131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:10]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur farið yfir og kynnt frumvarp sitt um gæðamat á æðardúni. Það má til sanns vegar færa, eins og kom raunar fram fyrr í þessari umræðu, að þetta frumvarp snúist helst um lögskipaða dúnmatsnefnd. Lítið er í lagatextanum fjallað um matið sjálft og hvaða viðmið skuli höfð uppi í þeim efnum.

Ég hafði svo sem ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu. En frumvörpum af þessum toga fer fjölgandi í þessum sölum, þ.e. að við bætum við eftirlitsiðnaðinn og jafnan er viðlagið hið sama, að hæstv. ráðherrar bera því við að kröfur um slíkt komi frá Brussel, séu vegna ákvæða í EES-samningi. Stundum göngum við skrefinu of langt og gerum meira en þær kröfur gefa tilefni til. Ég hef það eilítið á tilfinningunni að svo sé í þessu máli. Ég fæ ekki séð í fljótu bragði að þessi orðaskipti og bréfaviðskipti við ESA lúti beinlínis að því að okkur sé fyrir lagt að taka upp lögskipaða dúnmatsmenn, enn einn eftirlitsiðnaðinn, heldur hitt að menn gæti þess að samsvarandi kröfur séu uppi hafðar á innanlandsmarkaði og erlendis.

Að vísu er mér sagt að innanlandsmarkaður sé hverfandi í þessum iðnaði, þeim landbúnaði sem æðarræktin er. Ég hef ekki á reiðum höndum hve stórt hlutfall hann er en væntanlega getur hæstv. ráðherra upplýst um það. Það er hinn erlendi markaður sem skiptir sköpum varðandi þessa starfsgrein. Svo ég leyfi mér, herra forseti, að hugsa upphátt þá er auðvitað ekki loku fyrir það skotið í þessu frumvarpi, og engum íslenskum lögum svo mér sé kunnugt um, að þessum varningi megi skipa í fyrsta, annan eða þriðja flokk. Það er gert með dilkakjöti og ýmsan varning annan þannig að við getum vel fallið undir þessi tilmæli ESA án þess að gera hámarkskröfur í öllum tilfellum. Það var um þennan þátt málsins.

Hitt atriðið sem þetta frumvarp lýtur að snertir hina lögskipuðu dúnmatsnefnd. Ég hlustaði eftir því áðan að þegar hæstv. ráðherra var spurður um hve mikið umfang hann sæi fyrir sér í þessum efnum. Ég heyrði ekki svar hans, hafi það komið. Þaðan af síður finnst mér að það sé ljóst hvað þetta kemur til með að kosta þótt fjármálaráðuneytið hafi reynt að skjóta á það.

Mér finnst það líka eilítið villandi í frumvarpstextanum að tala um það í 2. gr. að öllum sé gert að fara undir mælistiku lögskipaðra dúnmatsmanna en síðan sé í 3. gr. talað um matsbeiðendur. Hverjir eru matsbeiðendur í þessu samhengi? Er það ekki þá löggjafinn eða ráðuneytið? Í 2. gr. er ekkert gefinn valkostur, það er ekkert val, þannig að sumir vilji fá hina lögskipuðu dúnmatsnefnd yfir sig og aðrir ekki. Það er því ekki rétt að tala um matsbeiðendur, sem þýðir samkvæmt orðanna hljóðan æðarræktendur.

Ég get ekki látið hjá líða í þessu samhengi að fara aðeins nokkrum orðum um það, herra forseti, af því að mér er um það kunnugt eftir viðræður við marga sem í þessum bransa eru að skilaverð til bænda hefur nánast staðið í stað um langt árabil og það er að verða því miður nákvæmlega sama þróun í þessum geira landbúnaðarins og frumatvinnugreinunum í þeim sama atvinnuvegi að það er framleiðandinn sjálfur sem situr eftir með sárt ennið og virðisaukinn fer eitthvert allt annað.

En til að halda því til haga því sem nauðsynlegt er í þessu samhengi er auðvitað ekki rétt að menn telji sér trú um það hér að þessi varningur fari úr landi án þess að hann sé veginn og metinn. Þeir aðilar sem hafa sölu með höndum á erlendan markað hafa sína matsmenn en mér er ekki kunnugt um það og vonandi verð ég þá leiðréttur ef ég fer rangt með að gerðar hafi verið mjög alvarlegar athugasemdir við gæði þessarar vöru á erlendum mörkuðum á hinum síðari árum. Ég held þvert á móti að gæðin hafi verið býsna góð og eftir því sem ég best veit hafa ekki komið fram neinar athugasemdir eða neinir vankantar komið upp í þeim efnum þannig að af þeim ástæðum einum saman er ekki þörf á að setja á lögskipaða matsmenn. Greinin sjálf hefur séð um þetta. (Landbrh.: Lestu frumvarpið.) Það er auðvitað meginatriði málsins.

Ég vil hins vegar í þessu samhengi, af því að hæstv. ráðherra biður mig að lesa frumvarpið, segja honum líka frá því að það er eftirspurn eftir kannski öðru en þessu í þessari mikilvægu atvinnugrein. Það er að hið opinbera undir forustu hæstv. landbúnaðarráðherra og landbúnaðarráðuneytisins fari til að mynda fram með ítarlega rannsókn á því hvernig náttúran gerir sig í þessum efnum. — Nú kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra í salinn og hann þarf að hlusta líka því að þessar jarðir eru náttúrlega sjávarjarðir að stærstum hluta til þannig að það er mikilvægt að hann hlusti vel og læri örlítið. — Það er nefnilega þörf á að rannsaka ástæður þeirra sveiflna sem hafa átt sér stað í náttúrunni því að það hafa orðið feit ár og mögur ár í þessu eins og annars staðar en lítið vitað hvers vegna. Ég hvet því hæstv. ráðherra sem nærri standa, hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. sjávarútvegsráðherra, að þeir hugleiði það að taka höndum saman við framleiðendur og aðra hagsmunaaðila um að gera á því athugun og vísindalega rannsókn hvernig á þessu standi og hvort hægt sé að bregðast við á einhvern hátt. Þetta held ég að væri þarft verk.

Fram hefur komið að Japan er mikilvægur útflutningsmarkaður í þessum efnum og raunar er sumt af því sem fer til Japans einnig selt í gegnum Þýskaland. En það væri til að mynda mannsbragur að því af hálfu hæstv. ráðherra og hans liðs að hjálpa til við — og nú bið ég hæstv. ráðherra að leggja við hlustir, það er afar mikilvægt sem ég ætla að segja núna og mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra hlýði á ábendingar mínar í þessum efnum — að gera t.d. Bandaríkjamönnum grein fyrir því um hversu góðan varning er að ræða. Hæstv. sjávarútvegsráðherra gæti verið honum innan handar í því af því að hann er vanur kynningarstörfum í Bandaríkjunum þegar hvalurinn er annars vegar. En ég er að segja þetta í fullri alvöru því að svo miklar ranghugmyndir eru í gangi í henni Ameríku að þar hefur gengið illa að markaðssetja dúninn vegna þess að Bandaríkjamenn margir hverjir halda að hann sé reyttur beint af fuglinum. Og bara það ef hæstv. ráðherra gerði sér leið til Ameríku og leiðrétti þennan misskilning væri auðvitað stórt skref tekið til að opna nýja markaði því að auðvitað er þörf á því og þannig er það einfaldlega að bestu verðin gefast gjarnan í Bandaríkjunum.

Ég held því að í mörg horn sé að líta í þessu samhengi og ég verð að segja eins og er að tilfinning mín er sú, án þess að ég ætli að fara að setja mig þvert fyrir þær hugsanir sem í frumvarpinu liggja, að það eru kannski önnur atriði sem eru ofar og framar á þessum forgangslista en það eitt að setja opinbera dúnmatsmenn. Ég hafði a.m.k. ímyndað mér að ýmis verkefni væru brýnni í landbúnaðarráðuneytinu og þá ekki síst á þeim vettvangi landbúnaðarmála sem æðardúnninn er.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra, sem mér fannst óvenjuhófstilltur í kynningu sinni á þessu máli og ég hafði satt að segja á tilfinningunni að hann hefði ekki fullkomlega sannfæringu fyrir því en við þekkjum það hv. þingmenn, herra forseti, að þegar ráðherranum er heitt í hamsi og talar á sínum sérstöku nótum þá er það yfirleitt vegna þess að hann trúir á það sem hann er að segja. Því var ekki að heilsa í inngangsræðu hans einhverra hluta vegna.