131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Þjónusta við innflytjendur.

356. mál
[15:56]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tel hana gagnlega og raunar nauðsynlegt að ræða mál innflytjenda og útlendinga í íslensku samfélagi. Fjöldi innflytjenda hefur meira en tvöfaldast á um tíu árum. 1995 voru þeir 4.800 talsins en í árslok 2003 á ellefta þúsund. Hlutfall erlendra ríkisborgara af mannfjöldanum á Íslandi jókst frá því að vera 1,8% 1995 í 3,5% 2003. Það er því full ástæða til að gera aðlögun þeirra eins hnökralausa og mögulegt er og móta heildarstefnu í samræmi við það. Ég tek undir það með hv. þm. Jónínu Bjartmarz.

Ég vil sömuleiðis nota tækifærið, hæstv. forseti, til þess að vekja athygli á því að á vegum flóttamannaráðs er unnið að könnun á högum og aðstæðum þeirra flóttamanna sem hingað til lands hafa komið frá því að þeir fyrstu komu frá Ungverjalandi árið 1956. Þegar niðurstöður úr þeirri könnun, samhliða upplýsingum úr könnun Fjölmenningarseturs sem ég minntist á fyrr, liggja fyrir höfum við kost á að leggja góðan grunn að stefnumótun stjórnvalda í málefnum innflytjenda.

Ég vil sömuleiðis nota tækifærið og nefna nokkur atriði sem hafa komið fram í könnun Fjölmenningarsetursins. Í hópi erlendra starfsmanna á Vestfjörðum og Austurlandi virðist vera mikið frumkvæði. Um 39% svarenda höfðu áhuga á að hefja eigin rekstur eða stofna fyrirtæki. Um 12% höfðu þegar hafið undirbúning að slíku. Um 69% svarenda áttu börn og vekur athygli að um 42% þeirra áttu barn eða börn sem bjuggu í upprunalandi viðkomandi. Tæplega helmingur vildi búa á sama stað á Íslandi og þeir bjuggu á en af þeim sem vildu búa annars staðar völdu 64% höfuðborgarsvæðið. Aðrir vildu búa annars staðar á landsbyggðinni. Hátt hlutfall taldi menntun ekki nýtast í núverandi starfi og fáir höfðu reynt að fá menntun sína metna hér á landi. Helsta tilgreinda ástæðan var skortur á íslenskukunnáttu og yfir 90% svarenda höfðu áhuga á að læra meiri íslensku.