131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum.

561. mál
[14:43]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um viðbrögð við óskum Fangelsismálastofnunar um úrbætur í geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsanna. Hv. þingmaður vekur máls á mjög mikilvægum þætti. Sem kunnugt er er heilbrigðisþjónusta við fanga á Íslandi á ábyrgð heilbrigðisyfirvalda. Undanfarin ár hefur margt verið gert til að bæta þessa þjónustu, bæði hina almennu læknisþjónustu í fangelsum sem og geðheilbrigðisþjónustu við fanga.

Heilbrigðisvandamál fanga eru að sjálfsögðu af ýmsum toga en einungis hluti þeirra verður leystur innan veggja fangelsanna með þeim úrræðum sem þar bjóðast. Fangar njóta því einnig annarra úrræða heilbrigðisþjónustunnar utan fangelsa eftir því sem atvik og sjúkdómar krefjast. Þjónustusamningar eru við þær heilbrigðisstofnanir sem nálægar eru fangelsunum svo sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands vegna þjónustu við fangelsið að Litla-Hrauni og heilsugæslustöðin á Akureyri vegna þjónustu við fangelsið þar.

Af hálfu heilbrigðisstarfsmanna, Fangelsismálastofnunar og annarra aðila, svo sem erlendra eftirlitsnefnda sem og umboðsmanns Alþingis, hefur verið lögð áhersla á að auka þjónustu geðlækna. Við fangelsið á Litla-Hrauni hefur verið fjórðungsstaða geðlæknis en annars staðar hefur sú þjónusta verið keypt eftir þörfum fangelsanna, svo sem á Akureyri.

Ég get upplýst Alþingi um það að ég hef nýlega heimilað Heilbrigðisstofnun Suðurlands að auka verulega þjónustu geðlæknis við fangelsið á Litla-Hrauni með því að veita stofnuninni heimild til að auglýsa eftir sérfræðingi í geðsjúkdómum í hálfa stöðu til viðbótar við þá fjórðungsstöðu sem fyrir var. Geðlæknisþjónustan þrefaldast frá því sem nú er. Í tölum þýðir þetta að á þessu ári voru fjárveitingar auknar um 18 millj. kr. til að efla heilbrigðisþjónustu við fanga og auk þess voru veittar 4,8 millj. kr. til réttargeðdeildarinnar að Sogni til að standa undir viðbótarstöðu geðlæknis. Birtist einmitt auglýsing um lausa stöðu geðlæknis við Heilbrigðisstofnun Suðurlands síðasta sunnudag í Morgunblaðinu og á Starfatorgi.

Frekari aukning á þjónustu við fanga mun verða í sífelldu endurmati. Einkum hafa sjónir manna beinst að vandamálum fíknar og geðsjúkdóma og mun af hálfu ráðuneytisins áfram verða unnið að því að bæta eftir fremsta megni þessa þjónustu í fangelsum landsins.

Virðulegi forseti. Ég vona að ofangreindar upplýsingar þar sem fram kemur að um þreföldun geðlæknisþjónustu á Litla-Hrauni er að ræða svari spurningum hv. þingmanns.