131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Upplýsingar um Íraksstríðið.

[13:40]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Frú forseti. Það er ekki undarlegt að stjórnarliðar með hæstv. forsætisráðherra í broddi fylkingar kveinki sér undan þessari umræðu. Og það er undarlegt að heyra það úr þessum ræðustól að ekkert hafi þar gerst á umliðnum tæpum tveimur árum frá því að innrásin hófst sem gefi tilefni til þess að slík umræða sé tekin aftur og aftur. Ég vek athygli á því að við erum á öðrum degi þingsins eftir jólahlé og þessu verður haldið áfram þar til öll kurl koma til grafar.

Það liggur algerlega ljóst fyrir að enn vantar stór gögn til að heildarmyndin fáist. Ég vek athygli á því að í Morgunblaðinu í dag greinir sérstakur lögfræðilegur ráðunautur ríkisstjórnarinnar, Eiríkur Tómasson prófessor, frá því að hann hafi haft gögn úr forsætisráðuneytinu sér til atfylgis þegar hann setti saman þessa greinargerð. Ég vil fá þessi gögn. Við viljum fá þau gögn og önnur. Það er ekki flóknara en það. Og ég vek líka athygli á því að enn þá hefur þessi lögfræðilega álitsgerð prófessorsins ekki komið í hólf þingmanna. Ekki hef ég séð hana. Ég hef lesið um hana í blöðum, þannig að það er allt eftir efninu. Skylt er skeggið hökunni.

Ég vil líka láta þess getið, frú forseti, að ég átti samtal við formann utanríkismálanefndar sem er erlendis í opinberum erindagerðum, raunar með varaformanni sömu nefndar, og fór þess á leit af því að hæstv. forsætisráðherra krafðist þess í gær að utanríkismálanefnd kæmi saman. Það stendur ekki á okkur í því. Við getum gert það seinna í dag og þar erum við tilbúnir að reyna enn og aftur að fá stjórnarliða þess til að aflétta leynd í málinu. Það er nefnilega það undarlega í þessu öllu saman hvers vegna þessi tregða er við að leggja spilin á borðið fyrst þetta liggur allt saman svona ljóst fyrir. Sú spurning mun vaka í umræðunni meðan reynt er að sveipa hulu leyndardómsins yfir þetta mál. Það er ekki flóknara en það. Þessu máli lýkur ekki fyrr en allt er komið fram.