131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Lóðaúthlutunarreglur Reykjavíkurborgar.

718. mál
[15:51]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Birgissyni fyrir að hreyfa þessu máli. Í ljós kemur við þessa stuttu umræðu að spurningarnar eru langtum fleiri en svörin. Lykilhugtakið í þessari umræðu virðist vera jafnræði. Ég spyr: Er mikið jafnræði fólgið í því að skáka út lóðum, þessum verðmætum til þeirra sem mesta hafa peninga í uppboðsleiðinni? Er mikið jafnræði fólgið í því, af því að hæstv. ráðherra kom með dæmi, að einstaklingur, við skulum segja í Reykjavík, lenti í sama útdráttarpotti og sex manna fjölskylda sem hefur alið allan sinn aldur í Hafnarfirði þar sem útdráttur fer fram, verið þar skattgreiðendur árum og áratugum saman? Hér er því úr vöndu að ráða. Mín hugsun án þess að það finnist nein heildarlausn á þessu er sú: Leyfum sveitarfélögunum sjálfum að vera í friði með þetta. Þar eru kjörnir fulltrúar á ferðinni og þeir eiga að bera ábyrgðina að langmestu leyti. Það hefur gengið þokkalega, með mistökum auðvitað, en alla jafna er það affarasælast.