131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:21]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Nýleg koma rússnesks herskipaflota upp að ströndum landsins hefur rifjað upp þá tíma er Morgunblaðið birti af aðdáunarverðri eljusemi og með reglubundnu millibili myndir af sovéskum flugvélum sem komu upp undir landið og herinn á Keflavíkurflugvelli flaug til móts við. Ef óþarflega langt leið á milli slíkra heimsókna að mati Morgunblaðsins voru sóttar gamlar myndir inn á lager og birtar til að halda mönnum við efnið.

Nú er öldin önnur. Rússneskur herskipafloti kemur upp að Íslands ströndum og hefur hér langdvalir fast upp við tólf mílna landhelgismörkin. Það er Landhelgisgæslan íslenska sem uppgötvar flotann í könnunarflugi, eftirlitsflugvélar frá Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu eru sagðar hafa komið og kíkt á herlegheitin en engin mynd hefur birst á útsíðum Morgunblaðsins af verndaranum á Keflavíkurflugvelli og hinum óboðnu erlendu gestum.

Auðvitað hefur enginn í alvöru áhyggjur af því að Rússar hafi eitthvað misjafnt í hyggju í garð okkar Íslendinga, hvorugur aðilinn á sökótt við hinn. Hitt er öllu alvarlegra, það andvaraleysi sem íslensk stjórnvöld virðast hafa sýnt í þessu tilviki hvað varðar það að reyna að bægja þessum ófögnuði frá ströndum landsins og af fiskimiðum okkar. Við eigum að sjálfsögðu að halda öllu hernaðarbrölti og heræfingum eins fjarri landinu og kostur er og gildir þá einu hver á í hlut. Alvarlegust er þó sú ógn sem umhverfinu getur stafað af slíkum heimsóknum, sérstaklega ef í hlut eiga kjarnorkuknúin eða mögulega kjarnorkuvopnuð farartæki.

Jafnvel þótt svo sé ekki sýnir olíuflekkur á sjónum við herskipin, væntanlega tengdur umskipun á olíu á hafinu, hvað getur verið að varast. Langanesbjörgin eru einnig vélarvana skipum ómjúkur landtökustaður áveðurs í foráttubrimi ef svo bæri undir.

Í rússneska herskipaflotanum voru m.a. flugmóðurskipið Kúsnetsov aðmíráll, tæplega 60 þús. tonn að stærð, og kjarnorkuknúna beitiskipið Pétur mikli, rúmlega 23 þús. tonna kláfur og sagður í mjög lélegu ástandi. Eins er líklegt að kafbátar, þess vegna kjarnorkuknúnir, hafi tekið þátt í leiknum neðan sjávar. Rússneski norðurflotinn, eins og hann er á sig kominn, er að margra dómi alvarleg ógn við umhverfið á norðurslóðum þó að hann haldi sig í höfn á Kólaskaga, hvað þá þegar hann er kominn hér upp undir fjörur.

Þess misskilnings hefur gætt í umræðunni að skipin hafi verið utan íslenskrar lögsögu. Því fer víðs fjarri. Skipin héldu sig vissulega utan 12 mílna landhelgismarkanna en þau voru djúpt inni í íslensku 200 mílna sérefnahagslögsögunni. Samkvæmt 56. grein hafréttarsamningsins fer strandríkið með fullveldisréttindi hvað varðar m.a. verndun lífrænna sem ólífrænna náttúruauðlinda innan sérefnahagslögsögunnar og með lögsögu hvað varðar verndun og varðveislu hafrýmisins.

Samkvæmt lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nýsettum lögum nr. 33/2004, nær íslenska mengunarlögsagan yfir alla sérefnahagslögsöguna út að 200 mílum og til landgrunnsins alls. Einnig má nefna alþjóðasamninga um varnir gegn mengun frá skipum frá 1973 o.fl. Það er því síður en svo að við höfum ekkert á bak við okkur í því að reyna að bægja þessum ófögnuði frá landinu.

Auðvitað væri staða okkar sterkari ef við hefðum friðlýst allt íslenska hafsvæðið fyrir kjarnokuvopnum og bannað þar umferð kjarnorkuknúinna skipa eins og ég hef margoft lagt til með frumvarpi hér á Alþingi og í gegnum tíðina hefur verið stutt af þingmönnum allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins.

Herra forseti. Mikla undrun vekur að það var fyrst eftir að skipin voru búin að vera hér uppi við landsteina í tæpan hálfan mánuð sem íslensk stjórnvöld byrjuðu að leita eftir skýringum hjá Rússum. Þetta mál vekur margar áleitnar spurningar og gefur tilefni til að yfir það verði farið, m.a. vegna mögulegra sambærilegra tilvika í framtíðinni.

Ég vil því leyfa mér að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmálaráðherra, yfirmanns Landhelgisgæslunnar, sem til viðbótar gæslu lögsögunnar fer þar með mengunareftirlit:

1. Hvenær varð Landhelgisgæslunni ljóst að meðal hinna rússnesku herskipa væri kjarnorkuknúið skip?

2. Tilkynnti Landhelgisgæslan umhverfisyfirvöldum um málið?

3. Telur dómsmálaráðherra mögulegt að líta svo á að kjarnorkuknúin skip séu tilkynningarskyld innan mengunarlögsögu Íslands, sbr. 12. gr. laga nr. 33/2004?

4. Hverju sætir að svo lengi dróst að hafa samband við rússnesk yfirvöld og óska skýringa á dvöl herskipanna hér?

5. Kom aldrei til álita að beina tilmælum til rússnesku herskipanna um að hverfa frá landinu?

6. Telur dómsmálaráðherra í ljósi reynslunnar af þessu máli þörf á styrkja stöðuna til gæslu og mengunareftirlits innan lögsögunnar með frekari lagaákvæðum?