131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Fjármálafyrirtæki.

197. mál
[15:46]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi sem við flytjum níu þingmenn Samfylkingarinnar. Það lýtur að endurbótum á fyrirkomulagi, ekki vil ég segja eignarhalds, öllu heldur ábyrgðarmanna eða stofnfjáreigenda í sparisjóðum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að fyrir réttu ári greip Alþingi inn í löggjöf um sparisjóðina þegar fréttir af því bárust að til stæði hjá tilteknum sparisjóði að brjóta upp sparisjóðaformið eins og við höfum þekkt það um langt árabil og færa það beint og óbeint inn í hið hefðbundna viðskiptabankakerfi. Það var vilji þingsins þá, og ég hygg að hann sé óbreyttur, að sparisjóðafyrirkomulagið eigi vel heima í íslensku fjármálaumhverfi í þessu stóra en fámenna landi sem við byggjum, enda hafa þeir sannað gildi sitt margir hverjir svo um munar.

Í þeirri orðræðu sem þá átti sér stað í febrúar 2004 voru fjöldamargir þættir þessara mála ræddir og reifaðir. Einn var sá er lýtur að því frumvarpi sem ég nú mæli fyrir. Í efnahags- og viðskiptanefnd sem ég sat í þegar þessi fyrrgreindu mál voru þar til umfjöllunar og afgreiðslu var komið mjög inn á þau efnisatriði sem er að finna í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Einnig flutti ég breytingartillögu við þá afgreiðslu máls. Ég lagði til að í samþykktum sparisjóða verði kveðið á um rétt viðskiptavina sparisjóðanna til að taka þátt í útboði á nýju stofnfé. Sú tillaga var að vísu felld af meiri hluta alþingismanna. Það er rétt að halda því til haga að varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar og talsmaður ríkisstjórnarflokkanna í því máli, því formaður efnahags- og viðskiptanefndar hv. þm. Pétur Blöndal var á ská og skjön við afstöðu stórs meiri hluta Alþingis í þessu efni, gaf til kynna í atkvæðaskýringu að efnahags- og viðskiptanefnd mundi sérstaklega skoða í framtíðinni þennan þátt. Þessi þáttur lýtur að, ég vil segja, umráðahaldi yfir sparisjóðunum sem er að sumu leyti dálítið ólíkt því sem gerist og gengur almennt í atvinnulífinu og er eðlisólíkt því fyrirkomulagi hlutafjár og hlutafjáreignar sem við þekkjum kannski best þar sem hlutabréf eru á markaði og ganga kaupum og sölum.

Rétt er að fara aðeins yfir sögu þessara mála. Þegar sparisjóðirnir stigu sín fyrstu skref voru til kallaðir svokallaðir ábyrgðarmenn sem ábyrgðust að hluta til skuldbindingar sparisjóðanna með því að leggja til eða skuldbinda sig til að vera í ábyrgð fyrir tilteknu fé. Það voru yfirleitt mjög litlar upphæðir sem viðkomandi lögðu fram ef einhverjar. Þeir voru engu að síður í ábyrgðum og komu að stjórn mála hjá viðkomandi sparisjóði, samþykktum, kusu stjórnarmenn, skipuðu þá og stjórnir síðan æðstu yfirmenn viðkomandi sparisjóða. Í tímans rás breyttist þetta hugtak ábyrgðarmenn yfir í stofnfjáreigendur og þá var vísað til stofnfjár sparisjóðanna. Enn og aftur voru þessar upphæðir afskaplega litlar og í engu samræmi við eigið fé sparisjóðanna enda liggur það fyrir sem ég mun gera nánar grein fyrir á eftir að stofnfé allra stærstu sparisjóðanna í landinu eru í engu samræmi við eigið fé þeirra og yfirleitt „nómínalt“.

Síðan gerðist það rétt um eða eftir aldamótin að hæstv. viðskiptaráðherra lagði hér fram lögfræðiálit þar sem því var haldið fram að það stangaðist á við stjórnarskrá að leggja hömlur á meðferð og viðskipti með þessa stofnfjárhluta. Ég vil láta það koma fram, frú forseti, að ég hef miklar efasemdir um þetta lögfræðiálit og tel að fara þurfi yfir það mál aftur, ekki síst í ljósi þess aðdraganda sem ég gat um fyrr í ræðu minni, að eigendur þessa stofnfjárhluta, áður fyrr ábyrgðarmenn, voru ekki í raun og sanni að kaupa sér verðmæti sem þeir gerðu ráð fyrir eða nokkur reiknaði með að yrðu endurgreidd með vöxtum og vaxtavöxtum og fylgdu markaðsvirði viðkomandi stofnunar. Þeir voru með öðrum orðum ekki eigendur sparisjóðanna eins og við þekkjum. En þetta lögfræðiálit setti Alþingi hins vegar dálitlar skorður á nýrri öld. Menn þorðu ekki að ganga gegn því og töldu að allar hömlur á viðskipti með þessa stofnfjárhluti gætu hugsanlega gengið á svig við stjórnarskrá. Ég ætlaði svo sem ekki í þessu frumvarpi að takast á við það álitamál sérstaklega en reyna hins vegar að draga úr áhrifum þess því að nú er málum svo komið að það er enginn raunverulegur munur á meðferð stofnfjárhluta og venjulegra hlutabréfa. Nýjasta dæmið, glænýtt dæmið í þá veru, er að finna í einum stærsta sparisjóðnum ef ekki þeim stærsta, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, sem núna rétt um áramótin tók um það ákvörðun að auka stofnfé sjóðsins og að sú stofnfjáraukning eigi að skila nálægt 1,3 milljörðum kr. í nýtt eigið fé inn í sparisjóðinn. Hvernig var síðan farið að því og hvernig er hugsunin hjá þessum stærsta sparisjóði landsins að gera þetta? Það er gert ráð fyrir því að þeim stofnfjáreigendum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sem fyrir eru verði gefinn kostur á því að kaupa tvo hluti fyrir hvern einn sem þeir eiga nú þegar. Með öðrum orðum þá á þetta enn að halda áfram í þessari fjölskyldu stofnfjáreigenda.

Þar með er auðvitað ekki öll sagan sögð því að einnig liggur fyrir samþykkt í þá veru að þeir stofnfjáreigendur sem til staðar eru í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sem miðað við tölfræði árið 2000, í október 2000 — í fylgiskjali með þessu frumvarpi er að finna yfirlit yfir fjölda stofnfjáreigenda, stöðu sparisjóðanna almennt eins og hún var, eins og ég segi, í október árið 2000. Þar kemur fram að 908 stofnfjáreigendur eru að Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Það hefur vafalaust breyst mjög verulega á síðustu fjórum, fimm árum. Hvað sem því líður þá var það einnig ákveðið á stofnfjáreigendafundi í SPRON að þessir stofnfjáreigendur ættu þess kost með öðrum orðum að kaupa tvo hluti fyrir hvern einn sem þeir eiga og á ákveðnu föstu verði. Framreiknað verði nafnverð hvers stofnfjárhluta sem seldur verður nálægt 44 þús. kr. Þeir stofnfjáreigendur sem fyrir eru geta með öðrum orðum keypt hvern hlut á 44 þúsund en, frú forseti, markaðsvirði þessara hluta er sjöfalt hærra.

Það kemur einnig fram í fréttum að á þessum sama fundi var upplýst um verðmæti þessara hluta. Við skulum segja að viðkomandi eigi 20 hluta stofnfjár í SPRON að uppreiknuðu nafnvirði, í kringum 700 þús. kr. Það selst núna í opnum eða lokuðum viðskiptum upp á 5,6 millj. kr. Það er með öðrum orðum áttföldun á verði stofnfjárbréfanna. Maður veltir fyrir sér hvort réttlátt sé og eðlilegt að þröngur valinn, handvalinn að miklu leyti, hópur einstaklinga sem á einhverju stigi máls á einhverjum tímapunkti var kallaður til með tiltölulega litla upphæð njóti þess að löggjafinn, að aðgerðir löggjafans eða aðgerðaleysi löggjafans eftir efnum og ástæðum geri það að verkum að menn hafi raunverulega fengið happdrættisvinning.

Ég hef hér staldrað kannski fyrst og síðast við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis sem er kannski ekkert mjög réttlátt því það er þó þannig að í þeim sparisjóði voru stofnfjáreigendurnir langflestir að tölu til, rétt í kringum þúsund. Til eru aðrir mjög stórir sparisjóðir, einn í mínum heimabæ, þar sem fjöldi stofnfjáreigenda er 45. Ég segi og skrifa 45. Þar er stofnfé aðeins 5,1 millj. kr. Það eru með öðrum orðum mjög lágar fjárhæðir sem hver stofnfjáreigandi hefur innt af hendi til þess að gerast stofnfjáreigandi, enda langflestir áður ábyrgðarmenn og um fjölgun er að ræða innan frá. Það eru fundir stofnfjáreigenda raunverulega sem samþykkja nýja félaga í klúbbinn. En eigið fé í þessum öfluga sparisjóði er — og nú segi ég enn og aftur í október árið 2000 — 1.782 millj. kr. Nú hefur það auðvitað hækkað verulega. Ég get ímyndað mér að það hafi a.m.k. tvöfaldast þannig að stofnfjáreigendur sem hafa greitt í formi óbeins hlutafjár upp á 5 millj. kr. eru nú handhafar fjár upp á 3 milljarða kr., 48 talsins. Maður getur rétt ímyndað sér það, ef aftur er vísað til þessarar hliðstæðu við SPRON, hvaða fjárhæðir er í raun um að tefla ef sama nálgun yrði viðhöfð í þessum sparisjóði og í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, ef þessir hlutir yrðu settir á markað. Við værum raunverulega að tala um tugi milljóna kr. sem væru í höndum hvers einstaklings í þessum viðkomandi sparisjóði. Ég hef staldrað hérna við tvo sparisjóði sérstaklega og gæti farið víðar yfir sögu. Ég gæti farið suður með sjó þar sem er að finna einnig öflugan sparisjóð. Ég gæti farið í Sparisjóð vélstjóra þar sem í þeim tveimur sparisjóðum eru um 500 stofnfjáreigendur. Allt ber þetta að sama brunni og maður getur ekki látið hjá líða að líkja þessu eilítið saman við kvótakerfið okkar „góða“ þar sem ákvörðun á hinu háa Alþingi á sínum tíma býr til andlag verðmæta sem í sumum tilfellum — í sumum tilfellum, undirstrika ég — viðkomandi hafði ekki unnið fyrir og vegna þess að á tilteknu tímabili í sögu sjávarútvegs á Íslandi var einhver tiltekinn hópur manna sem átti skip og báta og var við veiðar. Við þekkjum hvað hefur gerst í kjölfarið þar sem þessi grundvallarverðmæti þjóðarinnar hafa gengið kaupum og sölum og sumir hafa orðið vellauðugir af því að versla með þessi grundvallargildi.

Það er af þessum ástæðum að ég legg til að Alþingi Íslendinga mæti þessu óréttlæti á þann hátt að sparisjóðunum verði gert, þegar þeir grípa til þess ráðs sem ég hygg að þeir muni margir gera í vaxandi mæli samanber ákvörðun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis vegna þess að stofnfé langflestra þeirra er mjög lágt, samanborið við eigið fé, að auglýsa það og gera öllum viðskiptamönnum sparisjóðsins á ákvörðunardegi um stofnfjárréttindi kleift að verða stofnfjáreigandi og allir sitji við sama borð í þeim efnum. Þannig yrði ekki áfram lyft undir þá sem einhverra hluta vegna voru dregnir út á sínum tíma eða handvaldir af ótilgreindum aðilum heldur verði öllum viðskiptamönnum gefinn kostur á að koma þar að sama borði með viðunandi verði og á sömu kjörum. Það var aldrei tilgangur löggjafans, hvorki með aðgerðum hans né aðgerðaleysi, að búa til andleg verðmæti svo hundruðum milljóna, ég vil segja milljörðum skipti, og færa í aðra hönd ábyrgðarmönnum, sem lögðu lítið til þótt þeir legðu til ábyrgð sína, milljónir eða tugmilljónir króna.

Ég vænti þess, frú forseti, að málið sé þannig vaxið að hv. þingmenn skynji og skilji að svona geti þetta ekki verið og að taka þurfi á þessu máli. Ég geng þó ekki lengra í frumvarpstexta en að tala um að öllum viðskiptamönnum skuli boðin þátttaka í stofnfjáraukningunni að hluta. Það ætti auðvitað að vera að öllu leyti en ég vænti þess að efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég vona að taki málið til umfjöllunar, kalli eftir athugasemdum og afgreiði fljótt og vel, skoði það og gaumgæfi. Ég geri það ekki að neinu úrslitaatriði.

Kjarni málsins er ákveðin afskræming á almennum venjubundnum réttlátum viðskiptaháttum eins og við þekkjum þá. Ég er ekki að ráðast að einum eða neinum í því samhengi. Sumir þessara sparisjóða eru börn síns tíma og hafa af einhverjum ástæðum ekki náð að þróast eðlilega. Á hinn bóginn er því ekki að leyna að sumir sparisjóðsmenn — einn þeirra er hér í þessum sal að öllu jöfnu, hv. þm. Pétur Blöndal — hafa ekkert dregið úr því hver tilgangurinn er. Hv. þm. Pétur H. Blöndal var til skamms tíma, til síðustu áramóta, stjórnarformaður í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Hann segir berum orðum í viðtali við viðskiptablað Morgunblaðsins, þar les ég, með leyfi forseta:

„Pétur sagði verkefninu sem lagt var upp með nú lokið, þ.e. að nú gætu stofnfjáreigendur, sem það vildu, selt stofnfé sitt á viðunandi verði.“

Það er á áttföldu, tíföldu, tuttuguföldu, þrjátíuföldu upphaflegu verði, raunvirði, því ég reikna vísitölu þar inn í. Ég les þá áfram:

„Upplýsti hann á fundinum að sjálfur hefði hann selt stofnbréf sín í SPRON.“

Sennilega hefur það ferðalag skilað honum einhverju. Ég er geri ekki athugasemdir við að menn reyni að hámarka hagnað sinn, það er auðvitað eðli hvers manns. Hins vegar er það lágmarkskrafa að minni hyggju að Alþingi bregðist við og geri skipan mála hjá sparisjóðnum þannig úr garði að hún verði gagnsæ og þannig að viðskiptamenn njóti ávallt bestu kjara og sökum sérstöðunnar sem sparisjóðirnir búa við eigi þeir möguleika á að gerast ábyrgðarmenn eða stofnfjáraðilar, með beinum hætti kjósi þeir svo.