131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Starfsmenn Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

199. mál
[13:39]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Frú forseti. Þær upplýsingar sem hæstv. utanríkisráðherra hefur tilkynnt þingheimi undirstrika þann veruleika sem mörg okkar hafa haft grun um, að samdráttur í starfsemi varnarliðsins væri að gerast hægt og hljótt, nánast að næturþeli, án þess að íslensk yfirvöld hefðu um það neitt að segja eða afskaplega lítið.

Ég vil eingöngu undirstrika mikilvægi þess í þessari stuttu athugasemd að aðilar að varnarsamningnum, Íslendingar og Bandaríkjamenn, geti með sameiginlegum hætti og frjálsum samningum gert út um það með hvaða hætti umfangið verði í Keflavík, ekki að það verði einhliða ákvörðun af hálfu Bandaríkjastjórnar sem ráði þar för. Þess vegna legg ég þunga áherslu á að menn ljúki samningum um framtíðarfyrirkomulag varna Bandaríkjamanna á Íslandi þannig að allir aðilar geti verið sáttir við sitt.