131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Samþætting jafnréttissjónarmiða í íslensku friðargæslunni.

[13:07]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég hef þegar lesið þessa ágætu skýrslu sem hv. þingmaður nefndi síðast í tali sínu, og get tekið undir með henni. Þetta er vönduð og ágæt skýrsla. Það er hollt og gott fyrir alla að fá úttekt og yfirlit af þessu tagi, enda styrkti ráðuneytið það að til þessarar skýrslu var stofnað.

Hins vegar er nauðsynlegt varðandi skýrslu af þessu tagi og ályktanir sem menn af henni draga að horfa í tilfelli eins og þessu til mjög langs tíma. Sveiflur eru eðlilegar í starfsemi eins og í íslensku friðargæslunni. Starfsemi hennar hefur, eins og menn vita, tekið allmiklum breytingum frá árinu 1994 þegar fyrstu Íslendingarnir tóku þátt í friðargæslu á Balkanskaga undir merkjum Sameinuðu þjóðanna og síðar í samvinnu við Norðmenn og Breta ásamt fleiri þjóðum á vegum ýmissa alþjóðastofnana.

Á viðbragðslista friðargæslunnar eru samtals 224 einstaklingar. Þar af eru 160 karlar, þ.e. 71%, og 64 konur, þ.e. 29%. Á tímabilinu 1994–2004 störfuðu 106 karlar og 44 konur í íslensku friðargæslunni.. Hlutfall kvenna hefur því verið að meðaltali 41,5%. Hins vegar hefur hlutur kvenna í verkefnum friðargæslunnar minnkað eins og hv. þingmaður vék að áðan og vildi að við veittum sérstaka athygli. Við skulum ekki draga fjöður yfir það að hlutur kvenna í verkefnum friðargæslunnar hefur minnkað á undanförnum árum og farið niður í 24% árið 2003 og 14% árið 2004. Þetta eru beinharðar tölur sem við getum ekkert vikið okkur undan að skoða.

Á hinn bóginn eru á þessu skýringar eins og jafnan er. Þetta hefur gerst vegna eðlis þeirra verkefna sem friðargæslan hefur tekið að sér. Hér er átt við rekstur og stjórnun flugvallanna í Pristina í Kosovo og í Kabúl í Afganistan, og nú undir merkjum Atlantshafsbandalagsins. Þetta hafa verið langviðamestu verkefni friðargæslunnar undanfarin tvö ár, og reyndar frá upphafi. Þau hafa fyrst og fremst kallað á starfskrafta flugumferðarstjóra, flugumsjónarmanna, slökkviliðsmanna, tæknimanna af ýmsu tagi, svo og vélvirkja og fleiri.

Fleiri verkefni kröfðust einkum þátttöku lækna hér áður fyrr, hjúkrunarfræðinga o.s.frv. Þau voru, eins og áður sagði, unnin einkum í samvinnu við Norðmenn og Breta og lauk endanlega á árinu 2003. Menn spyrja: Hvers vegna þetta val? Þá er þýðingarmikið að menn átti sig á því að ákvörðun um val er tekin eftir beiðni, þrýsting, óskir um það að Íslendingar taki að sér tiltekin verkefni. Þetta gerðist í báðum þessum tilvikum varðandi flugvellina, og var mjög mikils metið þegar sú ákvörðun var tekin að annast þessi verkefni. Þar með hafði valið átt sér stað. Auðvitað er það ekki tekið gagngert til að draga úr hlut kvenna, það dettur engum í hug.

Ég kom ekki að þessum ákvörðunum á sínum tíma, heldur fyrirrennari minn. Ég tel að þær hafi verið teknar algjörlega efnislega eftir þeim beiðnum sem þar komu fram. Í verkefni á Pristina-flugvelli tóku þátt tvær konur, önnur í flugumferðarstjórn og hin í flugumsjón. Hvað varðar Kabúl-flugvöll var kona valin til starfa í flugumsjón en það varð ekki af því af persónulegum ástæðum að hún gæti hafið störf.

Stefna íslensku friðargæslunnar er eftir sem áður að starfa á breiðum grundvelli, enda tekur hún þátt í verkefnum á borð við rekstur skrifstofu UNIFEM í Pristina, þjálfun lögreglumanna í Bosníu-Hersegóvínu, eftirliti með vopnahléssamningum í Sri Lanka, auk þátttöku í friðargæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins í Kosovo og Afganistan. Starfsemi friðargæslunnar á síðastnefndu stöðunum er þáttur í þeirri stefnu stjórnvalda að taka virkan þátt, eins og við höfum lýst yfir, í friðaraðgerðum Atlantshafsbandalagsins. Verkefnavalið hefur tekið mið af því að framlag gagnist þeim sem þurfandi eru, auk þess að falla að utanríkispólitískum áherslum á hverjum tíma en við það verður auðvitað að miða áfram hér eftir sem hingað til að þessi verkefni taki eins og kostur er, eins og hv. þingmaður lagði áherslu á, tillit til jafnréttissjónarmiða.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 frá október 2000 er um margt athyglisverð. Þetta er reyndar mikill og langur listi í þessari ályktun, nokkuð óvenjuleg ályktun fyrir öryggisráðið, tekur á mjög mörgum brýnum málum og mikilvægum, og ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld fylgi ályktuninni eftir eins og við á.