131. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2004.

Tilefni þingfundar.

[14:09]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lét að því liggja að nauðsynlegt væri að útbýta málinu í dag, á laugardegi, vegna þess að stjórnarandstaðan væri hugsanlega ósamvinnuþýð á þingi. Mér finnst þetta mjög ósanngjörn aðdróttun. Ég man ekki betur en að fyrir nokkrum dögum hefðum við liðkað til fyrir öðru frumvarpi, mjög óvinsælu sem stjórnarandstaðan var fullkomlega á móti. Það var frumvarp um gerðardóm á kennara. Engu að síður varð samkomulag um að það mál fengi hraðferð í gegnum þingið þannig að það er mjög ósanngjarnt af hæstv. fjármálaráðherra að segja að óræddu að ekki sé hægt að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um málsmeðferð og þess vegna verði að dreifa málinu í dag. Ef þetta hefði verið brýnt, ef stjórnarsamstarfið hefði verið að slitna eða þá að hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson hefði verið að fara með þetta inn á miðstjórnarfund Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn réði hér ferð og hann hefði getað fengið tækifæri til að gera grein fyrir því þar, hefði ég skilið asann. Ég skildi kannski það sjónarmið að hæstv. fjármálaráðherra hefði orðið að sýna hæstv. forsætisráðherra hver réði ferðinni í stjórnarsamstarfinu og það yrði að koma fram á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. Eina skýringin sem ég sé á þessari flýtimeðferð sem hér er höfð í frammi er að hæstv. forsætisráðherra hafi verið gert skylt að kynna nýja skattstefnu ríkisstjórnarinnar á miðstjórnarfundinum.

Það að væna stjórnarandstöðuna um að vera ekki reiðubúin að ræða flýtimeðferð á málum ef mikinn alvarleika ber að höndum finnst mér ósanngjarnt. Auk þess sé ég ekki að þetta mál sé svo brýnt að það hefði brotið í blað þó að munað hefði einum degi hvenær það væri tekið til umræðu á þinginu. Hér er bara annars vegar um valdbeitingu að ræða og hins vegar misnotkun á þinginu og forsetastjórn þess.