131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[19:00]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get í öllum meginatriðum tekið undir ágæta ræðu hv. þm. Helga Hjörvars. Hann lagði í ræðu sinni áherslu á að þeir sem mest þyrftu á leikskólanum að halda, börn innflytjenda og jafnvel þeirra sem ekki væru á vinnumarkaði, færu ekki á mis við þetta skólastig, nytu þess stuðnings sem leikskólinn veitir. Ég get tekið undir það allt saman. Á hinn bóginn er kannski ekki nauðsynlegt að gera leikskólann að skólaskyldu eða gjaldfrjálsan til þess að tryggja þetta. Það má sennilega gera það líka í gegnum félagslega kerfið.

En varðandi tilvísun hv. þingmanns í ræðu mína um að við ætluðum að færa grunnskólann niður í síðasta ár leikskólans þá erum við komin út í heilmikla umræðu um hvernig við ætlum að stokka upp skólakerfið með lengingu náms til stúdentsprófs og hvert við ætlum að færa hvað. Fyrir mér er ekkert heilagt í þessu. Fagmenn innan menntamálaráðuneytisins og víðar hafa velt þessu fyrir sér árum saman og hafa ýmsar skoðanir og skiptar um hvernig við eigum að gera þetta.

Mig langar að endingu, herra forseti, að taka undir það sem hv. þingmaður sagði um gildi leiksins. Ég held að íslenski leikskólinn eins og hann er hugsaður með sínum námskrám og öðru sé sérstakt fyrirbæri á heimsvísu. Ég veit alla vega að í nágrannalöndunum eru menn ekki að tala mikið um leikskóla og þá hugsun sem er þar á bak við. Þar eru þetta meira gæsluúrræði sem menn hafa byggt upp og heyra undir félagsmálakerfi. Ég ætla síst að gera lítið úr leiknum og gildi hans.