131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Fjármálaeftirlitið.

157. mál
[14:55]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir auknu gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins. Því er til að svara að ég hef hug á að beita mér fyrir því og tel mikilvægt að heimildir Fjármálaeftirlitsins til að birta opinberlega niðurstöður sínar í eftirliti með verðbréfamarkaði verði rýmkaðar. Fjármálaeftirlitið fjallar ekki opinberlega um einstök mál eða málefni eftirlitsskyldra aðila nema mælt sé fyrir um upplýsingaveitingu í lögum. Eftirlitsskyldir aðilar eða almenningur eiga því ekki aðgang að niðurstöðum í einstökum málum nema þær séu birtar af öðrum en Fjármálaeftirlitinu. Þetta hefur verið gagnrýnt m.a. vegna þess að þetta leiðir til þess að varnaðaráhrif af aðgerðum Fjármálaeftirlitsins eru minni en ella og stuðla ekki að bættri framkvæmd á fjármálamarkaði í heild. Á móti kemur að það þjónar ekki hagsmunum heildarinnar að öll verkefni Fjármálaeftirlitsins séu gerð opinber.

Meginverkefni Fjármálaeftirlitsins er fjárhagslegs eðlis, þ.e. að fylgjast með styrkleika eftirlitsskyldra aðila að standa við skuldbindingar sínar. Fyrirbyggjandi eftirliti er ætlað að stuðla að sterkari áhættustýringu og innra eftirliti, greina veikleika í tíma og leiða þá til lykta þannig að sem minnst tjón hljótist af.

Framkvæmd og niðurstöður slíks eftirlits geta ekki verið opinberar fyrr en eftir að hætta er liðin hjá. Það er fyrst og fremst í eftirliti með verðbréfamarkaði þar sem telja verður að gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins eigi að vera meira. Þróunin er sú í Evrópu að fjármálaeftirlit greini í ríkari mæli frá einstökum málum, einkum málum sem varða starfsemi á verðbréfamarkaði. Í nýrri tilskipun Evrópusambandsins um markaðssvik verður fjármálaeftirlitum almennt heimilt að birta opinberlega upplýsingar um þau tilvik þar sem viðurlögum eða öðrum stjórnvaldsaðgerðum er beitt.

Í frumvarpi því um verðbréfaviðskipti sem nú er í smíðum í viðskiptaráðuneytinu er tekið á gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins og heimildir þess rýmkaðar.

Þá spyr hv. þm. um hvort rétt sé að Fjármálaeftirlitið fái heimildir til að beita sektum fyrir innherjasvik. Ástæða er til að geta þess að Fjármálaeftirlitið hefur fengið heimildir til að beita stjórnvaldssektum við brotum er varða tilkynningarskyldu fruminnherja, birtingu upplýsinga um viðskipti fruminnherja og innherjaskrá svo dæmi séu tekin. Hins vegar hefur eftirlitið ekki heimild til að beita stjórnvaldssektum sem viðurlög við innherjasvikum.

Það þarf að íhuga það mjög vandlega hvort rétt sé að Fjármálaeftirlitið fái slíkar heimildir. Það er meginregla í íslenskum rétti að dómstólar annist ákvörðun refsinga, jafnt fésekta sem refsivistar með dómi, að undangenginni opinberri rannsókn. Þrátt fyrir þetta hafa verið lögfest ýmis ákvæði í íslenskum lögum er varða eftirlit með einstaklingum og lögaðilum sem veita stjórnvöldum heimildir til álagningar stjórnvaldssekta. Þetta er í samræmi við þróunina í viðskiptalöggjöfinni í Evrópu en þar er tilhneigingin í þá átt að auka vægi stjórnvaldssekta, m.a. vegna varnaðaráhrifa þeirra í eftirliti með markaði.

Ég er þeirrar skoðunar að æskilegt sé að stefna að því að Fjármálaeftirlitið fái heimildir til stjórnvaldssekta en áður en til þess kemur þurfi að fara mjög vandlega yfir viðurlög við efnahagsbrotum.