131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:09]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Frú forseti. Við höfum rætt lengi dags svonefnt átak til stóreflingar á sveitarstjórnarstiginu eins og það hefur verið kallað í félagsmálaráðuneytinu. Þetta litla frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra sem er hér til afgreiðslu og lýtur eingöngu að því að reka flóttann, fresta sameiningarkosningu frá því í apríl fram í október er enn eitt dæmið um hvílíka andhverfu þetta stórátak nýs félagsmálaráðherra til að stórefla sveitarstjórnarstigið birtist í. Ég sá það á heimasíðu ráðuneytisins að enn reynir hæstv. ráðherra og fólk hans að halda haus og tilkynnir um frestunina á sameiningarkosningum, þessa hungurlús sem er hvorki fugl né fiskur í niðurstöðu tekjustofnanefndar, þessu auða blaði hvað varðar verkefnatilflutning, allt undir heitinu Stórefling sveitarstjórnarstigsins, átakið stóra og mikla. Mikill er máttur minn, en mér er skapi næst að halda að menn hefðu betur gert þetta með hófstilltari hætti.

Mér finnst margir hv. stjórnarliðar nálgast viðfangsefnið með býsna sérkennilegum hætti svo ekki sé meira sagt. Margir þeirra sitja í sveitarstjórnum enn þann dag í dag og fjölmargir hafa verið sveitarstjórnarmenn á árum áður og ættu því að þekkja innviði í rekstri sveitarfélaga. Þeir nálgast þetta eins og um samningaviðræður sveitarstjórnarinnar annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar um kaup og kjör sé að ræða, eins og aðilar vinnumarkaðarins, bara að annar aðilinn er miklu sterkari en hinn og getur með einhliða ákvörðun þegar þreytist á karpinu tekið um það ákvörðun að svona skuli það vera en öðruvísi ekki. Með öðrum orðum sé þetta bara togstreita um krónur og aura, togstreita sem ég endurtek að er með þeim hætti að þegar menn þreytast á karpinu eins og gerðist núna er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga einfaldlega kallaður á fund fjármálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra fær að sitja við hlið. Þar er tilkynnt einhliða að svona sé þetta og lengra verði ekki komist. Þetta eru auðvitað ekki samningar frjálsborinna aðila. En þetta er kannski ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er: Hvar liggur hinn pólitíski vilji ríkisstjórnarflokkanna í málefnum sveitarfélaganna? Hver er tilgangur átaksins þegar allt kemur til alls? Var hann ekki sá, eins og stendur í yfirskrift enn þann dag í dag, að stórefla sveitarstjórnarstigið, að taka skref sem um munaði til að færa völdin, færa þjónustuna frá miðstýrðu ríkisvaldi heim í hérað? Ég spyr: Hvar er sú sýn til staðar enn þann dag í dag?

Það dugir ekki í umræðunni þegar menn ætla að smokra sér fram hjá grundvallar pólitískri umræðu að vísa til þess að kannski sameinist einhver sveitarfélög í haust. Þá þurfi aftur að setjast niður og semja upp á nýtt um breytta tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og ef mönnum dettur í hug að færa öldrunarþjónustuna, færa málefni fatlaðra eða hvaðeina byrji nýr kapítuli. Við erum alltaf í sömu sporum.

Frú forseti. Hér held ég á bók sem gefin var út árið 2000. Hvað heitir hún? Hún er skýrsla tekjustofnanefndar sem þá var á sett og skilaði niðurstöðum. Sá sem hér stendur var í þeirri nefnd. Það er eins og ég sé kominn í umhverfi fimm ár aftur í tímann því það hefur ekki nokkur skapaður hrærandi hlutur gerst á heilum fimm árum í tíð núverandi ríkisstjórnar þegar kemur að samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það er algjörlega status quo.

Það er ekki nóg með að ekkert hafi gerst, heldur hitt að menn eru svo harðvítugir að þeir leyfa sér nánast með beinum hætti að endurtaka upp á punkt og prik, nánast án þess að breyta um orðalag, fyrirheit sem gefin voru í október árið 2000 og ætla að endurtaka og gjörnýta loforðið aftur í mars 2005. Ég ætla að gefa frú forseta lítið dæmi þar um.

Í þessum nýju fyrirheitum tekjustofnanefndar, meiri hluta hennar, er talað um að nú eigi að kostnaðarmeta áhrif laga og reglugerða sem hér eru sett á þjónustuumfang sveitarfélaga. Í nefndinni í október 2000 segir: „Nefndin leggur til að það verði með formlegum hætti lagt mat á fjárhagslegar afleiðingar nýrra lagasetninga fyrir sveitarfélögin.“ Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra: Hvað hefur hann verið að gera umliðin tvö ár? Hann getur auðvitað ekki svarað fyrir flokksbróður sinn, hæstv. fyrrum félagsmálaráðherra, Pál Pétursson. En að leyfa sér að koma með þessi sömu áform aftur fimm árum síðar og reyna að selja þau úr þessum ræðustóli sem einhver tímamót í samskiptum ríkis og sveitarfélaga er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Það er bara ekki mönnum bjóðandi. Ég bið hæstv. ráðherra að svara því hvers vegna þetta var ekki komið í framkvæmd fyrir löngu. Þetta er lítið dæmi.

Annað dæmi: Til að hafa það á hreinu var sá sem hér stendur auðvitað andvígur þeim plástrunaraðferðum sem gripið var til í tekjustofnanefndinni árið 2000, síðustu lotunni. Það voru smáskammtalækningar sem engu björguðu og allir vissu að engu mundu bjarga, enda færðist allt í sama farið tveimur árum síðar og viðvarandi hallarekstur sveitarfélaganna vítt og breitt um landið hófst og er ekki séð fyrir endann á því. Hver var lausnin þá? Hvað halda menn? Jú, jú, 700 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þetta var í október árið 2000. Þekkja menn töluna? Þekkja menn aðferðina? Já, þetta er nákvæmlega sama tala, nákvæmlega sama aðferðafræði og lagt er upp með núna. Hvað átti að fylgja? Jú, það átti að endurskoða aðeins úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þekkja menn það líka? Halda menn að þessi aðferð hafi leitt til þess að orðið hafi gjörbreyting á og tímamót í samskiptum ríkis og sveitarfélaga þannig að menn gætu farið að taka markviss skref sem á tyllidögum er talað fyrir um að efla sveitarstjórnarstigið til dáða þannig að það geti tekið á móti þeim verkefnum sem við tölum líka um á tyllidögum að mikilvægt sé að færa heim í hérað? Nei, aldeilis ekki. Það hefur ekki hrærandi hlutur gerst. Ekki nokkur skapaður hrærandi hlutur í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Í heil tíu ár hefur verið status quo ástand og það sem verra er, sennilega erum við lent í bakkgírnum. Þá segja menn: Jú, jú, það er búið að flytja grunnskólann. En hvar var sú ákvörðun tekin? Hún var auðvitað tekin í tíð Viðeyjarstjórnarinnar 1994.

Menn geta sett á langar ræður um þann tilflutning og það kemst örugglega aldrei nein endanleg niðurstaða í það hvernig þau kaup gerðust á eyrinni upp á krónur og aura. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið lengi að þar hafi verið vitlaust gefið, einkum og sér í lagi vegna þess að ríkissjóður sem langvarandi rekstraraðili grunnskólanna hafði drepið þá í dróma, hafði svelt þá um langt árabil sem gerði það að verkum að kröfur íbúa stórjukust þegar grunnskólinn kom í hendur sveitarfélaga og það er ekki nokkur maður, a.m.k. sem ég þekki og ég kalla þá eftir honum, sem reynir að halda því fram að grunnskólinn í dag undir stjórn sveitarfélaga sé slakari en grunnskólinn var undir stjórn ríkisins áður en til flutnings kom. Þar er auðvitað himinn og haf á milli og að minni hyggju gott dæmi um hvernig þjónusta batnar og verður gagnvirkari í höndum sveitarstjórnarstigsins en ríkisins.

Ég hef því alla tíð verið heitur talsmaður þess, bæði þegar ég var í sveitarstjórnarpólitík sjálfur og ekki síður eftir að ég settist inn á þing, að við verðum að hafa sýn og vilja, raunverulegan pólitískan vilja til að ljúka þessum málum en ekki spóla í sama farinu með einhverjum reddingum, mismunandi ódýrum, úr einni tekjustofnanefndinni á eftir annarri. Það er nákvæmlega það sem er að gerast þessa dagana í þessum lélegu tillögum tekjustofnanefndarinnar sem eru auðvitað ekki tillögur tekjustofnanefndar. Við skulum ekki vera að blekkja nokkurn mann hér með því. Þetta er einhliða ákvörðun hæstv. ráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um að svona skuli þetta vera og ekki öðruvísi.

Hverjum dettur í hug að ágætir sveitarstjórnarmenn á borð við Halldór Halldórsson, sem hefur haft uppi svardaga í hópi sveitarstjórnarmanna, eða sveitungi forseta þingsins, Halldórs Blöndals, Kristján Þór Júlíusson, séu ánægðir með þessa niðurstöðu þó að þeir láti þetta yfir sig ganga og þora yfirleitt ekki öðru, vegna rammpólitískrar, flokkspólitískrar stöðu þeirra? Við skulum bara segja hlutina eins og þeir eru. Þessir tveir menn til að mynda, sem ég ber mikla virðingu fyrir, hafa talað af miklum tilfinningahita fyrir sveitarfélög sín og sveitarfélagastigið á landinu. Dettur nokkrum í hug að halda því fram að þessir menn séu ánægðir? Auðvitað vildu þeir báðir vera á bókun bæjarstjórans í Hafnarfirði, Lúðvíks Geirssonar, sem sagði auðvitað sannleikann, að þetta er ekki neitt neitt. Þetta er ekki nokkur hrærandi skapaður hlutur. Þetta er í besta falli plástrun til örfárra mánaða, missira, hugsanlega ára, þó að ég stórefi það. Menn eru því sem næst í sama farinu.

Þannig er hinn pólitíski veruleiki hér. Menn skulu ekki fara að setja hér á einhverja leikþætti um eitthvað annað.

Ég nefndi áðan, frú forseti, að tilvísunin til niðurstöðunnar árið 2000 birtist ekki bara hér í skriflegum gögnum, það var eins og ég hefði endurlifað ræðu eins hv. þingmanns, Arnbjargar Sveinsdóttur, fyrr í dag. Hún sat í gömlu tekjustofnanefndinni. Hún sagði sömu hlutina. Hún sagði: „Þetta er að vísu ekki fullnægjandi, en þetta er skref í rétta átt. Við gerum þetta betur næst.“ Hún sagði þetta líka fyrir fimm árum. En fimm árum síðar gerist bara ekki neitt betra. Það er allt við það sama.

Ég hef stundum staldrað eilítið og oft og tíðum raunar við jöfnunarsjóðinn, er nú jafnaðarmaður, en ég er löngu hættur að skilja tilganginn í því þegar einn tíundi hluti allra tekna sveitarfélaga, heildartekna þeirra, þarf að vera í höndum félagsmálaráðuneytisins samkvæmt reglum sem það ráðuneyti setur, sem hér var sagt áðan með réttu, svo flóknum og svo þvælingslegum að það er tæplega á færi nokkurs einasta manns að botna í þeim. Við erum búin að setja lög um þann ágæta sjóð hér. Ég minnist þess að hafa tekið þátt í umræðum um slíka lagasetningu. Ég sat líka í endurskoðunarnefnd fyrir margt löngu, fyrir einum tíu árum síðan, um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem var þá miklu, miklu minni í sniðum. Það var ekki heiglum hent að botna upp eða niður í því sem þar var að gerast, átti ég þó að vera sérfræðingur í málinu, ég ætla bara að vera algerlega hreinskilinn með það. Ég þori að fullyrða það og hæstv. ráðherra leiðréttir mig þá, að hann væri ekki tilbúinn til að standa til svara hér í ræðustól eða einhverjum öðrum ræðustól og svara einstökum praktískum spurningum um aðferðafræði og úthlutanir úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ég held að hann sé nákvæmlega sama marki brenndur sá ágæti maður, hæstv. ráðherra. Bundin framlög, sérstök framlög, jöfnunarframlög, jöfnun tekjutaps vegna fasteignaskatts, húsaleigubætur, jöfnunarframlög til grunnskóla, stofnkostnaðarframlög, framlög til vatnsveitna á lögbýlum. Bara smádæmi. Það hefur enginn heildaryfirsýn yfir þetta. Ekki nokkur maður.

Hér var sagt áðan og ég ætla að endurtaka það. Gefið var til kynna af einum ágætum hv. alþingismanni að það væru til sveitarfélög á landinu sem gerðu út á jöfnunarsjóðinn. Það er bara einfaldlega þannig. Það eru til smá sveitarfélög, örsmá sveitarfélög í landinu sem ekki hafa nokkurn áhuga á því að sameinast, eingöngu vegna þess að þá fá þau ekki tékkann úr jöfnunarsjóði. Það er auðvitað grafalvarlegt mál og er öfugmæli á þessu markmiði sem við öll viljum þó stefna að, a.m.k. í orði kveðnu.

Gleymum því ekki, frú forseti, að jöfnunarsjóðurinn er auðvitað ekki peningar sem koma úr ráðuneytum eða peningar sem detta af himnum ofan. Það eru heldur ekki skatttekjur ríkissjóðs. Nei, það eru að þriðjungi skatttekjur sveitarfélaganna sjálfra. Það eru sveitarfélögin sjálf sem halda úti dreifðum byggðum á landinu. Þá á ég við að það eru stóru sveitarfélögin þar sem 170 þús. manns búa sem að stærstum hluta til skaffa jöfnunarsjóðnum 3,4 milljarða. Það kann vel að vera að það sé ekkert að því en það er hins vegar rétt að halda því mjög ákveðið til haga að það er ekki ríkissjóður sem tryggir þetta jöfnunarhlutverk, það eru sveitarfélögin sjálf að verulegu marki.

Það er hins vegar algjört grundvallaratriði að menn fari að gíra sig niður úr þessu kerfi og hugsa málið þannig að um leið og við ætlum að stækka sveitarfélögin til að efla þau fjárhagslega, fjölga íbúum og gera þau í stakk búin til að geta staðið undir eigin skuldbindingum eins og sakir standa og líka í framtíðinni, séum við ekki að framkvæma í öfuga átt með því að stækka jöfnunarsjóðinn von úr viti. Það er ekki bara svo að hæstv. ráðherra fari þar á undan, nei, nei, það eru einstakir hv. þingmenn, menn á borð við Guðjón Hjörleifsson, fyrrum bæjarstjóra í Vestmannaeyjabæ og núverandi hv. þingmann, sem tala hreinskilnislega um það að til að mynda þær nýju 700 millj. kr. sem greiða á, hvað þrisvar sinnum, eigi allar að fara samkvæmt einhverju sértæku regluverki til sveitarfélaga sem ég kann ekki skil á.

Það var ekki eingöngu það. Nei, afsakið, og ég leiðrétti mig, frú forseti, hann var að tala um að nýju fasteignaskattarnir ættu líka að renna inn í jöfnunarsjóðinn og stækka hann aðeins meira. Á hvaða ferðalagi eru menn? (Gripið fram í.) Bara Reykjavík, er hér gripið fram í, (Gripið fram í.) og ekki Seltjarnarnesið kannski? Á hvaða ferðalagi eru menn hér í sveitarstjórnarmálum? Hvað er ríkisstjórnin að fara? Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vill enga sameiningu, hæstv. ráðherra stamar hér í þá veruna að jú, jú, hann vilji það en ætli aðeins að fresta því. Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, ég veit ekki hvað hann vill í þessum sameiningarmálum, jú, jú, það var mikil og almenn ánægja í nefndinni hjá honum, en samt vill hann stækka jöfnunarsjóðinn. Bíðum við, frú forseti, ég botna ekkert í þessu. Ég verð að segja nákvæmlega eins og er.

Er að furða þó að maður láti í sér hvína stundum því að þessi málatilbúnaður er með þeim hætti að tæplega er hægt að taka hann alvarlega.

Ég sagði áðan og gæti auðvitað talað hér, ef tími gæfist, langt mál um allar þær þverstæður sem í þessum samskiptum eru og það dulmál sem menn tala hér og vita um leið, eins og hæstv. ráðherra og fylgismenn hans í þinginu, að menn reyna að gera einhvern mat úr því að halda eigi áfram að endurgreiða virðisaukaskatt af framkvæmdum vegna útrása. — Þá er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir farin, hæstv. umhverfisráðherra sem var búin að lofa þessu út um borg og bí árum saman. — Þetta tímabil rann út árið 2005. Það var tekið upp í tíð Viðeyjarstjórnar af þáverandi umhverfisráðherra Össuri Skarphéðinssyni og var gott framtak og allir vissu auðvitað að það mundi enginn hætta við það átak í miðju kafi og að samkomulagið sem gert var yrði einfaldlega framlengt. Það er ekkert nýtt í þessu, það veit hæstv. ráðherra. Það eru engin nýir peningar þarna. Menn í öngstræti eiga ekki að grípa til jafnódýrra ráða við vandamálum sínum.

Ég vil ljúka ræðu minni á eilítið bjartsýnum nótum og undirstrika það að mér er full alvara þegar ég tala um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Ég er ekki bara að blaðra af því að það passar hverju sinni. Ég vil sjá að við gerum raunverulega uppstokkun á þessum samskiptum, á tekjustofnum sveitarfélaga, að sveitarfélögin fái hlutdeild í bifreiðasköttum, fái hlutdeild í veltusköttum, þeim verði gert kleift að taka við málefnum eins og málefnum fatlaðra, eins og heilsugæslunni, öldrunarmálunum og að við gerum áætlun í þessu og látum verkin tala, en spólum ekki í sama farinu í heilan áratug eins og núverandi ríkisstjórn.