131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:44]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað löngu viðurkennt að Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti og það er jafnljóst að það er hlutverk hins opinbera að tryggja þangað samgöngur, góðar og greiðar og á sanngjörnum kjörum eftir því sem tæknilega er viðráðanlegt og innan rýmilegra kostnaðarmarka. Með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis, byggir hafnir og flugvelli hljóta menn að leysa þau samgöngumál sem snúa að Vestmannaeyjum og öðrum byggðum eyjum við landið.

Ég hef lagt það til undanfarin ár, 2–4 ár, að farið yrði skipulega og samræmt yfir þá kosti sem til greina koma í framtíðarsamgöngum við Eyjar. Það er auðvitað alveg ljóst að á meðan slík vinna er unnin, og að einhverju leyti virðist hún vera í gangi, þurfa menn að nýta núverandi tæki og kosti þeirra. Ég skil ekkert í því að ekki sé fyrir löngu komin á áætlun fyrir Herjólf þar sem skipið gengur tvisvar á dag alla daga vikunnar. Það er nákvæmlega það sama og við þekkjum úr áætlunarfluginu, fyrr kemst ekki gott lag á þessa hluti. Það er þannig sem menn vilja hafa þetta, að geta farið og komið samdægurs. Vegurinn þarf að vera opinn bæði að heiman og heim og það gerist auðvitað ekki nema með þessu, með sama hætti og þar sem t.d. áætlunarflugi er haldið úti, að berjast fyrir því að fá tvær ferðir á dag að lágmarki.

Herjólfur er gott skip og 12 ára farsæll rekstur þess hefur auðvitað afsannað og hrakið allar kenningar um annað sem uppi voru í byrjun. Það kemur auðvitað að því að hann þarf að endurnýja. Það má kalla gott ef líftími tækis af þessu tagi er 15 ár. Þess vegna er meira en tímabært að fara að huga að því og á meðan á auðvitað nota skipið. Það er svo einfalt í mínum huga. Þetta eru ekki kostnaðartölur sem við eigum að hrökkva undan þótt við bætist einhverjir tugir milljóna ári, þó að þær væru 50, til þess að geta nýtt skipið eins og það býður upp á.