131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

266. mál
[15:53]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sönnu rétt hjá hv. þingmanni að sá sem hér stendur sat í þeirri nefnd sem lagði grunninn að nýjustu breytingu til stjórnarskipunarlaga, t.d. þeirrar kjördæmisbreytingar sem samþykkt var og kosið var eftir í síðustu kosningum. Vel kann að vera — ég hef ekki gert á því nákvæma könnun — að fylgi við þá breytingu í þingsölum sé eitthvað lítið. En eitt veit ég, að sá sem hér stendur studdi það heils hugar og ver þá breytingu fram í rauðan dauðann því þó að hún hafi ekki verið gallalaus var hún miklu betri en kyrrstaða og það að ekkert hefði verið gert.

Á sama tíma og ég samþykkti það hér í atkvæðagreiðslum í tvígang fyrir kosningarnar 1999, eða hvenær það nú var, og í umræðum um þau mál sagði ég um leið að þetta væri aðeins skref í þá átt að gera landið að einu kjördæmi. Mín tilfinning er einmitt sú að eftir að kjördæmum fækkaði og þau stækkuðu landfræðilega þá eru þingmenn farnir að hugsa í stærri heildum, eru komnir út fyrir fjörðinn sinn, komnir út fyrir bæinn sinn og farnir að átta sig á því að það eru stærri hagsmunir, heildarhagsmunir sem eiga að ráða för í störfum okkar númer eitt, tvö og þrjú.

Svo er hitt, sem er auðvitað ekkert veigalétt í þessu, að það skref sem tekið var þrátt fyrir allt í síðustu lotu minnkaði misvægi atkvæða stórkostlega úr því að vera einn á móti fjórum í það að verða aldrei meira en einn á móti tveimur og það er nú umtalsverður árangur í lýðræðisátt. Ég þreytist því aldrei á því að verja þá breytingu sem gerð var. Hún var umdeild. Hún var ekkert gallalaus en var miklu betri en að gera ekki neitt. Við það höfðu þingmenn hér og þjóð búið áratugum saman og þá kyrrstöðu þurfti að rjúfa. Það tókst og við erum að undirbúa næstu skynsamlegu skref.