131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:41]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram sem snýst um samgöngur við Vestmannaeyjar, kannski fyrst og fremst um samgöngur í núinu, þ.e. samgöngur á sjó. Einnig ber að þakka fyrir að nýverið tókst að fjölga ferðum um 26 á ári þrátt fyrir að sá böggull fylgi skammrifi að um lítils háttar hækkun á fargjöldum verður að ræða.

Í nútímasamfélagi gerir samfélag eins og Vestmannaeyjar með vel á fimmta þúsund íbúa kröfur um að geta komið og farið þegar mönnum sýnist. Herjólfur er vissulega þjóðvegur Vestmannaeyja. Eins og staðan er núna er óásættanlegt að þetta skip skuli aðeins vera nýtt 7–12 tíma á sólarhring, þ.e. þessi þjóðvegur er þá lokaður bróðurpartinn úr hverjum sólarhring. Krafan er mjög skýr. Hún er að lágmarki tvær ferðir á dag, og jafnvel þrjár þegar það á við.

Menn mundu sjálfsagt gera athugasemdir við það ef einhverjir vegir hér á landi yrðu lokaðir bróðurpartinn úr sólarhringnum. Það er það sem fólk horfir til hvað varðar nútíðina, þ.e. að efla og bæta þessa flutninga. Það er lykilatriðið. Svo er, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan, líka verið að horfa til framtíðar. Verið er að skoða nokkra valkosti, m.a. er verið að rannsaka Bakkafjöru. Eins hefur verið ákveðið að leggja fjármagn í að skoða þann möguleika hvort jarðgöng séu möguleg. Þetta eru hlutir sem verið er að skoða og vonast er til að á haustdögum 2005 verði hægt að taka ákvarðanir um framtíðarlausn í samgöngumálum við Vestmannaeyjar.