131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:20]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Allt er þetta satt og rétt hjá hv. þingmanni en hann svaraði ekki þessum tveimur spurningum mínum.

Í fyrsta lagi er þetta: Hvers vegna hefur hann stutt niðurskurð til vegamála á liðnum árum sem einkanlega hefur bitnað, eins og hann gerði grein fyrir sjálfur í hinni ítarlegri ræðu, á höfuðborgarsvæðinu?

Hitt er það að ég vil hann útskýri fyrir mér hvernig þessi mál gengu til í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ráðherra samgöngumála er í þeim flokki og við höfum fylgst með orðaskiptum þeirra í fjölmiðlum. Það eru hins vegar fleiri á þessu svæði, hv. þm. Birgir Ármannsson stendur hér á bak við hann. Hvernig stendur á því að hv. þingmaður fékk engan stuðning, ekki einn einasta mann úr stjórnarliðinu? Hvað sýnir það? Hafa þessir menn ekki skilning á því sem hv. þingmaður segir? Hvers vegna er hann þessi „lone ranger“, þessi einfari í málinu?

Ég held að við verðum að fá einhverja útskýringu á því. Ég hef alla samúð með málstað þingmannsins í ákveðnum þáttum þessa máls en ég skil bara ekki hvað er á seyði í ríkisstjórninni. Ef hv. þingmaður er svona einn á ferð eru auðvitað okkar dyr opnar fyrir honum í Samfylkingunni, þar er nægilegt pláss.