17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5892 í B-deild Alþingistíðinda. (10000)

354. mál, jöfn skólaskylda

Flm. (Arndís Jónsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt hér fram svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita allra leiða til að jafna skólaskyldu þannig að árið 1990 verði allir grunnskólar í landinu níu mánaða skólar. Enn fremur að ríkisstjórnin undirbúi breytingar á grunnskólalögum sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að ná þessu markmiði.“

Stöðugt gerum við auknar kröfur til skólanna í landinu. Þeir skipta miklu máli fyrir allar framfarir í nútímaþjóðfélagi. Þetta á ekki síst við um grunnskólann þar sem lagður er grundvöllur að öllu menntastarfi komandi kynslóðar. Það varðar einmitt miklu bæði fyrir einstaklinga og samfélag að vel takist til í starfi skólanna.

Já, kröfurnar aukast og alltaf eru menn að koma auga á ný málefni sem skólarnir þyrftu að sinna. Á athyglisverðum ráðstefnum sem haldnar hafa verið undanfarið hef ég heyrt að í skólunum þurfi að stórauka umhverfisfræðslu, náms- og starfsfræðslu, jafnréttisfræðslu, og flestum er ljóst hvers heilbrigðisyfirvöld vænta af skólakerfinu í sambandi við fíkniefni og ógnvekjandi sjúkdóma. Raunar hvarflar það að kennara þegar hann heyrir um þetta rætt hvort ekki þurfi að bæta við skólatímann yfirleitt til þess að anna þessu.

Ég er þess fullviss að öllu lengur verður ekki undan því vikist að starfstími skólanna í landinu verði fullir níu mánuðir. Meiri hluti grunnskólanemenda býr við níu mánaða skóla, eða 75,79% samkvæmt upplýsingum menntmrn. Hin 24,21 % búa við skemmri skólagöngu. Frá sjö mánuðum upp í átta og hálfan mánuð. Þeir skólar sem starfa skemur en níu mánuði á ári eru allir utan höfuðborgarsvæðisins.

Þetta fyrirkomulag styðst við 41. gr. grunnskólalaganna þar sem segir að reglulegur starfstími grunnskóla skuli vera 7–9 mánuðir og að taka skuli sérstakt tillit til atvinnuhátta og aðstæðna í skólahverfinu.

Í skýrslu Efnahags- og þróunarstofnunar sem unnin var á vegum menntmrn. og út kom 1987 segir um þetta, með leyfi forseta:

„Skóladagurinn í mörgum sveitaskólum er fremur stuttur og þar að auki víða kennt í aðeins átta mánuði á ári og sums staðar jafnvel aðeins í sjö mánuði. Til sveita stafar langt sumarfrí af þörfinni fyrir vinnuafl barna og unglinga á sumrin. Þessi þörf fer nú þverrandi og er því erfitt að koma auga á hvað réttlætir styttra skólaár í dreifbýli. Styttra skólaár getur ekki leitt til annars en að breikka það bil sem er á milli skóla í sveitum og bæjum.“ Og áfram:

„Það er erfitt að réttlæta þann mikla mismun sem er á milli landshluta hvað snertir skilyrði til menntunar og mismunur þessi hlýtur að vera dreifbýlinu í óhag.“

Þarna er talað um mismun og ég tel að í þessu sé fólkinu á landsbyggðinni raunverulega mismunað.

Við verðum því miður að viðurkenna að í könnunum sem gerðar hafa verið á námsárangri nemenda virðist vera fylgni milli árangurs og skólatíma þó að þar komi auðvitað fleira til greina. Hvernig á líka annað að vera þegar við höfum samræmd grunnskólapróf skv. 58. gr. grunnskólalaganna en ósamræmi í skólastarfinu?

Við höfum lengi talað um skólaskyldu, en það orð er stundum misskilið. Skólaskylda felur ekki bara í sér kvöð, heldur felur hún einnig í sér mikilvæg réttindi einstaklinga til náms og þroska. Það er einmitt þess vegna sem gera þarf öllum jafnt undir höfði í þessu tilliti. Oft heyrast þau rök fyrir styttri skólagöngu til sveita að börnin þurfi að vera við störf um sauðburðinn og í réttunum og jafnvel í sláturtíðinni. Svipað hefur jafnvel heyrst um fiskvinnslu í sjávarplássum. Ekki hef ég rekist á neinar athuganir sem hafa verið gerðar á gildi þessara fullyrðinga, enda er ekki víst að margir vildu viðurkenna að undirstöðuatvinnuvegir okkar séu að nokkru háðir vinnuframlagi grunnskólanema um afkomu sína.

Stundum er fullyrt að lengd skólaársins sé ekki neinn mælikvarði á árangur. Auðvitað er það ekki einhlítur mælikvarði. Viðhorf bæði kennara og nemenda til menntunarinnar skiptir þar miklu máli. Hins vegar er alveg ljóst að ekki fer saman jákvætt viðhorf til menntunar og áhugaleysi um skólastarf. Þegar hér er komið sögu dettur einhverjum eflaust í hug að ég viti ekki mikið um lífið til sveita. Ég mundi þá svara því til að mér er fullljóst að lífið til sveita og í minni sjávarplássum er háð ýmsum sveiflum og óvæntum atvikum, sem erfitt er að bregðast við. Ég álít líka að það sé alveg rétt í slíkum tilfellum að sýna sveigjanleika í skólahaldinu og jafnvel breyta skólatímanum í staðinn fyrir að stytta hann. Til þess eru ýmsir möguleikar og grunnskólalögin gera ráð fyrir því að hluta skólans megi halda á sumrin.

Það er ekki sjálfgefið að allir hafi jákvætt viðhorf til menntunar og skólastarfs, en það er hægt að vekja flesta upp af kæruleysi um þessi efni. Ýmsum finnst eflaust að hér sé ekki um neitt stórmál að ræða, en sjálf lit ég svo á að hér sé bæði um byggðamál og jafnréttismál að ræða. Þegar fólk hugsar til búsetu í byggðarlagi eru kostir þess og gallar vegnir og metnir. Eitt af því sem þá er spurt um er ástandið í skólamálum byggðarlagsins. Góðir skólar sem eru samkeppnisfærir við það sem best gerist í landinu gera byggðarlag byggilegra. Jafnréttismál er þetta líka eins og ég fyrr kom að. Hér er um að ræða skref í átt til þess að ná því markmiði sem ríkisstjórnin setti sér í stjórnarsáttmálanum um jafna aðstöðu allra til menntunar. Við sem búum úti á landi viljum ekki láta líta á okkur sem neitt öðruvísi fólk og við vitum að mikilvægur þáttur í því að varðveita einingu svo lítillar þjóðar er að allir finni sig sitja við sama borð. Því óttast ég ekki að efni þessarar tillögu verði illa tekið. Kostnaður við að gera alla skóla að níu mánaða skólum er minni en margan grunar. Í kennaralaunum munar engu nema þá á yfirvinnulið. Helsti kostnaðarauki felst í skólaakstri og í þeim þáttum í rekstri skólahúsnæðis sem eru breytilegir eftir því hvort skólinn er starfræktur eða ekki. Óhætt er að fullyrða að kennarar munu yfirleitt ekki leggja stein í götu slíkra breytinga.

Kennurum er hvatning í því að finna að störf þeirra séu metin og vonir bundnar við góðan árangur skólastarfsins. Þeir munu líka í flestum tilfellum ekki hafa haft áhrif á lengd skólaársins þar sem það er ekki í þeirra höndum að ákveða slíkt.

Hæstv. forseti. Ég hef lítillega reifað þetta einfalda mál sem ég tel samt vera nokkurt réttlætismál og metnaðarmál margra. Ætla ég ekki að fjölyrða frekar um það að sinni, en legg það hér fram til málefnalegrar umfjöllunar og afgreiðslu.