131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[23:59]

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hafa menn velt því fyrir sér hvort það mundi gera umræðunni gagn eða yrði til að upplýsa hana frekar að halda þessari umræðu áfram. Mitt svar er: Já, ég er sannfærður um það, þegar ég horfi yfir þann glæsilega hóp sem á eftir að tala hér á eftir, að þegar maður verður búinn að hlýða á þær umræður, sem verða kannski eitthvað fram eftir kvöldi og kannski eitthvað fram yfir miðnættið úr þessu, þá við verðum miklu betur upplýst um þetta mikla mál. Þess vegna væri að mínu mati, virðulegi forseti, langheppilegast að við mundum komast að þeirri spaklegu niðurstöðu að hætta að ræða um formið og taka til við að fjalla um efnisatriði málsins að nýju, þannig að við sem hlýðum á en hyggjumst ekki taka þátt í umræðunni getum orðið ögn betur upplýst um það sem hér er um að ræða.

Ég held að það væri ekkert ofverkið okkar að halda því áfram núna fram eftir nóttunni vegna þess að þetta er mál af því taginu sem við höfum verið að ræða hér núna lengi dags. Því væri æskilegt að hafa samfellu í umræðunni þannig að við sæjum svona yfir allt sviðið, fyrir nú utan það að þetta er líka ákveðin aðferð við það að greiða fyrir umræðunni um hitt stóra málið, (Gripið fram í.) skattskyldu orkufyrirtækja. Okkur sem höfum hlustað á umræðuna í dag er ljóst að búið er að fara nokkuð um sviðið í þessum efnum. Það er búið að auðvelda þetta. Þetta er eins konar undanfari eins og talað er um stundum varðandi skíðin. Nú er því miklu auðveldara að fást við umræðuna um hitt málið. Við erum einfaldlega búin að taka úr okkur töluverðan hroll í málinu.

Ég hvet því til þess, virðulegi forseti, að við höldum einfaldlega áfram fram eftir. Eins og við þekkjum sem setið höfum fáein ár á þingi þá er það nú yfirleitt þannig þegar fer að líða nær þinglokum að þá eru haldnir kvöldfundir. Ég held að þetta sé sá fyrsti sem við höfum haldið í þessari lotu og ekkert er við því að gera að við höldum aðeins lengur áfram og tökum til við þetta mál.

Málið hefur verið afgreitt út úr nefndinni í góðu samkomulagi. Hér er um að ræða einróma samþykkt iðnaðarnefndar á málinu. Að vísu eru fyrirvarar þriggja hv. þingmanna. En engir þingmenn lýsa sig andvíga þessu frumvarpi þannig að það á að vera hægt að ljúka þessari umræðu í prýðilegri sátt. Þeir þingmenn sem ég veit að vilja auka við umræðuna með því að halda fáeinar ræður til viðbótar mundu auðvitað gera okkur hinum mikinn greiða með því að þær ræður yrðu nú haldnar og við upplýst um þetta mál.

Það er alveg rétt sem að ... (Gripið fram í.) Ég játa í svari mínu við spurningunni sem borin var fram hér nokkrum sinnum í umræðunni, þ.e.: Mun það upplýsa betur umræðuna að hún haldi núna áfram? Já, það mundi gera það og þess vegna eigum við auðvitað að halda þessari umræðu nú tafarlaust áfram.