131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:31]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mönnum hefur verið tíðrætt hér á umliðnum dögum og vikum og mánuðum raunar um virðingu Alþingis og stöðu þess í þrískiptingu ríkisvaldsins, gagnvart framkvæmdarvaldinu, gagnvart dómstólum o.s.frv. Úr stóli forseta hafa verið fluttar gagnmerkar ræður í þá veru, raunar mjög umdeildar.

Það er gjörsamlega óþolandi með öllu að hér skulum við við 1. umr. fjárlaga horfa upp á þann veruleika nú eftir fimm til sex klukkutíma umræðu þar sem einir 14 eða 16 alþingismenn hafa haldið sínar ræður, komið fram með athugasemdir sínar og fyrirspurnir, að ekki einn einasti fagráðherra hafi átt erindi upp í þennan stól til að svara fyrirspurnum, til að koma fram með stefnumörkun sína í þessu stærsta máli haustsins. Ég er eldri en tvævetur á hinu háa Alþingi, herra forseti, og minnist þess ekki að hér áður fyrr hafi mál verið með þessum hætti. Vissulega er það þannig að fjármálaráðherra fer fyrir flokki ríkisstjórnar, ráðherranna, í þessum efnum. Venjan hefur engu að síður verið sú að fagráðherrarnir hver um sig nota þetta tækifæri til þess að útlista sína sýn á komandi fjárlagaár, fara yfir hverjar áherslurnar eru, hvað liggi á bak við þær tölur sem er að finna í frumvarpinu. En það er ekki æmt. Ekki er sagt eitt aukatekið orð og ekki látið svo lítið að svara fyrirspurnum um einstök atriði í þessari umræðu. Svona getur þetta ekki gengið lengur. Við erum að tala um virðingu Alþingis. Ef því er sýnd einhvern tímann óvirðing þá er það við þessa umræðu.

Ég tek undir með síðasta ræðumanni og fer þess á leit að við gerum hlé á umræðunni þar til þessir fagráðherrar eru mættir hér til leiks og sitja þennan fund og taka þátt í honum af fullum krafti. Það er lágmarkskrafa, herra forseti. Tillaga mín er því þessi: Gerum hlé á þessari umræðu þar til ráðherrar þessarar ríkisstjórnar gefa sér tíma og ráðrúm til að vera við hana.

(Forseti (BÁ): Forseti endurtekur að gerðar hafa verið ráðstafanir til að koma skilaboðum til viðkomandi ráðherra.)