131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Sáttmáli um verndun mannréttinda og mannfrelsis.

705. mál
[14:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Örstutt. Ég hef ekkert við þetta innlegg hæstv. ráðherra að athuga en vil hins vegar undirstrika það að ég tók mjög undir það að einmitt þessi rútínumál og þær breytingar sem gerðar eru á samsetningu dómara og fjölda þeirra hverju sinni væru aðlagaðar að nýjum veruleika, stórauknum fjölda kærumála af ýmsum tegundum, en vildi þó hins vegar halda því mjög ákveðið til haga að sú nýskipan um hin stærri mál sem getið er um í lið 4 í athugasemdum með frumvarpi þessu leiddi ekki til að það væri þó þrenging á þeim málum sem teljast stór eða lítil eftir efnum og ástæðum og hafa fengið þar efnisumfjöllun. Það er eins og ég sagði mjög mikilvægt einmitt að þessi rútínumál verði afgreidd inn eða út úr dómnum mjög hratt og vel. Á því hefur verið talsverður misbrestur.

Ég get í sjálfu sér tekið undir vangaveltur hæstv. ráðherra um þetta viðbótardómstig gagnvart lýðræðisríkjum sem eru með þroskað og þróað dómsvald. Ég hygg þó að þau séu ekkert allt of mörg þegar saman eru dregin, þau mál sem héðan hafa borist og fengið efnisafgreiðslu hjá dómstólnum á liðnum árum. Þau mál sem um ræðir hafa með réttu vakið talsverða athygli en ég held þó að þetta hafi ekki skapað neinn sértækan vanda, a.m.k. ekki í dómskerfi okkar.