131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Skattgreiðslur Alcan á Íslandi.

258. mál
[14:04]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau voru skýr svo langt sem þau náðu. Hann sagði efnislega að þessu fyrirtæki eins og öðrum sem nytu einhverra sérsamninga vegna þess hversu gamlir þeir væru stæði til boða að ganga inn í óbreytt íslenskt skattkerfi. Hann sagði jafnframt að þetta tiltekna fyrirtæki væri eftir því sem hann vissi best að sækja einhvern aukaafslátt af almennum skattareglum í því sambandi. Nú kann ég ekki skil á því og væntanlega getur ráðherrann útskýrt það betur.

Ég spurði hins vegar hvað það þýddi fyrir tekjur ríkissjóðs ef svo færi að þetta fyrirtæki gengi inn í hið almenna íslenska skattkerfi sem ég hygg að við séum flest sammála um að eigi að gerast með þessi fyrirtæki eins og önnur. Ég rakti það hér áðan og vil í því samhengi taka það sérstaklega út úr að Hafnarfjarðarbær hefur séð af umtalsverðum tekjum í áranna rás, allt frá 1966, vegna þess að fyrirtækið hefur notið sérsamninga við íslenska ríkið um hið svokallaða framleiðslugjald. Ef Hafnarfjarðarbær hefði getað skattlagt þetta fyrirtæki eins og önnur í bæjarfélaginu mundu skatttekjur á ári hverju hækka um helming. Ég hafna þeim yfirlýsingum ráðherra hér að Hafnarfjarðarbær hafi notið einhvers umfram önnur sveitarfélög í þessum efnum. Það er bara þannig að sveitarfélög hringinn í kringum landið hýsa smá og stór fyrirtæki og eiga samkvæmt almennum skattareglum að taka af þeim fasteignaskatta og lóðaleigu, eins og venja er til. Það er alveg óþarfi að leggja lykkju á leið sína og sjá einhverjum ofsjónum í því sambandi.

Grunur minn er sá, og það er kannski meginatriði fyrirspurnar minnar, að ríkissjóður sé kannski hikandi við að færa þetta til hinna almennu reglna vegna þess að það þýði í raun að tekjur sveitarfélagsins hækki en tekjur ríkissjóðs lækki. Þekkja menn það orðfæri enda er það ekki alveg nýtt í þessum sal. Það er með öðrum orðum verið að snuða sveitarfélögin og ríkissjóður heldur sínu óbreyttu.