131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Stuðningur við einstæða foreldra í námi.

268. mál
[17:11]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð til að lýsa yfir stuðningi við það mál sem við ræðum hér, tillögu til þingsályktunar um stuðning við einstæða foreldra í námi.

Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir, sem lýsti hér afar vel í inngangsræðu sinni því sem liggur á bak við þetta mál, tók að sjálfsögðu virkan þátt í kosningabaráttu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir síðustu kosningar en þá var mál af þessu tagi einmitt á oddinum. Þar töldum við nauðsynlegt að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefði heimildir til að víkka út lánaheimildir sínar með það fyrir augum að einstæðir foreldrar sem hefðu flosnað upp frá framhaldsskólanámi vegna barneigna og vegna þess að fólk hefði stofnað fjölskyldur, ættu þess kost að snúa aftur inn í framhaldsskólana og fá námslán. Þannig væri möguleiki fyrir þessa foreldra að halda áfram námi, það þyrfti ekki að stoppa þá í náminu að þau hefði stofnað fjölskyldu eða að barn hefði komið til sögunnar.

Nú vitum við það af reynslu frá nýliðnu hausti að fjöldatakmarkanir í framhaldsskólana hafa verið að gera okkur óleik og þegar ljóst var að fjárheimildir skólanna yrðu rýmkaðar að einhverju leyti, þá virtust nemar á aldursbilinu 16–20 ára eiga þar ákveðinn forgang. Umsækjendur um framhaldsskólavist sem voru orðnir eldri áttu því ekki möguleika á að komast inn vegna fjöldatakmarkana. Það er auðvitað grafalvarlegt mál ef þessu fólki eru ekki opnaðar dyrnar eða gert auðvelt fyrir að koma aftur til framhaldsskólanáms, sýni það áhuga og vilja til þess.

Hæstv. forseti. Ég vil því leggja áherslu á að við beitum öllum ráðum sem við höfum til að opna framhaldsskólana fyrir einstæðum foreldrum og sjá til þess að þeim verði gert eins auðvelt og hugsast getur að hefja nám að nýju. Í því sambandi langar mig að nefna frumvarp til laga frá ríkisstjórninni um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sem dreift var í Alþingi í gær eða í dag, á þskj. 368. Það verður auðvitað að sjá til þess að það frumvarp taki þeim breytingum sem eru nauðsynlegar til að þessum hópi sé sinnt samkvæmt þessum lögum. Lánasjóður íslenskra námsmanna verður því að fá það tæki sem hann þarf til þess að styrkja þetta fólk til náms.

Þetta var allt og sumt sem mig langaði til að segja, að öðru leyti lýsi ég fullum stuðningi við orð hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur og sömuleiðis við orð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, sem hélt hér ágæta ræðu á undan mér. Ég styð hugsjón þessa máls heils hugar.