131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:21]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum þann möguleika að síðasta árið í leikskóla sé gjaldfrjálst. Ég er í grundvallaratriðum á móti því en það er af ýmsum ástæðum.

Í fyrsta lagi held ég að eitthvað sem er ókeypis verði aldrei metið eða til þess gerð krafa. Ég er með barn í grunnskóla og tel mig ekki geta gert kröfu til grunnskólans vegna þess að ég greiði ekki fyrir þjónustuna. Vegna þess að ég greiði ekki get ég ekki sagt að grunnskólinn eigi að gera þetta og hitt sem ég mundi gera ef ég greiddi eitthvað til hans.

Ég kvaddi mér hljóðs aðallega vegna þess að mér finnst að við höfum brugðist yngstu borgurum þessa lands. Við erum með fæðingarorlof sem tekur á fyrstu níu mánuðum af æviskeiði barns. Hvað svo? Hvað gerist þegar hann er níu mánaða, litli borgarinn, og foreldrarnir þurfa aftur til vinnu? Þá fer hann nefnilega að heiman í flestum tilfellum. Hann fer að heiman, oft til dagmömmu eða í leikskóla, og hvað á níu mánaða barn að gera að heiman? Þetta held ég að menn hafi ekki hugsað alveg til enda, herra forseti. Ég tel að flest börn hafi ekkert að gera að heiman fyrr en þau eru orðin þriggja ára. Það er reynsla mín af barnauppeldi og ég hef alið upp sex börn. Þau hafa ekkert að gera að heiman, þau eiga að vera heima hjá sér. Það er svo aftur annar vandi hver eigi að sjá um þau heima hjá sér.

Í samblandi fæðingarorlofs, foreldraorlofs og kostnaðar sveitarfélaganna við gæslu barnanna — það er gæsla þegar barnið er níu mánaða, ekki menntun. Kostnaður sveitarfélaganna er orðinn gífurlega mikill. Ég þekki ekki nýjustu tölurnar, einhvern tíma var heildarkostnaðurinn 60 þús. kall á barn. Ég hygg að hann nálgist 100 þús. kr. núna. Ef maður tæki 100 þús. krónurnar sem það kostar að hafa barnið á leikskóla og léti foreldrana fá þá peninga, skattfrjálst að sjálfsögðu því að þeir eru skattfrjálsir í dag, hugsa ég að afstaðan mundi breytast mikið. Sumir segðu að konurnar færu heim. Það er vissulega hætta á því vegna þess hvað atvinnulífið er lítið sveigjanlegt.

Þá vil ég koma inn á það sem hér hefur verið nefnt í umræðunni að atvinnulífið þarf að taka miklu meira tillit til þess að fólk á börn. Einhver verður að sjá um börnin fyrstu þrjú árin. Þetta á atvinnulífið að gera með því að gera störfin sveigjanleg, miklu sveigjanlegri en þau eru í dag þannig að annað foreldranna geti unnið fyrir hádegi og hitt eftir hádegi sem er mjög skemmtilegt, að vera hálfan daginn með barn og hálfan daginn í vinnu, og geti jafnvel unnið eitthvað heima við með tölvum og öðru slíku. Þetta er allt hægt ef vilji er fyrir hendi. Þetta finnst mér vera brýnna verkefni en það hvort síðasta árið í leikskóla eigi að vera ókeypis eða ekki.

Eitt aðalatriðið sem við þurfum að gera núna, þ.e. atvinnulífið, er að koma upp sveigjanlegri vinnutilhögun fyrir foreldra. Við erum með möguleika til þess í fæðingarorlofinu að dreifa því, við erum með möguleika í foreldraorlofinu að taka ólaunað frí og ef sveitarfélögin kæmu með þennan 100 þús. kall á mánuði værum við búin að brúa bilið. Fjárhagslega gæti fjölskyldan staðið eins að vígi þannig að foreldrarnir séu til skiptis fyrir hádegi eða eftir hádegi eða annan hvern dag eða hvernig sem það verður gert heima hjá börnunum og sveitarfélagið komi inn í með greiðslur til foreldranna.

Það er svo aftur önnur saga hvað gerist eftir þriggja ára aldurinn. Ég tel mjög hollt og gott fyrir börn að fara á leikskóla eftir þann tíma enda er það sá tími sem fólk á þessum aldri sýnir vilja til að fara að heiman. Um þriggja ára aldurinn vilja þau fara í heimsóknir og vilja fara út í heim. Ég held að það sé allt í lagi að skoða það að einhverjir tímar á dag væru ókeypis sem hvert sveitarfélag fyrir sig gæti að sjálfsögðu tekið ákvörðun um. Það þarf ekki alltaf að koma betlandi til ríkisins. Ég held að þetta sé orðið mjög brýnt. Mér finnst ekki forsvaranlegt að horfa á eins árs barn dröslast klukkan átta á morgnana í strætó eða hvernig það nú ferðast á leið út í heim að vinna. Þar höfum við einhvern veginn brugðist og ég vara við þeirri oftrú að hið opinbera sjái um allt og alla og taki á sig gæslu barnanna. Ég held nefnilega að heima sé best og ég treysti foreldrunum best allra til að sjá um börnin sín að meðaltali.

Hér hefur verið rætt pínulítið um leikskólann og kannski grunnskólann og hvernig atvinnulífið og skólinn vinna ekki saman. Ég hef t.d. aldrei skilið starfsdaga og foreldraviðtöl, ég hef bara ekki skilið það hvernig fyrirtæki leyfir sér að koma í bakið á kúnnunum eins og skólinn gerir með starfsdögum. Hvernig dettur þeim í hug að loka fyrirtækinu? Eða foreldraviðtölum, af hverju er þeim ekki dreift yfir allan mánuðinn, allt árið? Af hverju þarf að loka? Ekki veit ég til þess að Flugleiðir hafi lokað einu sinni í mánuði vegna starfsdaga. Þeim dytti það ekki í hug. Það dytti engum í hug nema opinberum fyrirtækjum að loka vegna starfsdaga en þetta leyfa bæði grunnskólar og leikskólar sér til gífurlegs óhagræðis fyrir atvinnulífið, fyrir foreldrana og fyrir alla allt í kring. Ég held að það sé mjög margt sem þarf að skoða.

Um daginn var foreldradagur í grunnskólanum þar sem barnið mitt er og ég spurði kennarann: Hvað heldur þú að unglingarnir séu að gera núna, á þessum degi? Að sjálfsögðu ekki neitt. Þeir eru allir heima hjá sér einir að þvælast því að foreldrarnir eru að vinna einhvers staðar og þeir gera bara ekki neitt. Er þetta það sem við viljum? Nei. Ekki vil ég hafa þetta svona og ég held að við þurfum að fara að skoða þessa stefnu alla saman og alveg sérstaklega finnst mér að við þurfum að skoða aldursbilið frá níu mánaða til þriggja ára. Við berum ábyrgð á börnunum þar.