131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Húðflúrsmeðferð eftir brjóstakrabbamein.

290. mál
[13:21]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra sem er samhljóða fyrirspurn sem ég lagði fyrir hann fyrir þremur árum, um hvað liði ákvörðun um greiðsluþátttöku heilbrigðiskerfisins í húðflúrsmeðferð í kjölfar aðgerða vegna brjóstakrabbameins.

Frá því að ég spurðist fyrir um þetta hefur lítil breyting orðið á þó að ráðherrann hafi tekið mjög vel í fyrirspurnina og sýnt henni mikinn skilning og sagt að koma þyrfti til móts við þær konur sem vilja frekar húðflúrsmeðferð í stað erfiðrar ígræðslumeðferðar hjá lýtalæknum til að byggja upp geirvörtur eftir brjóstnám og uppbyggingu nýs brjósts.

Eins og við þekkjum, og kom reyndar fram í máli mínu þegar ég talaði fyrir fyrirspurninni síðast, er húðgræðslumeðferðin mjög erfið konum og er kerfinu mun dýrari en húðflúrsmeðferð. Húðflúrsmeðferðin er árangursríkari og farið að taka hana upp í öðrum löndum mun meir en þá leið sem kerfið greiðir fyrir hér. Menn hafa tekið þetta upp bæði hjá lýtalæknum og einnig hafa snyrtifræðingar eða hjúkrunarfræðingar tekið að sér að annast þessa húðflúrsmeðferð, en hér á landi hafa konur sem hafa valið þá leið þurft að fara á stofur hjá húðflúrsmeisturum og þurft að borga fyrir þetta sjálfar sem er náttúrlega ekki boðlegt þar sem þarna er um ákveðna heilbrigðismeðferð að ræða að mínu mati.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður þessu máli? Hann fól samninganefnd að skoða málið gaumgæfilega ofan í kjölinn, eins og hann nefndi í svari sínu á sínum tíma, og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað kom út úr þeirri skoðun? Munu heilbrigðisstéttir taka þetta að sér eða munu húðflúrarar geta sinnt þessu innan heilbrigðiskerfisins og mun frumvarp um græðara t.d. eitthvað auðvelda þetta? Ég vil gjarnan fá svar við því frá hæstv. ráðherra af því að ég veit að margir sem þurfa á slíkri húðflúrsmeðferð að halda vegna læknismeðferðar bíða eftir þessu, ekki einungis vegna uppbyggingar á nýju brjósti heldur einnig af ýmsum öðrum ástæðum eins og t.d. að láta útbúa nýjar augabrúnir þegar fólk missir hárið o.s.frv. Það væri því fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvað þessu máli líður í kerfinu.