131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Staða Landspítalans.

[13:21]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Frú forseti. Það er sannarlega unnið frábært starf við afskaplega erfiðar aðstæður á Landspítalanum. Það er líka staðreynd að varanlegar hagræðingar- og sparnaðarkröfur svo árum skiptir skapa vissulega pressu og þreytu í röðum starfsfólks. Það er einfaldlega staðreynd sem við verðum að horfast í augu við.

Það er líka staðreynd, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að fjármunir til spítalans hafa að raungildi minnkað mitt í miðju góðærinu. Menn geta hins vegar deilt um það endalaust hvort það fjármagn sé frá einum tíma til annars mikið eða lítið. Hitt er ljóst að sparnaðarkröfur birtast m.a. í því, sem mörgum kann að finnast ekki stórt atriði, að skera þurfti niður embætti trúnaðarmanns sjúklinga, sem ég legg mikla áherslu á. Spítali á borð við Landspítalann er ekki bara hátæknisjúkrahús heldur þarf hann að taka til langtum víðtækari þátta, þar á meðal félagslegra og sálfræðilegra og líknarþátta í störfum spítalans.

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil leggja höfuðáherslu á. Landspítalinn er sannarlega flaggskipið í íslensku sjúkrahúskerfi og langstærsti spítalinn á landinu. Ég held að það sé mikilvægt að hann stækki ekki miklu meira. Ég held að það sé mikilvægt að efla samstarf enn frekar við spítala í kringum höfuðborgarsvæðið, í Hafnarfirði, St. Jósefsspítala, á Akranesi, á Selfossi og í Reykjanesbæ, þannig að þessir spítalar myndi það varnarnet sem mikilvægt er í kringum þetta flaggskip.

Einnig segi ég það, frú forseti, að þetta húsnæði sem við búum hér yfir er búið að plástra ár frá ári áratugum saman og við svo búið má ekki standa. Það þarf að setja niður hið allra fyrsta verkefnaplan tímasett á ár hvenær ráðist verði í og hvenær lokið við byggingu nýs landspítala. Það mun sannarlega bæta aðstöðu starfsmanna, (Forseti hringir.) aðstöðu sjúklinga og lækka, þegar til lengdar lætur, rekstrarkostnað spítalans.