131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Æfingaaksturssvæði.

257. mál
[18:01]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja svohljóðandi fyrirspurn til samgönguráðherra, með leyfi forseta:

„Hvað líður áformum um gerð æfingaaksturssvæðis á suðvesturhorni landsins?“

Þessi fyrirspurn lætur afskaplega lítið yfir sér en er engu að síður að minni hyggju afar mikilvæg. Það er kunnara en frá þurfi að segja að áform eru um gerð æfingaaksturssvæðis sem hefði það hlutverk fyrst og síðast að vera til aðstoðar ungum ökumönnum sem eru að undirbúa sig undir bílpróf og síðan hugsanlega eitthvað í kjölfarið á fyrstu árum eftir að bílpróf er tekið. Ég minnist þess að sennilega eru meira en 20 ár síðan uppi voru áform um gerð svæðis af þessum toga og þá sem nú hafa ökukennarar verið í forustu fyrir þeim hugmyndum.

Ég minnist þess einnig að einhvern tíma rétt fyrir 1990 eða þar um bil, þegar sá sem hér stendur var bæjarstjóri í Hafnarfirði og raunar hæstv. samgönguráðherra þá bæjarstjóri í Stykkishólmi, voru þessi áform komin vel á veg í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar rétt við rallíkrossbraut sem þar var sett upp og er enn til staðar og hugmyndir voru uppi um að samkeyra rallíkrossbrautina og hugsanlegt æfingaaksturssvæði, gera þetta með öðrum orðum praktískara og ódýrara.

Að þessu sögðu og eftir að hafa farið yfir þessa stuttu upprifjun vil ég segja að mér er kunnugt um að þegar hefur verið úthlutað svæði til Ökukennarafélagsins í Reykjavík, raunar á Gufunessvæðinu. Ekki hefur staðið á vilja borgarinnar til að útvega svæði til þess arna. En einhverra hluta vegna hefur vantað að framkvæmdin nái framkvæmdastigi, þ.e. að merkin sýni verkin. Það liggur ljóst fyrir að enda þótt hugsanlega geti nokkrir aðilar komið að málinu hvað fjármögnun varðar, svo sem sveitarfélög og tryggingafélög sem eiga mikilla hagsmuna að gæta í þessu sambandi og hugsanlega fleiri, þá er ríkið auðvitað hrygglengjan í málinu. Því vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra sem ber ábyrgð á þessum málaflokki: Hvenær er þess að vænta að við fáum að heyra meira en göfug áform um æfingaaksturssvæði af þessum toga? Hvenær verða verkin látin tala?