131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:17]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni. Það er greinilega mikill skilningur á því að leysa þurfi málið. Hæstv. heilbrigðisráðherra vill forðast stofnanavist. Við viljum koma geðsjúkum aftur út í lífið og gera þá virka þjóðfélagsþegna að nýju.

Hvers vegna er þá málið látið bíða svona? Fólk er áhyggjufullt og óöryggi ríkir á heimilum geðfatlaðra, meðal aðstandenda og meðal kennara hjá Fjölmennt sem sinna mjög dýrmætu og mikilvægu starfi, bæði Geðhjálp og Fjölmennt. Við eigum ekki að þurfa að horfa upp á biðlista fyrir þennan hóp. Öryrkjum er að fjölga og menn kvarta yfir því. Hvers vegna taka menn ekki höndum saman? Ég heyri að hæstv. menntamálaráðherra er tilbúin og hæstv. heilbrigðisráðherra talar einnig í þá veru. Hvernig væri nú að drífa þetta af fyrir jólin þannig að fólk þurfi ekki að búa við þessa óvissu og tryggja fjármunina — þetta eru lágar fjárhæðir sem við erum að tala um — þannig að hægt sé að sinna því mikilvæga starfi sem þarna er á ferðinni og tryggja að allir komist að. Það voru ekki nema tveir þriðju sem komust að í haust þegar 6 millj. kr. komu. Við þurfum viðbótarfjármagn þannig að hópurinn geti hafið starfsmenntun sína og endurhæfingu þannig að hann komist aftur út í lífið.

Ég skora á hæstv. félagsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra að taka höndum saman við aðra ráðherra — ég sé að forsætisráðherra situr hér í hliðarherbergi sem veit af málinu líka — að þeir taki sig saman á næsta ríkisstjórnarfundi og tryggi að námið hefjist á tilsettum tíma í janúar og að allir sem óska eftir því geti fengið þessa þjónustu sem mikil þörf er fyrir í samfélaginu í dag.