131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[15:03]

Kristrún Heimisdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er afar brýnt verkefni að breyta stjórnarskrá Íslands. Það hefur raunar legið fyrir allt frá því að Kristján IX. afhenti þjóðinni stjórnarskrána fyrir margt löngu. Það er ekki bara vegna þess að það sé mikilvægt menningarinnar vegna, vegna þess að við þurfum að búa í siðaðra samfélagi eða vegna þess að það sé fallegra þegar við komum til alþjóðlegs samstarfs á einhverju sviði að geta bent á að við séum lýðræðisríki, heldur er það raunverulega brýnt verkefni fyrir atvinnulíf, þjóðlíf, menningarlíf og frjálsa hugsun í landinu.

Það er þess vegna mikið fagnaðarefni að þetta þingmál skuli komið fram, þessi tillaga sem lögð er fram af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar. Þau málefni sem hér eru lögð fram eru á margan hátt mjög mikilvæg og sum hver meira að segja ný, nýbreytni í þeirri löngu lýðræðisumræðu og umræðu um stjórnarskrá sem staðið hefur á Íslandi í áratugi.

Reyndin er sú að utan stjórnmálaflokka, utan hinnar reglulegu umræðu stjórnmálamanna, hefur farið fram mjög virk og öflug umræða um lýðræðismál og stjórnarskrána í áratugi, sem stjórnmálaflokkum og hinu háa Alþingi hefur því miður ekki alltaf tekist að taka nægjanlegt mark á.

Ég vil sérstaklega nefna, sem nýjar og merkilegar tillögur í þingsályktunartillögunni sem hér liggur fyrir, tillöguna um að mannréttindaákvæði alþjóðlegra samninga hljóti samstundis gildi í íslenskum rétti, þ.e. að menn hverfi frá þeirri kenningu, sem raunar er í framkvæmd orðin löngu úrelt en er þó beitt í orði kveðnu og því fólki sem er ætlað að fylgja þessu eftir í opinberum störfum eins og lögfræðingum og stjórnmálafræðingum er kennt, að á Íslandi ríki enn þá tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar. Í raun er þessi kenning ekki meira en orðin tóm og á stanslausu undanhaldi. Þess vegna væri til réttarbóta fyrir almenning, einstaklingana, hvort sem það er blind stúlka í Háskóla Íslands eða einstakir öryrkjar sem fá öfluga lögmenn til að fara með mál sitt fyrir Hæstarétt, að fá slíka úrbót sem stjórnarskrárbreyting af þessu tagi mundi fela í sér, þ.e. að ákvæði alþjóðlegra mannréttindasáttmála teldust samstundis hluti af íslenskum landsrétti.

Það væri sömuleiðis gríðarlegt framfaramál ef óskorað yrði kveðið upp úr um að bráðabirgðalög séu aldrei annað en algjört neyðarúrræði. Að sjálfsögðu hefur orðið mjög mikil þróun í þeim efnum í rétta átt. Mat á því hefur meira að segja komið til kasta Hæstaréttar og í sératkvæði hefur verið bent á að bráðabirgðalögum megi raunar ekki beita eins og gert hefur verið, samkvæmt núgildandi ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þarna gæti verið brýnt að bæta úr enda þekkja allir að notkun bráðabirgðalaga á Íslandi hefur verið allt of mikil í gegnum tíðina og mun meiri en í nágrannalöndum okkar.

Ég nefndi áðan að breytingar á stjórnarskránni væru ekki bara menningarlegt mál heldur vörðuðu einnig beina, grjótharða hagsmuni fólks frá degi til dags. Þar skiptir ekki sístu máli ákvæði sem bent er á að þurfi að koma inn í stjórnarskrána, þ.e. ákvæði um hvernig standa eigi að framsali valds til alþjóðlegra stofnana. Vegna þess sem áður hefur komið fram í umræðunni er sjálfsagt að tiltaka að þetta mál varðar ekki einungis þá stöðu sem upp kæmi ef svo kynni að fara að Íslendingar tækju ákvörðun um að ganga í Evrópusambandið. Segja má að vegna þess hve illa var staðið að því þegar við gengum inn í Evrópska efnahagssvæðið megi halda því fram fullum fetum að á Íslandi sé nú uppi óþolandi réttaróvissa fyrir einstök fyrirtæki, fyrir Íslendinga sem einhverra hluta vegna hafa hug á að leggja út í atvinnurekstur á hinu Evrópska efnahagssvæði, á innri markaði Evrópu. Þeir eru undirseldir reglum sem iðulega eru óljósar og óljóst hvaða verkan hafa á Íslandi vegna þess að samspil íslenskra yfirvalda við hin evrópsku yfirvöld eru svo óljós.

Þetta er almennt viðurkennt. Hin óljósa réttarstaða réttarheimilda frá hinu Evrópska efnahagssvæði er viðurkennd í íslensku samfélagi, er rædd úti í samfélaginu, en hefur mér vitandi ekki verið rædd fyrr á hinu háa Alþingi. Sú umræða hefur a.m.k. ekki borist víða.

Að svo mæltu vil ég taka sérstaklega undir orð hv. 2. þm. Norðvest. Ég taldi ræðu hans áðan sérlega merkilega vegna þess að það er viðbúið að á Íslandi muni almenningur taka þá ákvörðun að setja fram kröfugerðir gagnvart hinu háa Alþingi, gagnvart ríkisstjórn, stjórnmálaflokkum eða öðrum valdhöfum sem því miður virðast stundum háðir þeim viðhorfsbresti, vil ég nefna, að líta svo á að breytingar á stjórnarskránni séu samningsatriði eða samkomulagsatriði milli stjórnmálamanna. Ég vil með öðrum orðum halda því fram að það liggi nærri því að vera eins konar misbeiting valds þegar menn ganga að því sem vísu að breyting á efnisatriðum stjórnarskrár sé samkomulagsatriði milli þingflokka, stjórnmálaflokka eða þeirra sem eiga sæti á Alþingi. Hversu valdamiklir sem þeir kunna að vera og hversu skýrt umboð sem þeir kunna að hafa til að gegna tilteknum embættum, hvort sem það er á Alþingi eða í ríkisstjórn, þá er stjórnarskrárgjafinn, samkvæmt íslenskri stjórnskipunarhefð, almenningur í landinu, þ.e. kosningarbærir menn í landinu. Þeir eiga að fara með þetta vald. Jafnvel þótt íslensk stjórnskipun sé svo óvenjuleg að gert sé ráð fyrir að aðferðin til að breyta stjórnarskránni sé sú að þjóðþing sem málið er borið undir sé kosið tvisvar sinnum en ekki bara einu sinni þá ber stjórnmálamönnunum og þingmönnunum ávallt að ganga út frá því sem vísu að hin eiginlegi stjórnarskrárgjafi sé þjóðin.

Það er síðan úrlausnarefni, eins og þingmenn hafa komið inn á, nákvæmlega hvernig vísa eigi málum til þjóðarinnar. Hv. 2. þm. Reykv. s. hefur þó komið fram með athyglisverða tillögu um þjóðfund. Íslendingar þekkja þjóðfund úr sögu sinni, við eigum sögulegt dæmi um slíkt.

Þetta verkefni er samt sem áður ekki jafnerfitt og menn kunna að halda. Nágrannaþjóðir okkar, t.d. Finnar, eru nýbúnar að gera þetta, að breyta stjórnarskrá sinni með geysilega góðum árangri. Það væri létt verk, fyrir þá sem raunverulega vildu ganga í það verk að breyta stjórnarskránni að nútímahætti, að taka upp þær aðferðir sem notaðar hafa verið í nágrannalöndum okkar með góðum árangri.