum atriðum þannig að dómar sem gengið hafa í ákveðnum ágreiningsmálum muni verða ógildir vegna þess að allt annað orðalag sé komið upp í frv. Ég kann ekki að meta þetta því að ég er ekki löglærður. Við höfðum hins vegar ágætan aðstoðarmann þarna, fulltrúa frá dómsmrn., sem leiðbeindi okkur nokkuð um þetta og taldi að svo mundi ekki vera nema í undantekningartilfellum. En þetta sýnir bara hvað málið er allt vandmeðfarið.

Ég minni enn á það að þrátt fyrir þær ábendingar sem við tókum til greina frá ökukennurum heldur formaður Ökukennarafélags Íslands ræðu á þessari ráðstefnu í morgun og segir hreinlega bara fussum svei við frv. Hann segir sem sagt að við höfum ekki gert nokkra tilraun til þess að nálgast ökukennsluna í landinu á raunhæfan hátt en þeirra tillaga er í raun og veru sú að þarna verði um ökuskóla að ræða, alls ekki að það fari inn í hið almenna skólakerfi eins og okkur mörg langar til að gera, heldur verði þetta á þeirra vegum. Auðvitað finnum við kannske svona örlitla hagsmunalykt af þessu, það er ekki hægt að neita því þó að það sé kannske ljótt að segja það hér í ræðustól, en ég efa ekki að það sé einlægur vilji þessara manna engu að síður, með slíkum skóla eins og þeir leggja þar til, að bæta ökukennsluna í landinu. Þetta er bara einn liður sem sýnir það hvað málið er viðkvæmt og hvað það er margt í raun og veru sem enn er eftir að útkljá en við verðum bara að gera það með meirihlutasamþykkt í vetur og ljúka þessu máli af, sjá svo til hvernig reynslan af hinum einstöku breytingum verður vegna þess að Alþingi má ekki lengur láta það henda sig að afgreiða ekki umferðarlögin.