131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[13:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur hófstillta en alvöruþrungna ræðu þar sem hún vakti athygli á þeim mikla vanda sem við okkur blasir. Það er til skammar fyrir okkur öll hvernig við höfum búið að geðfötluðum í samfélaginu. Svo einfalt er málið. Ég ætla mér ekki í þessari umræðu að hengja einstaka stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokka upp á snaga í því sambandi. Þetta er vandamál sem við verðum að taka á öllsömul.

Í umræðunni heyri ég ekki betur en að fullur vilji sé hjá stjórnarandstæðingum sem og stjórnarliðum til að viðurkenna vanmátt okkar í þessum efnum. Bent hefur verið á fjölmörg úrræði sem við þurfum að grípa til. Ég trúi því líka að hæstv. ráðherra, þegar hann stendur upp úr moldrykinu og lítur yfir, skynji í eigin störfum vandann í þessum efnum. Allt of margir standa utan gátta og eru nánast úti á túni, fá ekki úrræði sem þeir þurfa á að halda. Eins og bent hefur verið á sækja þeir sér í sumum tilvikum ekki þá hjálp sem þeir þurfa og enginn er til að vísa þeim rétta leið.

Þetta er veruleiki sem við verðum að horfast í augu við. Það eru ekki eingöngu biðlistar eftir stofnanarými heldur líka eftirfylgnin. Það er verið að útskrifa þessa sjúklinga, auðvitað ekki læknaða heldur enn þá sárlasna. Það vantar mikið upp á að kerfið fylgi þeim eftir á nýjan leik út í lífið.

Það er auðvelt að standa hér og gagnrýna, ég er fyllilega meðvitaður um það. En ég trúi því að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin öll hafi fundið fyrir þunga þessarar umræðu og þverpólitískum vilja til að taka á þessum málum af fullum þunga. Ég a.m.k. býð mig fram til aðstoðar við hæstv. ráðherra, ríkisstjórnina og þingheim við að gera eitthvað. Látum ekki bara duga að tala um málið heldur látum verkin tala.