131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[10:50]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði nú reiknað með því að hæstv. ráðherra sem hefur setið á Alþingi í tvö ár og er hátt á risið, að eigin sögn, hefði þó samvisku til að fara hér satt og rétt með. Auðvitað eru hin varanlegu áhrif af kerfisbreytingum eingöngu þau að ríkið ætlar að fara að borga fasteignaskatta sem verða 600 millj. kr. og að hér á að gera lagabreytingar sem gera sveitarfélögum kleift að innheimta fasteignaskatta af íbúðum sínum í samræmi við eðlilegar leikreglur. Það eru hinar varanlegu breytingar.

Kerfisbreytingar á tekjustofnum sveitarfélaga eru engar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, og ég vona að hann svari af heiðarleika: Telur hann þessar breytingar vera góðan grunn til þess að fara í raunverulega verkefnatilfærslu? Trúir hann því sjálfur og getur hann horft hér framan í okkur og sagt: „Já“? Ég bíð spenntur.