131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Notkun risabora við jarðgangagerð.

292. mál
[18:15]

Fyrirspyrjandi (Hilmar Gunnlaugsson) (S):

Virðulegi forseti. Samgöngumál eru mér líkt og mörgum öðrum þingmönnum einkar hugleikin. Því miður hafa samgöngumál oftar en ekki orðið bitbein innan kjördæma, milli kjördæma og landshluta eða togstreitu milli hinna dreifðu byggða og þéttbýlis hvar á landinu sem er. Það er slæmt ekki síst vegna þess að togstreitan veldur því óþarflega oft að ekkert verður af framkvæmdum eða þær dragist vegna ágreinings.

Vissulega hafa orðið stórkostlegar framfarir í samgöngumálum okkar Íslendinga á síðustu árum og ber að þakka fyrir það. Trúlega hafa þær framfarir og framsýnu ákvarðanir, sem oftar en ekki hafa verið teknar hér á þessum vettvangi, gert það að verkum að sífellt fleiri skilja nauðsyn góðra samgangna fyrir alla þætti þjóðlífsins. Góðar samgöngur eru forsenda, alger lykilforsenda skynsamlegrar og hagkvæmrar nýtingar þeirra gæða sem okkar góða land býður upp á.

Á síðustu missirum hafa jarðgangamál orðið fyrirferðarmikil í umræðunni og hafa framkvæmdir í þeim efnum komist aftur á dagskrá eftir nokkurt hlé. Mestu jarðgangaframkvæmdir Íslandssögunnar eiga sér nú stað á hálendinu í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Þar er að mestu stuðst við aðra aðferð en notuð hefur verið við gerð jarðganga hér á landi fyrir bílaumferð, þ.e. með notkun risabora.

Skiljanlega hafa áhugamenn um jarðgangagerð velt fyrir sér þeirri spurningu hvort unnt sé annaðhvort að koma meiru í verk og framkvæma með ódýrari hætti eða að slá tvær flugur í einu höggi með nýtingu þessara risabora við jarðgangagerð fyrir bílaumferð, þ.e. að koma bæði meiru í verk og gera það á ódýrari hátt en ella. Því leyfi ég mér, herra forseti, að beina svofelldri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra:

1. Er notkun risabora, eins og þeirra sem notaðir eru við gerð aðveituganga í tengslum við Kárahnjúkavirkjun, möguleg við gerð jarðganga fyrir bílaumferð?

2. Hver má ætla að kostnaður sé við slíka jarðgangagerð á hvern kílómetra?

3. Hver er áætlaður meðaltalskostnaður á hvern kílómetra jarðganga fyrir bílaumferð sem unnið er að núna og eru fyrirhuguð?

4. Liggja fyrir upplýsingar um hvor aðferðin er fljótlegri og ef svo er, hversu tímafrek hvor aðferðin um sig er?