131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:26]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að framlengja þennan díalóg okkar um hvort þetta frumvarp sé eina rétta leiðin til að nálgast ábendingar ESA. Ég treysti landbúnaðarnefnd fullkomlega til að fara nákvæmlega ofan í þá sauma og leysa úr því viðfangsefni þó að ég endurtaki áhyggjur mínar og efasemdir hvað það varðar að menn þurfi að fara þessa leið og hvort hún sé sú rétta í þeim efnum. Ég skal ekki um það segja.

En ég frábið mér hins vegar það hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að hann beri á menn þær sakir að verið sé að ljúga fátækt upp á íslenska bændur. Hverjir hafa verið að því? Ég veit ekki betur en fram hafi farið í sölum Alþingis árum og áratugum saman heiðarleg og málefnaleg umræða um staðreyndir mála í þeim efnum sem hafa birst okkur á þann veg að allt of margir bændur í frumatvinnugreinunum, kvikfjárræktinni ekki síst, búa við sultarmörk. Það sýna einfaldlega opinberar tölur. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að reyna að tala sig frá því og bera sakir á hv. þingmenn um að þeir séu að ljúga því upp á íslenska bændur. Auðvitað vita menn að bændur hafa það misjafnt. Sumir hafa það ágætt sem betur fer, aðrir standa illa að vígi, en veruleikinn er eftir sem áður sá sem opinberar tölur segja okkur. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að neita því heldur að skilaverðið til bændanna sjálfra, frumframleiðendanna, er auðvitað stundum í engu samræmi við hið endanlega markaðsverð. Þar liggur hundurinn grafinn. Um það höfum við jafnaðarmenn verið að tala árum og áratugum saman að reyna að koma málum þannig fyrir, skera á þessa milliliði, að meira verði eftir í vösum bænda. Tæpast getur hæstv. landbúnaðarráðherra verið á móti því eða hvað? (Landbrh.: Nei, nei.) Um það erum við þó sammála. (Landbrh.: Við erum sammála um það.)